Færsluflokkur: Ferðalög

Fallegt land

Einu sinni fannst mér ekkert landslag fallegt nema það væru tré í því. Ég er alveg búin að jafna mig á því. Nú finnast mér lyngi vaxnar heiðar og stórbrotið landslag hálendisins jafnvel enn fallegra. Síðustu tvær helgar höfum við karlinn minn farið í prufuútilegur í nýja pallhýsinu. Alger dýrð. Hvílík forréttindi að geta komið sér fyrir einhvers staðar úti í móa langt frá öllu og öllum og geta horft úr rúmstæðinu á náttúruna allt í kring. Hér eru myndir af íslenskri dýrð:

Við Geitá

Þessi er tekin á leiðinni um Kaldadal við Geitá. Ekki beinlínis gróðursælt en geysilega fallegt!

Þarf að fara þarna aftur einhvern tíma fljótlega og gefa mér betri tíma til að skoða mig um. 

 

 

Við HítarvatnÞessi er hins vegar tekin rétt hjá Hítarvatni rétt undir miðnættið. Mun meiri gróður þar, allt á kafi í mosa yfir úfnu hrauninu og víða í nágrenninu kjarr og huggulegheit. Hvort tveggja ómótstæðilegt.

 

Bráðlega ætlum við að fara af stað og skoða landið í viku, 10 daga. Get ekki beðið!


Góð útilega

Nú styttist í hina alræmdu verslunarmannahelgi. Ég heyrði í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun talað við forvarnarfulltrúa hjá einhverju tryggingafélagi um viðbrögð foreldra gagnvart unglingunum sínum um þessa helgi. Þá rifjaðist upp hjá mér nokkura ára snilldar útilega.

Þannig var að við fjölskyldan fórum í útilegu. Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir í Kjarnaskógi kom okkur á óvart að rekast á tvær unglingsdætur Sigga (mannsins míns). Þær voru búnar að koma sér fyrir annars staðar á svæðinu með vinkonum sínum sér í tjaldi. Mamma þeirra var enn annars staðar á svæðinu. Þessi helgi var alveg snilld! Stelpurnar voru svo sælar og ánægðar með að fá að vera "einar" að þeim fannst allt frábært! Hins vegar er ég viss um að þær eyddu miklu meiri tíma með foreldrum sínum en ef þær hefðu verið í tjaldi með þeim. Þær voru í stöðugum heimsóknum til okkar: "Viljiði koma í göngutúr?", "Viljiði koma inná Akureyri?", "Getum við fengið kakó og brauð með osti?"

Þess vegna er ég handviss um að það er fín lausn komandi helgi að foreldrar og unglingar fari á sama staðinn í útilegu en foreldrarnir gefi unglingunum hæfilegt svigrúm (hið landsfræga tilfinningalega svigrúm!). Unglingarnir fá smá tilfinningu fyrir sjálfstæði og foreldrarnir losna við fýluköst af því það "fá allir aðrir að fara einir". Mæli eindregið með þessari lausn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband