9.10.2008 | 22:42
Fréttabann
Ég er að spá í að setja sjálfa mig í n.k. fréttabann.
Ég hef hlustað andaktug á óteljandi fréttatíma og blaðamannafundi og lesið af áfergju þau blöð sem ég hef komið höndum yfir. Ég er s.s. búin að ná þessu með að bankarnir fóru allir sem einn á hausinn, mismikið vegna eigin klúðurs en allir vegna klúðurs. Við landsmenn munum svo þurfa að redda því sem reddað verður og eyða ótöldum næstu árum í að borga brúsann.
Það sem ég hef að auki haft útúr þessum fréttum öllum er heilmikil blanda af depurð, reiði, þunglyndi, áhyggjum, svartsýni og góðum slatta af meiri áhyggjum. Þess vegna er ég að spá í að hætta bara að hlusta!
Ég er alveg handviss um að bankarnir (eða einhver sem segist vera bankinn) sendir mér eftir sem áður góðan slatta af alls konar gluggaumslögum og segir mér hvað ég á að borga og hvenær. Það er nú svona í stórum dráttum þau viðskipti sem ég á við banka þessa dagana. Svo þegar ég fer í búð þá kaupi ég bara það sem verður í boði í hillunum og þegi. Get hvort eð er ekkert gert í því sjálf ef það er ekki til eitthvað annað sem ég vil kannski frekar.
Held að lífið verði bara slatta einfaldara og gleðiríkara með því að sleppa því að hlusta á fréttirnar. Bið bara einhvern um að láta mig vita ef það koma einhvern tíma góðar fréttir. Þá get ég leitað þær uppi á Netinu og hlustað þar!
Athugasemdir
Alveg sammála. Þetta er orðið gott. Ég finn bara þörf hjá mér núna til að fara að baka brauðbollur og setja í frystikistuna ásamt brauði og einhverju góður sem búið er að handera heimafyrir. Stundum verður maður bara að taka lífinu með stóískri ró og skella skollaeyrum við vondar fréttir. Við breytum ekki neinu héðan í frá. Knús og kveðjur Björg mín frá gömlum granna og vini!
Sigurlaug B. Gröndal, 10.10.2008 kl. 15:34
Þú gleymdir einu varðandi gluggaumslögin, þar stendur líka hvað gerist ef þú borgar ekki á "réttum" tíma, hvað þá nú ef þú borgar alls ekki! Það verður nú væntanlega ekkert dregið úr innheimtum á okkur þessum sem flokkast undir "venjulegt fólk.
Guðmundur Guðmundsson, 10.10.2008 kl. 20:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.