4.12.2007 | 09:22
Lítil jóla(reynslu)saga
Einu sinni endur fyrir löngu í októbermánuði skyldi ég við manninn minn. Við eigum tvö börn sem þá voru 2ja og 7 ára gömul. Á þessum tíma var ég í stjórnunarstöðu í litlu fyrirtæki þar sem var vertíð fyrir jólin. Þetta þýddi að vikurnar fyrir jól vann ég mjög langa vinnudaga, sex daga vikunnar. Þrátt fyrir að börnin færu nokkuð reglulega til föður síns um helgar gaf þetta ekki mikinn tíma til jólaundirbúnings.
Á aðfangadagskvöld var venja að við, foreldrar og börn, værum heima hjá okkur og hefðum jólin fyrir okkur. Dagarnir á eftir fóru svo í heimsóknir. Nú sóttu á mig alls kyns hugsanir. Átti ég að láta börnin fara til föður síns um hátíðarnar því þar væri svo margt fólk? Átti ég að fara með þau austur í sveit til foreldra minna? Átti ég að troða mér og börnunum inn á systkyni mín? Einhvern vegin datt mér ekki í hug að vera ein heima með börnin mín þeim fyndist það svo léleg og leiðinleg jól. Ofan á þetta bættist svo allt sem þurfti að gera en var ekki að takast vegna anna í vinnu.
Það sem bjargaði sálarheill minni þessi jól var lítið símtal við mömmu. Hún hefur greinilega heyrt að stefndi í óefni með stressið á dótturinni. Símtalið var einhvern vegin svona:
Mamma: Áttu jólatré?
Ég: Já.
Mamma: Áttu jólaskraut?
Ég: Já.
Mamma: Ertu búin að kaupa pakka handa krökkunum og í matinn?
Ég: Já.
Mamma: Þá ertu tilbúin. Jólin koma hvort sem þú skúrar eða ekki og krakkarnir hafa ekki hugmynd um hvort það er búið að skúra eða ekki. Slappaðu bara af með krökkunum og hættu þessari vitleysu!Og hana nú! Ég ákvað að halda gömlum venjum og vera ein heima með börnin mín á aðfangadagskvöld. Þetta varð dásamlegasta aðfangadagskvöld sem ég hef upplifað. Ég tók til og gerði fínt í íbúðinni. Ég ryksugaði, en það var ekki þurkað úr skápum og það var ekki einu sinni skúrað. En það var skreytt og eldaður góður matur.
Þar sem ég sat um mitt kvöld með fæturna uppi í sófa með mjólk og smákökur (úr búð!) og horfði á börnin mín leika sér glöð og afslöppuð á gólfinu áttaði ég mig á því að þessi kríli eru magnari á okkur foreldrana. Ef við erum stressuð, þá verða þau það líka. Fyrir þessi jól hætti ég öllu jólastressi nokkrum dögum fyrir jól og þau voru svo yndisleg og afslöppuð. Þar sem ég horfði á þau vissi ég að ég átti fallegustu og bestu börn í heimi.
Athugasemdir
Fallega saga Björg. Mikið innilega hafði mamma þín rétt fyrir sér eins og alltaf. En þar sem þú fórst að pæla í að troða þér inn á einhverja eða börnin færu til pabba síns af því þar væri svo mikið af fólki, veistu, það er ekki málið, málið er samveran og að venja börn við að vera heima hjá sér á jólunum.
Ég til að mynda hef aldrei skilið þær fjölskyldur þar sem börn eru af hverju alltaf þessi þvælingur, af hverju ekki halda upp á jólin heima hjá sér? Amma og afi geta komið til okkar í stað þess að við alltaf til þeirra. Þegar ég eignaðist mínar dætur lagði ég mikla áherslu á að vera heima hjá mér og ala þær upp í að halda jól heima sér, ekki alltaf út í bæ. Því ég þekki mörg dæmi þess að börn sem hafa verið á þessum þvælingi frá unga aldri hafa svo bara leiðst loks þegar jólin voru haldin heima. S.s. fannst þetta ekki vera jól af því að það vantaði fjöldann, sorglegt en satt.
Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 09:33
Sammála Magga. Svona nýskilinn á maður það til að detta í þá gryfju að fara að breyta öllu hvort sem þess þarf eða ekki. Sem betur fer hafði ég að lokum rænu á að halda þessu óbreyttu.
Björg Árnadóttir, 4.12.2007 kl. 10:05
Þetta er heila málið Björg og mikið var hún mamma þín sniðug þarna. Það tók mig langan tíma að læra þetta, en það frábæra fólk hjá "Nýrri dögun" kenndu mér þetta á sínum tíma þegar Guðmundur féll frá. Þá ætlaði ég að vera tveggja manna maki í öllu, verandi líka komin í 100% vinnu og meira en það. Þær sögðu mér einmitt það sama. Ekki eyða tímanum í algerra hreingerningu, gera bara skítsæmileg helgarþrif og skreyta nóg. Kaupa smákökurnar og njóta aðventunnar með börnunum. Mér tókst þetta smátt og smátt og fer eftir þessu enn í dag. Jólin koma og hátíðin er engu minni. Það var mikill léttir að uppgötva þetta. Létti þér ekki Björg mín? Þetta er bara hrein snilld!
Sigurlaug B. Gröndal, 4.12.2007 kl. 10:54
Enda kemur gott fólk af holtinu he he
Einar Bragi Bragason., 5.12.2007 kl. 11:11
Heyr heyr Einar Bragi. Nú er ég sammála þér
Bylgja (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 17:25
Góður punktur! börnin eru algjörlega magnarar foreldra sinna. ekki spurning. En það sem miður er að oft sér maður það ekki fyrr en börnunum er farið að líða verulega ílla.....
Ég ákvað það einmitt þessi jól að allt sem því tilheyrði kæmi þegar ég hef tíma, ætla ekki að eyða orku í pirra mig á öðru, enda vantar enn aðventuljós og aðventukrans hehe, en það er samt væntanlegt í dag.
Hafðu það sem allra best Björg mín!
Erla Ösp (IP-tala skráð) 9.12.2007 kl. 08:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.