12.7.2008 | 12:21
Kreppa og kreppuáhrif
Ég hef eins og allir orðið vör við krepputal í fjölmiðlum. Ég hef líka orðið vör við það að fólk talar sín á milli eins og þetta krepputal sé bara eitthvað fjölmiðlafár. Eitthvað sem sé tilbúið og ekki raunverulegt. Það er langt frá því að vera rétt og kreppan er farin að snerta marga.
Ég er í starfsgrein sem verður einna fyrst vör við samdrátt. Eins og hendi væri veifað hvarf snemma vors stærstur hluti þeirra verkefna sem voru fyrirliggjandi. Bankar hættu að lána og þar með hættu húsbyggjendur að byrja á nýbyggingum. Bæði einstaklingar og verktakar. Þeir sem litu í kringum sig í vor gátu séð vörubíla, trailera, gröfur og hvers kyns stórvirk vinnutæki standa verkefnalaus um allan bæ. Það var ekki af því að viðkomandi nenntu ekki í vinnu þeir höfðu enga vinnu.
Þetta hefur aðeins lagast en ekki mikið. Ekki sést eins mikið af kyrrstæðum vörubílum en það er oftar en ekki af því að bílstjórarnir eru komnir víða um land í hvaða verkefni sem er til að bjarga því sem bjargað verður. Hversu margir Höfuðborgarbúar, t.d. skrifstofufólk, myndu sætta sig við það fyrirvaralaust að fara langdvölum út á land að vinna bara til að halda áfram að fá launaseðilinn sinn?
Nú þegar eru samt margir hættir eða orðnir gjaldþrota. Það á ekki bara við um þá sem reka tækin heldur líka tengda starfsemi. Víða um bæinn eru matstofur sem elda n.k. heimilismat í hádeginu og byggja sinn rekstur á verkamönnum. Þar sem í fyrrasumar var fullt útúr dyrum í hverju hádegi eru salir núna hálftómir dag eftir dag og viku eftir viku. Ég veit um a.m.k. eina svona matstofu sem er farin á hausinn. Bak við svona gjaldþrot eru einstaklingar sem eru að missa allt sitt þ.m.t. húsið ofan af sér og börnum sínum.
Í fyrra var unnið á hverju kvöldi til 8 eða 9 og alla laugardaga. Það er eiginlega nauðsynlegt því sumarið er hábjargræðistíminn þ.e. veturnir eru oft þannig að þá er ekki hægt að vinna. Ég held það hafi verið unnið tvo laugardaga í sumar og venjulegur vinnudagur er til kl. 6. Námurnar eru ekki einu sinni hafðar opnar fram á kvöld eins og tíðkast hefur á sumrin árum saman. Það hefur engan tilgang að lengja opnunartímann því það kemur enginn að versla við þá. Við höfum samt verið heppin, við höfum haft vinnu - jaaahh, svona oftast.
Allir vita að olían hefur hækkað. Vitiði að díselolía hefur hækkað um 57% á einu ári? En vitiði að á þessu sama ári hefur vélaolía (lituð olía) hækkað um 87%? Áttatíuogsjö%!!!! Það er nærri tvöföldun á verði frá einu sumri til þess næsta. Ekki hjálpar þessar hækkanir í rekstri sem þegar er erfiður.
Kreppan er raunveruleg. Kreppan er ekki eitthvað sem er bara í fjölmiðlum. Kreppan er eitthvað fyrirbæri sem er að setja afkomu hundruða ef ekki þúsunda manna um landið í mikla hættu. Hún er nú þegar búin að setja margar fjölskyldur í margra, margra ára fjárhagsvandræði.
Hverjum er um að kenna skiptir eiginlega engu máli. Það eina sem skiptir raunverulegu máli er hvað er hægt að gera til að bjarga því sem bjargað verður!
Athugasemdir
Kreppa, hvað er kreppa?
Kreppa er það þegar kreppir að, td. í verktakabransanum. Yfirstandandi kreppa hefur ýmsar birtingarmyndir. Hjá sumum, td. ykkur, birtist kreppa í minnkandi vinnu, hjá öðrum birtist hún í því að fækka verður utanlandsferðum úr kannski fimm í eina til tvær á ári. Það gefur auga leið að kreppan hefur mun meiri áhrif fyrri hópinn
Þrátt fyrir þetta er athyglisvert að horfa á atvinnuleysistölur í kreppunni. Sá í gær (að mig minnir) að atvinnuleysi væri uþb. 1%. Það kann að vera að þetta sé ekki allt komið fram, hlýtur eiginlega að vera. Samt er þetta athyglisvert þar sem um margra vikna skeið hefur ekkert verið í fréttum nema samdráttur, kreppa og Mugabe, hann tengist þessu auðvitað ekki neitt, en samt....
Guðmundur Guðmundsson, 12.7.2008 kl. 14:26
Gleymdi náttúrulega líka því að fólk virðist vera búið að gleyma kerppunni 1987. Það er sennilega eina kreppan sem fólk á okkar aldri man eftir. Þá fór af stað gjaldþrotahrina sem ég er nokkuð viss um að menn höfðu ekki séð áður. Jafnvel stöndug fyrirtæki fóru á hausinn, hvers vegna? Jú margir sem skulduðu þeim fóru á hausinn, þá kom ekkert inn. Við verðum bara að vona að það sem gerðist þá endurtaki sig ekki núna, þá verður ástandið skelfilegt.
Guðmundur Guðmundsson, 12.7.2008 kl. 14:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.