Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvar í pólitík?

Nú eru kostningar á næsta leiti og ég er farin að velta fyrir mér hvað maður eigi að kjósa. Oftast hefur það verið í einfaldari kantinum að velja. Oftar en ekki gert samkvæmt vana heldur en að mikið hafi verið pælt í hlutunum. Nú er ég hins vegar að velta þessu fyrir mér. Fyrsta skrefið er að gera sér grein fyrir hvað það er sem maður vill sjálfur og síðan að finna eitthvert framboð sem fellur að því sem maður sér fyrir sér. Þetta finnst mér:

 

1.       Nýting auðlinda. Þá á ég við allra auðlinda láðs og lagar. Bændur hafa um aldir ræktað landið og gera enn. Þeim á að gera mögulegt að halda því áfram. Nú sem aldrei fyrr hlýtur okkur að vera ljóst að við VERÐUM að hafa innlenda matvælaframleiðslu í góðu lagi. Við þurfum að gera út á auðlindirnar umhverfis landið. Við eigum að veiða hval ef nóg er af honum og það er arðbært. Við eigum að veiða fisk af öllum tegundum eftir því sem til er af honum í sjónum. Ég held að kvótakerfið sé gott til verndar fiskistofnum en eitthvað er brogað við hvernig gengið var frá skiptingu auðsins í landi. Þrátt fyrir að í orði kveðnu eigi þjóðin fiskinn í sjónum er augljóst hverjum sem vill að í raun eiga kvótaeigendur fiskinn og þjóðarbúið hefur engan hag af veiði hans annan en óbeinan í formi virðisaukandi tekna og skatttekna af störfum tengdum vinnslu aflans. Þessu þarf að breyta. Náttúran er líka auðlind. Hana á að nýta skynsamlega eins og annað. Það þýðir ekki að virkja þurfi hverja lækjarsitru eða setja stóriðnað við hvern fjörð. Hins vegar eiga virkjanir rétt á sér ásamt stóriðnaði. Það þarf hins vegar að horfa á landið í heild sinni og skipuleggja virkjanir og stóriðnað með heill landsins í heild í huga. Það er hreinlega ekki nógu stórt til þess að hægt sé að skoða hvert einasta byggðarlag sérstaklega. Þjóðgarðar eru líka nokkrir á landinu. Þeir eiga undantekningalaust að vera lausir við vangaveltur um iðnað og virkjanir innan þeirra. Þjóðgarðar eru þar sem talið er að séu einhver náttúruverðmæti og þannig á það þá að vera. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu að þar sé skipulögð öflug ferðamannaþjónusta sem gefi þjóðarbúinu, og því landsvæði, góðar tekjur.

2.       Allir landsmenn hafi jafnan rétt og möguleika til náms. Gera þarf LÍN mögulegt að standa við þetta. Svo er ekki í dag. Hluti af þessum rétti og möguleikum til náms er að efla mennta- og háskóla í ríkiseign. Ríkið á að einbeita sér að því að efla ríkisskóla en ekki einkaskóla. Ef menn vilja reka einkaskóla á þeim að vera það frjálst en ekki á að vera sjálfsagt að fá framlög frá ríkinu og hafa þar að auki aðgang að styrktarfé og skólagjöldum. Það bæði gengur á skattfé okkar borgaranna og gefur einkaskólum forskot í uppbyggingu og kennslu sem ríkisskólarnir hafa ekki.

3.       Heilbrigðisþjónusta fyrir alla. Allir hafi aðgang að fullkominni heilbrigðisþjónustu. Nú þegar finnst mér of langt gengið í gjaldtöku fyrir læknisþjónustu. Augljóst er að þeir efnaminni þurfa að hugsa sig tvisvar um áður en tekin er ákvörðun um að leita sér læknisaðstoðar. Þetta má ekki gerast! Tannlæknaþjónustu á að fella undir heilbrigðisþjónustuna.

4.       Vegakerfið verði vandað. Vel þarf að forgangsraða í samgöngumálum þjóðarinnar. Ekki má lengur láta það viðgangast að það sé eðlilegt að samgönguráðherra hvers tíma hygli eigin byggðarlagi með vegabótum. Landið er það lítið að skoða þarf það í heild án tillits til annars en hvar þörfin er mest. Vegabætur á Vestfjörðum eru nauðsynlegar og einnig víða á Austurlandi. Einnig er nauðsynlegt að tryggja betur öryggi á hraðbrautum út frá Höfuðborgarsvæðinu bæði í vestur- og suðurátt. Dæmi um vegagerð þar sem fénu hefði mátt verja í eitthvað mun meira áríðandi eru t.d. Héðinsfjarðargöng og vegabætur um Öxi á Austfjörðum.

5.       Alþingi starfi allt árið. Þinghlé verði gerð í 6 vikur yfir sumarið og 2 vikur yfir jól og áramót. Þessi tími ætti að vera yfrið nægur fyrir þingmenn til að taka sín sumarfrí og fara í kjördæmin að hitta „sitt fólk“. Ef þeir vilja ekki vísitera á þessum tímum er hægt að stytta jólafríið og setja viku frí á einhverjum öðrum tíma vetrar. Þar að auki á þingflokkum að vera í lófa lagið að skipuleggja vikulega eða mánaðarlega viðtals- og símatíma þar sem þeir geta spjallað við sína umbjóðendur. Þannig eiga þeir að geta þeir að haldið sambandi við fólkið án þess að taka margra mánaða frí frá störfum á Alþingi. Með þessu móti er hægt að tryggja eðlilegri vinnutíma þingmanna, jafnari og vonandi vandaðri afköst við afgreiðslu frumvarpa auk þess að yngra fólk og þá aðallega konur treysti sér til að bjóða sig fram til Alþingis. Eins og staðan er í dag er það ekki fyrir venjulegt fjölskyldufólk að afsala sér fjölskyldulífi til setu á Alþingi.

6.       Þingmenn greiði atkvæði eftir sannfæringu sinni. Þingmenn greiði atkvæði með eða móti frumvörpum eftir því hvað þeim finnst um málefnið án tillits til þess flokks sem leggur frumvarpið fram. Það er algerlega ólíðandi að góð og gild frumvörp sitji föst í nefndum eða sé hafnað á þingi einungis vegna þess að minnihlutinn lagði þau fram. Þetta hefur allt, allt of oft gerst og nægir þar að nefna t.d. frumvarp um breytingu á fyrningafresti kynferðisbrota gagnvart börnum. Það frumvarp sat óratíma á þingi þrátt fyrir að í raun væru allir sammála um efni frumvarpsins. Algerlega ólíðandi vinnubrögð!

7.       Sjálfstæði einstaklingsins og sjálfsákvörðunarréttur. Hver einstaklingur beri ábyrgð á sjálfum sér. Ríkið á ekki að hafa vit fyrir einstaklingnum með óhóflegum boðum og bönnum. Einstaklingar eiga að hafa frið og leyfi til að gera það sem honum sýnist svo framarlega sem það brýtur ekki á næsta manni. Frelsi eins nær einungis að nefi næsta manns eins og einhver sagði. Þannig eiga lög og reglur að vera n.k. samskiptareglur sem samfélagð þrífst innan. Skyldusparnaður er t.d. ekki eitthvað sem mér finnst eiga rétt á sér. Fólki á að vera frjálst að spara til elliáranna. Þeim sem gera það ekki má hins vegar vera ljóst að geri þeir það ekki eiga þeir von á því að þrengra verði í búi í ellinni en ef þeir hefðu sparað.

8.       Umönnun aldraðra á að vera óaðfinnanleg. Við eigum að hugsa vel fyrir þörfum aldraðra. Óhóflegur lyfja- og lækniskostnaður á ekki að líðast, ekki frekar en „geymslur“ þar sem sjúk gamalmenni eru geymd á stofnunum. Hraustu fólki á að gera kleyft að búa sem lengst á heimilum sínum eða í einhvers konar sambýlum þar sem nauðsynleg þjónusta er í kallfæri. Þetta er fólkið sem kom okkur til manns og á rétt á mannsæmandi ævikvöldi. Allir eiga að fá lífeyri sem dugar til framfærslu.

9.       Skattar fari í rétt verkefni. Álagðir skattar fari til þeirra framkvæmda sem þeir voru ætlaðir. Ef verkefninu lýkur þá verði skattarnir felldir niður. Ef ennþá er þörf fyrir féð í aðra hluti þá verði lagðir á aðrir skattar til þess verkefnis. Ólíðandi er að sífellt séu lagðir á hinir og þessir skattar til tiltekinna verkefna sem síðan eru aldrei teknir af aftur. Jafnvel eru upprunalegu verkefnin aldrei unnin, sitja enn eftir þrátt fyrir margra ára skattheimtu til þessara hluta. Gott dæmi um svona meðferð skattfjár eru ótalmargir skattar tengdir bílum og vegakerfi landsmanna. Nú síðast var í fréttum meðferð ráðuneyta á s.k. umferðaröryggisgjaldi sem fer í eitthvað allt annað en umferðaröryggi. Óþolandi og dónaskapur við okkur sem greiðum þessa skatta.

 

Þetta finnst mér um hlutina. Hvað á ég þá að kjósa??


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband