Íslendingur eða Norðmaður?

Ég var alin upp við að bera ábyrgð á gjörðum mínum og standa fyrir máli mínu. Þess vegna finnst mér að við - þ.e. íslenska þjóðin - eigum að borga þær skuldir sem á okkur falla lögum samkvæmt. Svo eigum við að fara beint í að skoða lögin og breyta þeim þannig að einhverjir gúbbar geti ekki skuldsett þjóðina án þess að spyrja hana álits.

Við eigum s.s. að borga það sem okkur ber en EKKI að borga allar skuldir hvaða nafni sem þær nefnast. Því í ósköpunum ættum við að borga áhættufjárfestingar sem tengjast fyrirtækjum víða um heim þegar íslendingar sem plataðir hafa verið til að leggja ævisparnaðinn sinn í góðri trú í "ALGERLEGA ÖRUGGA" sjóði í bönkunum eru búnir að tapa stórum hluta ef ekki öllu? Ég hef ekki heyrt talað um að ríkið gangi í ábyrgð fyrir þessum eignum almennings hér heima, því skyldi ríkið þá gera það í útlöndum? Ég skil bara alls ekki hvers vegna réttur útlendinga til greiðslu úr íslenskum ríkissjóði geti verið stærri en réttur íslendinga??

Ég heyrði því fleygt í útvarpinu í gær að það gæti verið möguleiki að Norðmenn "eignuðust" okkur. Held að þetta hafi verið góðlátlegt grín, en öllu gríni fylgir nokkur alvara. Ég segi nú bara fyrir minn smekk: Heldur vil ég ganga noregskonungi á hönd en að lúta skilyrðum fjárkúgunar og greiða ótalda milljarða til bresks almennings fyrir hönd fyrrnefndra gúbba til þess eins að fá lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum sem að auki veðsetur framtíð okkar og barna okkar - já, og barnabarna!

Ég efast ekkert um að það að fá ekki lán hjá sjóðnum veldur okkur ómældum erfiðleikum. En þetta er líka spurning um stolt. Ég vil ekki lúta kúgun sem þetta skilyrði er (ef satt reynist). Ég vil ekki heldur skuldsetja allt sem við eigum og öflum áratugi fram í tímann. Þá vil ég heldur upplifa sjálf harðræði næstu árin. Það er illskárra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og talað frá mínu hjarta

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 17:25

2 identicon

Komdu næsta laugardag á Austurvöll og láttu skoðanir þínar í ljós. Þar verður mótmælafundur klukkan 16! Við skuldum börnum og barnabörnum það að við látum í okkur heyra

Bylgja Valtýsdóttir (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband