25.10.2008 | 13:36
Bankastjóralaun
Ég hef oggulítið verið að velta fyrir mér launum nýju bankastjóranna undanfarið. Þau eru svolítið mismunandi svona eftir því með hvaða gleraugum þau eru skoðuð. Þau eru t.d. alger lúsarlaun m.v. það sem fyrri bankastjórar fengu. Þau eru hins vegar gríðarlega há ef þau eru skoðuð í hlutfalli við aðra ríkisstarfsmenn.
Nýráðnir bankastjórar eru flestir fyrrum starfsmenn bankanna. Líkast til hefur einhver reiknað út að til að fá þá til að taka að sér starf bankastjóra með hinni auknu ábyrgð yrði að hækka við þau núverandi laun. Rökrétt.... eða hvað??
Eins og staðan er í dag hefði verið minnsta mál í heimi að bjóða þessu fólki starfið á mannsæmandi launum sem líka samræmdust launaskala ríkisstarfsmanna jafnvel þó um launalækkun yrði að ræða. Málið er nefnilega að fyrra djobbið og fyrirtækið er ekki lengur til þannig að það var verið að bjóða atvinnulausu fólki vinnu - ekki verið að lokka einhvern úr góðu starfi. Ef fólkið vildi ekki djobbið fyrir t.d. 900.000 á mánuði, þá var enginn skaði skeður - það er fullt af vel menntuðu og kláru fólki á lausu sem myndi þyggja þessi laun með þökkum!
Ég vil taka fram að ég sakast ekki við þetta fólk að þiggja þessi laun. Ég myndi þyggja með þökkum að einhver byði mér slík laun þó ég vissi að ég gæti ekki í raun og veru unnið fyrir þeim. Bullukollarnir í þessu máli eru sem fyrr bankastjórnirnar sem bjóða og samþykkja þessi og önnur ráðningarkjör fyrir okkar hönd.
Almesta hneykslið er samt að enn einu sinni skuli konan vera með lægri laun en karlinn! Lærum við aldrei neitt? Erum við í raun og sannleika komin 30 ár aftur í tímann eins og grínast hefur verið með??
Athugasemdir
Já, ég eiginlega veit ekki á hvaða öld ég lifi lengur, öllum virðist þykja sjálfsagt að konurnar í bankastjórastólunum þiggi lægri laun en karlinn í Kaupþingi, sem er minni en Glitnir, ef marka má fréttir dagsins í dag.
Upphæð launa þessara manna (konur eru jú líka menn) eru reigin hneyksli, það er talað um komandi kaupmáttar- og/eða ráðstofunarteknaskerðinu, jafnvel 20%, svo ganga ráðamenn þessarar þjóðar á undan með svona vitleysu. Lækkum laun bankastjóranna, borgum þeim öllum sömu laun!
Guðmundur Guðmundsson, 25.10.2008 kl. 13:44
Sæl Björg
Já, hún er búin að vera einkennileg þessi launaumræða undanfarin ár. Ég er hjá ríkinu og sem tollvörður í næstæðst stöðu. Ég er á bakvakt meira og minna allt árið - meira að segja í sumarfríinu mínu - og fæ smá umbun fyrir það. Að auki fæ ég nokkrar fasta aukavinnutíma fyrir að sinna þetta 30-50 símtala á mánuði utan vinnutíma og fyrir að skjótast upp á tollskrifstofu og redda hlutum, t.d. ef gleymist að tollafgreiða eitthvað nauðsynlegt lyf eða varahlut o.s.frv. Að auki kemur það fyrir að eitt og eitt skil gleymir að láta vita af sér og vaktin getur ekki sinnt afgreiðslunni og þá fer maður af stað.
Ég er þakklátur fyrir það sem ég fær, því ég hef aldrei verið á neinum ofurlaunum. Með því að vera með 8 söngnemendur í Tónlistarskólanum í Reykjanesbæ og í Söngskóla Sigurðar Demetz í Reykjavík auk þess að fá smá greiðslu fyrir að vera formaður Tollvarðafélags Íslands, tekst mér að greiða reikningana um hver mánaðarmót.
Þegar ég hins vegar hugsa til ástandsins undanfarin ár, þegar maður las daglega um menn sem voru með tugi ef ekki hundruð milljóna í mánaðarlaun, sem öll byggðust á fjárhættuspili, sem þjóðin ber ábyrgð á, þá verður manni flökurt.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.10.2008 kl. 11:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.