17.3.2009 | 09:06
Vorkunn?
Ég las þessa frétt í gær og hún hefur hringlað í höfðinu á mér síðan. Ég ákvað þess vegna að skrifa það sem mér finnst um málið, jafnvel þó einhverjum finnist ég kannski andstyggileg.
Ég s.s. vorkenni ekki þessu fólki peningamálin þeirra. Mér finnst þetta í raun vera dæmi um að vilja eiga kökuna og éta hana. Fullorðni maðurinn kaus að fara á Sóltún sem alla tíð hefur verið dýrt heimili og ekki á færi nema þeirra sem eiga aura. Strax þarna er honum í boði kostur sem mörgum öðrum öldruðum býðst ekki.
Heildartekjur þessara hjóna (ef rétt er með farið í fréttinni) eru kr. 586.000 á mánuði. Ég held að mörgum fullfrískum á besta aldri og með börn þættu það ekkert svo slæmar mánaðartekjur. Af þessum tekjum greiðir karlinn 240.000 mánaðarlega í leigu og uppihald á Sóltúni. Þá eru eftir kr. 346.000 til reksturs lítils heimilis og eins húss. Aftur segi ég; Mörgum þætti það hreint ekki slæmt!
Vissulega kostar sitt að reka og halda við einbýlishúsi. Þetta fólk á hins vegar ýmsa kosti sem mörgum býðst ekki; Það getur tekið eitthvað af aurunum sem gefa þeim 100.000 á mánuði í vaxtatekjur og notað í nauðsynlegt viðhald. Það getur líka selt húsið og keypt minni, nýrri og hentugri eign sem ekki þarf á eins miklu viðhaldi að halda. Það eina sem er "slæmt" við þetta er að erfingjarnir fá þá mögulega eitthvað minna í sinn hlut þegar þar að kemur! Mér finnst hins vegar að fólkið sem aflar auranna eiga að nota þá og ekkert að því að fólk noti þá til eigin framfærslu og uppihalds.
Það er hins vegar einn ljótur punktur í þessari frétt sem var hins vegar alls ekki útgangspunktur fréttarinnar. Þarna er fullorðið fólk sem hefur eytt ævinni saman (býst ég við) farið að búa sitt í hvoru lagi. Ef það er andstætt þeirra vilja þá er það slæmt og á ekki að líðast. Þess vegna flokkaði ég þennan pistil undir Mannréttindi!
Eiginkonurnar settar út á götu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Mannréttindi | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.