14.6.2009 | 09:55
Á vanskilaskrá
Ég er komin á vanskilaskrá. Eftir að hafa unnið fyrir mér alla tíð er ég allt í einu orðin atvinnulaus. Einhverjum mánuðum síðar er maður í fyrsta sinn kominn á vanskilaskrá. Það hefur ótrúlegar afleiðingar.
Til að snúa vörn í sókn og nýta tímann til góðs ákvað ég að fara loksins í háskólanám. Þá fóru ýmsir sérkennilegir hlutir að koma í ljós.
Í atvinnuleysisbætur fæ ég gefins u.þ.b. 150.000 krónur í hverjum mánuði fyrir að gera ekki neitt. Ef ég fer í lánshæft nám get ég fengið lánaðar u.þ.b. 120.000 krónur á mánuði. Þessar krónur þurfa að duga fyrir fæði, húsnæði, fatnaði og skólabókum auk ferðakostnaðar til og frá skóla. Svo þarf ég líka að borga þær til baka. Ég fæ sem sagt 30.000 krónum minna lánað á mánuði til þess að standa undir mikið hærri kostnaði og til að verða betri og arðvænlegri þjóðfélagsþegn en ég fæ gefins fyrir að gera ekki neitt. Ætli þetta sé hugsað sem einhvers konar eldskýrn eða próf? Veit ekki. En þetta er alls ekki allt:
Ég er sem sagt á vanskilaskrá. Til þess að fá námslán þarf ég að fá ábyrgðarmann eða bankaábyrgð. Ég er á vanskilaskrá svo bankinn vill ekki ábyrgjast mig. Maðurinn minn er líka á vanskilaskrá svo hann er ekki heldur gjaldgengur ábyrgðaraðili. Börnin mín eru ekki á vanskilaskrá svo þau eru gjaldgeng. Á ég virkilega að fá börnin mín 20 og 25 ára gömul til að ábyrgjast að mamma borgi námslánin sín? Eða rígfullorðna foreldrana? Það finnst mér ekki koma til greina.
Eins og staðan er í dag stefnir allt í að þrátt fyrir að vera búin að fá inngöngu í háskóla muni ég sitja heima og halda áfram að taka við gefins 150.000 krónum á mánuði og verða þannig þjóðfélaginu sífellt dýrari. Af því að ég er á vanskilaskrá.
Athugasemdir
Vertu velkomin á þessa skrá, bráðum verða þeir sem ekki eru á henni í minnihluta þannig að það verður skrítið fyrir banka og aðrar stofnair sem fara eftir skránni að velja viðskiptavini sína. Ég lenti á þessaru skrá fyrir nokkrum árum fyrir litlar sakir en fæ ekki einu sinni að opna símanúmer!!!
Ragnar Örn Eiríksson (IP-tala skráð) 14.6.2009 kl. 10:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.