Hvernig er þetta hægt?

Hvernig er hægt að ganga svona hart fram í sparnaði á jafn stóru svæði og hér er um að ræða? Það er ekki eins og þessi skurðstofa og fæðingadeildin hafi staðið meira og minna ónotuð og því verið óþörf, það er öðru nær!

Í sumar stóð til að loka bráðamóttökunni sem er daglega frá 16-20. Sem betur fer var hætt við það enda var hún mikið notuð. Það varð samt ekki til þess að læknarnir hefðu ekki neitt að gera um miðjan daginn, nei, eftir sem áður er nokkura daga bið eftir tíma um miðjan daginn. Þannig að ég get ekki séð að það hafi verið svigrúm til að stytta opnunartímann hjá þeim.

Í sumar var skurðstofunni lokað vegna sumarleifa. Meðan á því stóð voru allar konur á meðgöngu sem voru skilgreindar í áhættu sendar til að fæða í Reykjavík. Gott og blessað. En það er bara ekki alltaf vitað fyrirfram hvernig fæðing fer fram! Hann Tristan okkar kom í heiminn í sumar einmitt þegar skurðstofan var lokuð. Með smá baksi og brölti komst drengurinn óskaddaður í heiminn. Móðirin var hins vegar illa farin og þurfti á aðstoð saumastofu að halda. Enginn læknir á vakt og engin skurðstofa! Þess vegna stóð til að pakka henni sundurtættri í sjúkrabíl ásamt barninu og keyra með hana til Reykjavíkur og síðan aftur til baka þegar þeir væru búnir að sinna henni! Til allrar hamingju sýndi sig þarna að það getur verið gott að búa í litlu samfélagi því ljósan hringdi í lækni á staðnum sem stóð upp frá matargestunum sínum til að koma og sinna hinni nýbökuðu móður. Hann á þakkir skildar!

Þetta var ekkert stóralvarlegt tilvik og fór að auki á besta veg. En hvað ef eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir? Hvað ef barn eða móðir þarf óvænt á lífsnauðsynlegri aðstoð að halda? Á þá að bjóða þeim í bíltúr til Reykjavíkur? Sá bíltúr getur tekið allt of langan tíma til þess að það sé verjandi að láta öll nauðsynleg tól og tæki standa ónotuð í næsta herbergi við hliðina!


mbl.is HSS segir upp fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Guðmundsson

Já svona er nú það, það á að spara.  Það er ekki nema hálftíma verið að keyra með sjúkrabíl á tvöfaldri Reykjanesbrautinni á Lansann.  Það getur vissulega verið of langt, ég veit það.  Hér austanlands getur farið svo að einu skurðstofunni á svæðinu verði lokað, það er reyndar ekki ákveðið ennþá, en ég myndi segja að allt stefni í það.  Ferð í sjúkrabíl frá Sjúkrahúsinu í Neskaupstað (hvar skurðstofan er núna) til Akureyrar á næstu skurðstofu tekur aldrei styttri tíma en 3 klst. á forgangi, sjúkraflug tekur uþb. 2 klst. ef flugmaðurinn getur lent á malarbrautinni í Neskaupstað.   Möguleiki getur verið að keyra á forgangi í 40 mín til Egilsstaða og fljúga þaðan.  Það er ólíku saman að jafna landsbyggð og landsbyggð.

Guðmundur Guðmundsson, 22.11.2008 kl. 21:13

2 Smámynd: Björg Árnadóttir

Þess vegna er ég sammála Hrönn sem sagði í dag: "Maður dregur saman seglin hvar sem er, nema bara ekki í heilbrigðisgeiranum. Fólk þarf þessa þjónustu og á að fá hana hvað sem á dynur! Fæðingadeildin er nánast að loka og skurðstofan líka - fólk getur dáið útaf þessu!!"

Björg Árnadóttir, 22.11.2008 kl. 22:23

3 Smámynd: Mummi Guð

Eins og staðan er í dag þá er betra að loka alveg sjúkrahúsinu heldur að reyna að starfrækja sjúkratjald eins og sjúkrahúsið í Keflavík er í dag og hefur verið undanfarin ár.

Í allri baráttu okkar í veikindum Hugins kom Huginn aldrei inn á sjúkrahúsið í Keflavík og fékk aldrei nokkra þjónustu þaðan. Okkur var hafnað um alla aðstoð. Við fengum ekki einu sinni heimahjúkrun þó að við höfðum fullan rétt á henni. Okkur var sagt að þeir sæu bara um heimahjúkrun fyrir aldraða og krabbameinssjúka sem er haugalýgi og það var þeirra lokasvar. Þó að heilbrigðisráðuneytið og greiningastöðin sögðu að sjúkrahúsið ættu að sjá um þessa þjónustu þá sögðu þeir bara nei.

Mummi Guð, 23.11.2008 kl. 00:37

4 Smámynd: Guðmundur Guðmundsson

Heimaþjónusta er á valdi sveitarfélaga nema um annað sé sérstaklega samið.  Ég þekki ekki fyrirkomulag þessara mála á Suðunesjum, hins vegar veit ég að sveitarfélögin hér austanlands hafa samið við ríkið um veitingu þjónustunnar.  Það getur falist ákveðin hagræðing í því þar sem það vinna jú sérmenntaðir einstaklingar á sjúkrahúsum og hægt er nýta þá í heimaþjónustu jafnvel með annari vinnu á sjúkrahúsi. 

En að skurðstofumálinu:  Mér er sagt af mönnum sem telja sig vita, (hef þetta ekki frá fyrstu hendi, tek það sérstaklega fram) að þeir skurðlæknar sem veitt hafi þjónustu í Keflavík búi í Reykjavík.  Því þurfi að kalla lækna þaðan til að veita bráðaþjónustu á skurðstofu í Keflavík.  Hver er þá munurinn, að keyra sjúkling í sjúkrabíl á forgangi á Lansann eða læknirinn keyri (kannski á forgangi) til Keflavíkur?

Siðan þarf að taka með í reikninginn að Lansinn hefur ekki nóg verkefni og getur bætt á sig þessum verkum fyrir all suður- og vesturland.  Síðan er það stefna stjórnvalda að leggja niður alla starfsemi sem hægt er úti á landi.  Það stefnir nefnilega í það innan 20 ára að ekkert starfsfólk fæst til að vinna þessi störf úti á landi.  Sem aftur er afleiðing þessarar sömu stefnu.  Það þekkja allir til þess þegar hundar elta skottið á sjálfum sér, það er akkúrat það sem verið að gera í heilbrigðismálum.

Ég árétta enn að ég skil sjónarmið þeirra sem eru á móti niðurskurði í heilbrigðiskerfinu, ég er það sjálfur.  Hitt er svo annað mál að halda þarf fast um aurana því það er auðvelt að láta heilbrigðismál verða sífellt stærri og stærri hluta kökunnar. 

Guðmundur Guðmundsson, 23.11.2008 kl. 14:12

5 Smámynd: Mummi Guð

Heimaþjónusta er í höndum sveitarfélaga og við fengum góða þjónustu frá Reykjanesbæ á meðan við þurftum. En heimahjúkrun er allt annað mál og hana á sjúkrahúsið að veita. Það fengum við staðfest frá heilbrigðisráðuneytinu, Greiningastöð Ríkisins og frá Barnaspítalanum. Allir þeir aðilar sem við töluðum við voru furðu lostnir yfir höfnunni frá sjúkratjaldinu í Keflavík.

Gallinn við aðstöðu okkar var sú að við höfðum hvorki þrek né tíma í að fara í hart við sjúkratjaldið og að lokum kom Svæðisskrifstofa Reykjanes okkur til hjálpar og veitti okkur þá þjónustu sem sjúkratjaldið ber skylda til að sjá um.

Ég ætla ekki að skrifa hér um samskipti okkar við yfirmann heimahjúkruninnar, en sá maður er gjörsamlega óhæfur í mannleg samskipti. Hann er eflaust góður í spara pening með því að veita ekki þjónustu sem hann á að veita, en ég tel það ekki kost.

Mummi Guð, 23.11.2008 kl. 22:06

6 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Ég er alveg sammála Björg og Hrönn dóttur hennar. Það á ekki að spara í helbrigðiskerfinu, það á reyndar ekki að sukka heldur. En það getur ekki verið eðlileg þróun að senda alla á LSH í Reykjavík. Hann tekur ekki endalaust við. Það verður að tryggja sjúkrahúsrekstur í öllum landshlutum og á Suðurnesjum er komin mikil byggð á Keilis-svæðinu sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda. Það verður að standa vörð um þessa grunnþjónustu og hún á að vera öllum til boða hvernig sem fjárhagsleg eða félagsleg staða þeirra er. Það er það velferðarkerfi sem ég vil sjá! Það má ekki svelta þetta kerfi og hleypa svo einkaaðilum til að fjárfesta í því. Það kallar á skila á hagnaði og hvar á að taka hann?

Sigurlaug B. Gröndal, 24.11.2008 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband