3.4.2008 | 09:13
Dropinn sem fyllti mælinn
Í mótmælum vörubílstjóra undanfarið hefur mest borið á kröfum um lækkun olíukostnaðar. Það er af því fréttamenn hafa hampað henni mest. Hins vegar hafa bílstjórarnir alla tíð haft uppi nokkrar kröfur sem hafa ekki verið eins sexí fyrir fréttamenn og því ekki heyrst eins mikið af þeim.
Það má glöggt heyra á orðum Geirs H. að þ.e. bílstjórar beri ekki aukinn kostnað í olíu vegna virðisaukaskatts að þá þurfi ríkið ekki að gera neitt. En hvað með almenning?
Hinar kröfurnar:
Vökulögin: Kröfur bílstjóra um breytingu eða niðurfellingu reglna um hvíldartíma eiga aðallega við bílstjóra sem keyra langkeyrslur út á land. Á Íslandi eru örlítið aðrar aðstæður en á meginlandi evrópu. Það er t.d. töluvert lengra á milli byggða víða hér á landi. Vegirnir hérna bjóða ekki heldur uppá að menn stoppi í vegkantinum og leggist til svefns. Reglurnar eru hins vegar þannig að hvað sem tautar og raular máttu ekki aka lengur en í 4,5 klst og þá verðurðu að stoppa í 45 mín. Heildarvinnutími yfir daginn má svo ekki fara yfir 9 klst. Sama hvernig veðrið er, sama hversu langt er í næsta bæ. Það að það sé 30 mín. akstur á endastöð kemur málinu ekkert við. Bílstjórar sem aka t.d. leiðina Reykjavík Seyðisfjörður þurfa dágóða lagni til að ná því svo vel sé og það má ekkert koma uppá. Í vetur var t.d. heil rúta af fólki strandaglópar á Selfossi um miðjan dag. Þannig var að rútan sem var að koma (að mig minnir) frá Höfn hafði komist eitthvað hægt yfir. Þegar komið var á Selfoss var bílstjórinn kominn yfir á tíma. Þrátt fyrir fínt veður og greiða leið til Reykjavíkur varð fólkið að sitja marga klukkutíma í sjoppu á Selfossi þangað til hægt var að koma þangað ferskum bílstjóra. Sniðugt?
Til að bæta gráu ofan á svart þá tók ríkið upp þessar reglur frá ESB og gerði þær gildar að því leiti sem snýr að bílstjórum. Sá hluti sem snýr að ríkinu fékk undanþágur. Þeir fengu t.d. undanþágur frá því að skapa bílstjórum aðstöðu við vegi landsins þannig að þeir geti farið að lögum og stoppað og hvílt sig. Þar fyrir utan hef ég óstaðfestar heimildir fyrir því að þessi lög gildi ekki í Evrópu nema við akstur milli landa.
Kílómetragjaldið: Fyrir nokkrum árum var fólki talin trú um að kílómetragjald á diselbílum hefði verið flutt inn í olíuverðið. Það var rétt að því leiti að krónutalan sem rukkuð var í kílómetragjald var sett inn í olíuverðið. Fólksbílaeigendur heyrðu ekki meira af því. En á sama tíma var skilinn eftir smá skammtur af kílómetragjaldi sem atvinnubílstjórar eru rukkaðir um. Venjulegur vörubíll þarf að greiða 12,98 kr. pr. km. Trailerarnir þurfa að greiða sömu upphæð auk þess sem að ef þeir ætla að flytja einhvern farm þurfa þeir að borga sömu upphæð að auki fyrir vagninn. Það gerir kr. 25,96 fyrir hvern ekinn kílómetra. Þetta hljómar kannski ekki mikið en fyrir bíl sem ekur 5-700 km á dag er þetta heill hellingur. 1,5 2 milljónir á ári eru ekki óalgengar tölur fyrir vörubíl, miklu hærri fyrir trailer.
Umhverfisgjald: Fréttir hafa borist af því að leggja eigi um næstu áramót s.k. umhverfisgjald á þessa bíla. Gjaldið mun reiknast á sama hátt og kílómetragjaldið. Þá verður ríkið farið að rukka bílstjóra um nokkurn vegin sömu upphæð í kílómetragjald og það gerði áður en það setti gjaldið inn í olíuverðið. Samt verður gjaldið líka þar inni. Ríkið verður þannig búið í raun að tvöfalda skattheimtu af atvinnubílstjórum á þessum tíma.
Endurmenntunin: Hvað sem mönnum finnst um endurmenntunina þá er ljóst að hún mun kosta miklar fjárhæðir bæði í útlögðum kostnaði og vinnutapi sem enginn mun taka á sig að greiða nema bílstjórarnir.
Ég er handviss um að ef bílstjórar fengju staðfestingu á því að hætt verði við að leggja umferðargjaldið á, kílómetragjaldið lækkað eða fellt niður og ef endurmenntunin verði a.m.k. þannig að hægt verði að sinna henni með vinnu, þá munu þeir hætta aðgerðum.
Athugasemdir
Held að best væri að endurvekja strandsiglingar. Þessi bílar eiga ekki heima á vegum landsins.
Bylgja Valtýsdóttir (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 13:03
Þetta er fáranlegt en það er rétt hjá Bylgju það eru allt of margir stórir bílar á ferðinni
Einar Bragi Bragason., 3.4.2008 kl. 15:03
Alveg sammála. Strandsiglingar þurfa aftur að hefjast.
Björg Árnadóttir, 3.4.2008 kl. 18:36
hmmm,,,,,, alltaf í boltanum Björg mín? Ég er allavega mjög sammála þér dúlla.
Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 21:11
Hér er oftar en ekki verið að setja lög og reglugerðir en undirbúningur ekki fyrir hendi. Samanber hvíldartímaákvæði. Það er engin aðstaða fyrir bílstjóra til að hvíldast eins og er allsstaðar erlendis svokölluð "rastplatz". Við hraðbrautir í Evrópu eru þessir áningastaðir með reglulegu millibili og svefnaðstaða á sumum þeirra. Ég held að þetta verði að endurskoða í heild sinni. Ég er alveg sammála þér Björg, þetta gengur ekki lengur. Ég er sama sinnis og Bylgja að hefja þurfi strandsiglingarnar aftur. Vegakerfið okkar ber þetta ekki og bílstjórar eru að aka fullfermdir við mjög misjafnar aðstæður og sumpart ekki boðlegar.
Sigurlaug B. Gröndal, 6.4.2008 kl. 22:58
Auðvitað á að taka upp strandsiglingar aftur. Það er örugglega þjóðhagslega hagkvæmt og rúmlega það. Hef marg oft hamrað á þessu og gott að sjá hér fólk sem er sammála því. Hins vegar er það rétt Björg að þessi atriði öll sem þú nefndir varðandi álögur á stóru bílana hafa ekki komist nógu vel til skila. Held það sé bara af því að þessu hefur ekki verið haldið óg á lofti af þeim sem þekkja til.
Haraldur Bjarnason, 8.4.2008 kl. 23:11
Ég finn mig knúinn til að leggja orð í belg sem landsbyggðarmaður.
Við sem búum úti á landi erum þeir sem borga brúsann. Flutningabílar á langleiðum velta þessum kostnaði öllum út í verðlagið, þetta hefur alltsaman áhrif til hækkunar á flutningskostnaði. Mér eru minnistæð tvö tilvik þar sem ég lét flytja húsgögn hingað austur á Egilsstaði. Í fyrra skiptið var um sófasett að ræða (2004), það kostaði 100.000kr í Rúmfatalagernum, reikningurinn fyrir flutning með stóru flutningafyrirtæki var 30.000kr. Ég kvartaði auðvitað heil ósköp og fékk helmingsafslátt. Svo keypti ég skrifborð á 3000kr í Góða hirðinum, reikningurinn fyrir flutninginn var 8.000kr, ég kvartaði heil ósköp og fékk afslátt. Þetta er sá veruleiki sem við búum við sem erum ekki á Reykjavíkursvæðinu. Hvað varðar strandsiglíngar þá eru þær svosem ágætar, það þýðir hins vegar ekki að bjóða þjónustu í dag eins og boðin var á Ríkisskip í denn, vikulega ferð og ef þú varst óheppinn, seinkaði dótinu um viku, þe. fór með næstu ferð.
Það er líka rétt að umferð flutningabíla á vegum landsins, td. hringveginum er mjög mikil. Það er ekkert grín að mæta þremur, kannski fjórum bílum með jafnstóra vagna í röð. Þetta er ekki óalgengt á leiðinni Egilsstaðir-Reykjavík. Vegirnir þola einfaldlega þessa flutninga.
Guðmundur Guðmundsson, 8.4.2008 kl. 23:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.