11.2.2008 | 17:56
Kvenlegar dyggðir
Bylgja ástundar kvenlegar dyggðir. Ég las það á blogginu hennar. Ég held ég geri það líka.
Kvenlegar dyggðir teljast hannyrðir, elda mat (ekki hita úr dós eða pakka!), punta hjá sér og gera fínt. Líklega eitthvað fleira sem ég man ekki. Einu sinni voru kvenlegar dyggðir líka að geta spilað á hljóðfæri og sungið en ég hef ákveðið að sleppa þeim kostum úr upptalningunni. Líklega er vörubílaakstur og að ganga í klunnalegum skóm ekki heldur partur af kvenlegum dyggðum.
Þrátt fyrir að ég aki vörubíl nokkuð reglulega þá ástunda ég líka kvenlegar dyggðir. Í haust saumaði ég út púða sem ég er nú bara nokkuð montin með. Svo er ég núna að prjóna ungbarnateppi. Það er nefnilega von á fjölgun í fjölskyldunni þ.e. dóttir hans Sigga á von á sér. Til sönnunar set ég hér mynd af púðanum og byrjuninni af teppinu.
Sennilega er ég samt montnust af að hafa heklað skírnarkjól sem börnin mín og mörg önnur börn hafa verið skírð í. Svo saumaði ég líka veggteppi með íslenskum fléttusaum og hnýtti gardínur fyrir einn glugga hér í húsinu. Þar fyrir utan sýð ég alla sultu sem notuð er á heimilinu og stöku sinnum kemur fyrir að ég baka. Ég á reyndar ágæta vinkonu, hana Betty Crocker, sem ég baka gjarna með, en ég baka líka án hennar. Ég baka líka bollur fyrir bolludaginn. Svo sauð ég saltkjöt og baunir á sprengidaginn svo ég er bara nokkuð viss: Ég ástunda kvenlegar dyggðir!
Athugasemdir
Já, og ég verð nú að segja að þú stundir bara slatta af kvenlegum dyggðum!! :) (annað en "unglingurinn" ég sem eyði meiri tíma í að horfa á bucilla pokann og skipuleggja hvenær hann verður tekinn upp í staðin fyrir að eyða þeim tíma actually í að sauma......
Erla Ösp (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 21:14
hömmmm,,, ég stunda ekki hannyrðir er það stór mínus?
Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 22:17
Kannski ertu þú þessi sem sérð um hljóðfæraleik og söng??
Björg Árnadóttir, 11.2.2008 kl. 23:00
Glæsilegur afrakstur hjá þér.
Í seinni tíð hef ég verið afskaplega löt við kvenlegar dygðir. Hætt að prjóna eða gera nokkurn skapaðan hlut. Nenni ekki einu sinni að festa tölur á
Eldamennskan nær hámarki í hafragraut liggur við.....
Bylgja (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 09:53
Kvenlegar dyggðir eru nauðsynlegar. Góðar fyrir sálartetrið. Þar má nefna handavinnuna. Ég tek tarnir í að prjóna. Prjónaði töluvert fyrir jól til jólagjafa. Gjarnarn hanna ég eitthvað sjálf. Húfur, trefla í stíl, legghlífar og fleira. Er að hanna "bjölluhúfur" núna. Stundum sauma ég út. Svo er það tónlistin. Það er ekkert eins róandi eins og að setjast niður með gítarinn og plokka nokkra góða hljóma og hljómahendur og láta hugann reika. Það gefur mikið. Hef reyndar haft lítinn tíma fyrir gítarinn um tíma. Mér endinst ekki orðið sólarhringurinn í það sem ég þarf að gera hvað þá það sem mig langar að gera. Því miður.
Sigurlaug B. Gröndal, 17.2.2008 kl. 22:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.