Kemur fólki þetta við?

Stundum velti ég fyrir mér hversu maðurinn á erfitt með að meðtaka hegðun einstaklings sem er öðruvísi en hjá fjöldanum. Ég hef tvisvar á æfinni tekið ákvarðanir sem hafa ekki þótt venjulegar og viðbrögð fólks verið ótrúlega mikil.

 

Í fyrra sinnið ákvað ég að minnka vinnu til að vera meira heima hjá börnunum mínum. Dóttir mín var eitthvað 8 – 9 ára og mér fannst hana vanta festu í tilveruna og aðeins meiri tíma og aðstoð við heimanámið. Þar sem ég hafði tök á því, samdi ég við vinnuveitandann og fór að hætta kl. 2 á daginn og fara heim til að sinna uppeldinu. Viðbrögð fólks voru ótrúleg. Það gat varla einn einasti maður skilið þessa ákvörðun mína. Það héldu allir að það væri eitthvað að heima við. Stelpan hlaut að vera með hegðunarvanda, veik, fötluð eða ég veit ekki hvað. Það var ekki fyrr en nokkru síðar þegar ég ákvað að fara í kvöldskóla og læra forritun og kerfisfræði sem fólk sættist við að ég minnkaði vinnuna. Það að sinna uppeldi var hreint ekki nóg ástæða til að minnka vinnu.

 

Seinna skiptið er enn ekki yfirstaðið. Ég hef s.s. ákveðið að hætta í góðu skrifstofustarfi til þess að sinna eigin fyrirtæki. Fyrir utan að sjá um bókhaldið mun ég vinna mest við að keyra vörubíl. Ég er að komast að því að svona gerir maður ekki. Allavega ekki nema maður sé skrýtinn. Ég er reyndar kannski skrýtin en það er allt annað mál. Í báðum þessum tilvikum finn ég mig stadda í mikilli vörn gagnvart fólki allt í kringum mig. Reyndar ekki minni nánustu fjölskyldu heldur öðru fólki sem kemur þetta í raun ekkert við.

 

Ef ég upplifi svona mikil viðbrögð við svona minniháttar hliðarspori við það sem venjulegt er, hvað mega þeir þá þola sem taka verulega óvenjulegar ákvarðanir? Ein kona hér í bloggheimum hefur hnýtt sýna bagga töluvert öðrum hnútum en almennt gengur og gerist. Hún hefur komið fram opinberlega og sagt frá óvenjulegu lífi sínu. Þar með hefur hún líka lent illilega milli tannana á fólki. Ég verð að viðurkenna að ég hef í einhverjum tilfellum tekið þátt í umræðum um hennar líf og bið hana hér með afsökunar á því. Ég hef hins vegar aldrei talað illa um hennar ákvarðanir og lífsval. Ég átti hins vegar ekkert með að vera að ræða hennar líf frekar en annara í þeirra fjarveru.

 

Það sem ég er að segja með allri þessari langloku er að ég skil ekki hvaða máli það skiptir náungann hvernig annað fólk lifir. Svo framarlega sem fólk gengur ekki á rétt annara, lætur náungann í friði og er í stórum dráttum friðsamt, löghlýðið fólk, hvað kemur fólki þetta þá við?

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verðugt umhugsunarefni Björg mín. Gott hjá þér að hætta þessu fína skrifstofustarfi og fara að keyra vörubíl, styð þig heilshugar. Veistu, þetta er helvítis snobb í fólki. Árið 1999 fór ég að vinna fyrir olíufyrirtæki hér á landi og stýrði einni af stærstu stöðvum þess, þetta þótt þvílík hneisa að þessi fíni kokkur hún magga tæki niður fyrir sig með þessum hætti.  Blessuð vertu, farðu í öskuna næst og vittu hvað gerist þá .

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 23.9.2007 kl. 20:16

2 identicon

Komdu sæl, átti leið hérna um bloggheiminn og sá bloggið þitt og langaði aðeins að kommenta smá.

Mér finnst það frábært hjá þér að hafa minnkað við þig vinnu til að vera heima hjá dóttur þinni, sjálf á ég 5 börn og eru 3 þeirra á grunnskóla aldri. Ég ákvað frá því þau fæddust að vera eins mikið heima við og hægt var, gerðist fyrst dagmamma í nokkur ár, svo þegar þau komust á leikskólaaldurinn þá vann ég í ca. 4-5 tíma á meðan þau voru á leikskóla og hef alltaf miðað mína vinnu við þau sem gerði það að verkum að ég hef fyrir vikið ekki orðið framapotari og velefnuð með því en mér er alveg sama um það, Innx húsgögn og flotterí er ekki það mikilvægasta í heimi hér. Börnin manns eru það mikilvægasta sem við höfum til að hugsa um. Ég hefði ekki fyrir há laun og status vilja ekki getið verið heima þegar þau koma úr skólanum, suma daga með bros á vör eftir góðan skóladag og aðra daga með tárin í augunum eftir leiðindi og þá er mamma til strax staðar til að laga það sem miður fer  eða gleðjast strax yfir góðu gengi.  Enda eru ungarnir mínir glöð og ánægð með tilveruna. Reyndi einu sinni að vinna úti á þeim tíma sem þau komu heim úr skólanum en fann að það fór illa í þau og hætti fljótlega. Að vera til staðar finnst mér skipta öllu máli. Svona var það nú í "gömlu góðu" daganna og enginn setti útá það þá, afhverju að setja útá þetta núna.

Gangi þér sem allra best með allt þitt.

Kv. Nína Margrét.

Nína Margrét (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 00:23

3 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

og hana nú....gott hjá þér

Einar Bragi Bragason., 24.9.2007 kl. 01:15

4 identicon

Heyr heyr!!!!   segi ég nú bara!

Hvað kemur fólki við hvað náunginn gerir?? nákvæmlega ekki neitt!  En við Íslendingar erum með eindæmum slúðurgjarnir og þrífast á helst óförum annarra.  Ef það eru ekki ófarir annarra sem við gleðjumst yfir er það öfund út í velgengni og áhættu sem fólk er tilbúið til að taka en "við hin" gerum ekki.

 Ég segi! Gott hjá þér Björg!! 

Erla Ösp (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 15:23

5 identicon

Veistu, Björg mín, að ég er innilega sammála þér að fólk er svoooooo forvitið og dómhart að það hálfa væri nóg.  Ég styð þig heils hugar í að keyra vörubíl út um allar trissur

Ingunn Björns (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband