Það sem ég skil ekki.....

-          Ég skil t.d. ekki hvernig menn sem virðast almennt ágætir í rekstri fyrirtækja halda að það sé í lagi að taka stórfé til sín útúr bönkunum, kalla það lán, en setja þannig bankana á vonarvöl.

-          Ég skil ekki heldur hvernig fólki dettur í hug að setja jarðgöng í gegnum Vaðlaheiði næst á verkefnalistann í vegagerð. Ég held svei mér þá að nánast annað hver fjallvegur á landinu sé í meiri þörf fyrir jarðgöng en þessi. Það þarf a.m.k. ekki að leita lengi á Austurlandi eða Vestfjörðum til að finna góðan kandídat í jarðgöng. En ráðherra er ekki þaðan.

-          Ég skil enn minna hvernig lífeyrissjóðunum sem við borgum skuli detta í hug að bjóðast til að fjármagna bullið.

-          Ég skil ekki af hverju vinstri stjórn sem hefur haft lífsgæði „litla mannsins“ fremst í stefnuskránni byrjar á því að skerða framfærslu einmitt þess fólks.

-          Ég skil ekki heldur að hægt skuli vera að heimta niðurskurð í heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Þessir aðilar hafa verið í aðhaldi árum saman og geta ekki meir. Lögreglan þarf ef eitthvað er aukin framlög því það sér hver sem vill að það þarf ekki mikið til að allt fari í bál og brand og þá verða þær fáu löggur sem enn verða á launaskrá heima í yfirvinnubanni.

Þetta er bara sumt af því sem ég skil ekki. Fullt annað sem ég botna ekkert í. Líklega er ég alveg sérdeilis skilningslaus manneskja?


Skil hann vel

Mikið skil ég hann vel. Ekki kannski sammála, en skil hann samt mjög vel.

Þetta er samt pæling þegar allt er farið fjandans til og ekki lengur neinu að tapa. En mitt hús er öruggt. Bankinn er búinn að taka gröfuna okkar.....   Devil


mbl.is Eyðilagði íbúðarhúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á vanskilaskrá

Ég er komin á vanskilaskrá. Eftir að hafa unnið fyrir mér alla tíð er ég allt í einu orðin atvinnulaus. Einhverjum mánuðum síðar er maður í fyrsta sinn kominn á vanskilaskrá. Það hefur ótrúlegar afleiðingar.

Til að snúa vörn í sókn og nýta tímann til góðs ákvað ég að fara loksins í háskólanám. Þá fóru ýmsir sérkennilegir hlutir að koma í ljós.

Í atvinnuleysisbætur fæ ég gefins u.þ.b. 150.000 krónur í hverjum mánuði  fyrir að gera ekki neitt. Ef ég fer í lánshæft nám get ég fengið lánaðar u.þ.b. 120.000 krónur á mánuði. Þessar krónur þurfa að duga fyrir fæði, húsnæði, fatnaði og skólabókum auk ferðakostnaðar til og frá skóla. Svo þarf ég líka að borga þær til baka. Ég fæ sem sagt 30.000 krónum minna lánað á mánuði til þess að standa undir mikið hærri kostnaði og til að verða betri og arðvænlegri þjóðfélagsþegn en ég fæ gefins fyrir að gera ekki neitt. Ætli þetta sé hugsað sem einhvers konar eldskýrn eða próf? Veit ekki. En þetta er alls ekki allt:

Ég er sem sagt á vanskilaskrá. Til þess að fá námslán þarf ég að fá ábyrgðarmann eða bankaábyrgð. Ég er á vanskilaskrá svo bankinn vill ekki ábyrgjast mig. Maðurinn minn er líka á vanskilaskrá svo hann er ekki heldur gjaldgengur ábyrgðaraðili. Börnin mín eru ekki á vanskilaskrá svo þau eru gjaldgeng. Á ég virkilega að fá börnin mín 20 og 25 ára gömul til að ábyrgjast að mamma borgi námslánin sín? Eða rígfullorðna foreldrana? Það finnst mér ekki koma til greina.

Eins og staðan er í dag stefnir allt í að þrátt fyrir að vera búin að fá inngöngu í háskóla muni ég sitja heima og halda áfram að taka við gefins 150.000 krónum á mánuði og verða þannig þjóðfélaginu sífellt dýrari.  Af því að ég er á vanskilaskrá.


Hvert fer maður með tvær heilar rútur!

Ég var nú bara að velta því fyrir mér..... Ekki stingur maður þeim inná sig?
mbl.is Stórri rútu stolið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært!

Þetta er algerlega dæmi um hvað við öll erum fljót að dæma fyrirfram => fordómafull!


Til sölu

LopapilsTil að stytta daginn og vera að einhverju gagni við eitthvað annað en að sinna heimilisstörfum er ég farin að prjóna til að selja. Handprjónasambandið vill kaupa en ég vil heldur selja þetta sjálf. Þá fæ ég örlítið meira fyrir vinnuna og kaupandinn fær vöruna á lægra verði en úr búðinni.

Frumraunin er þetta pils hér til hliðar. Er komin af stað með annað ívið minna pils með aðallitinn ljósgráan.

Ef einhver hefur áhuga þá endilega hafiði samband. Ég get líka prjónað eftir pöntunun.

 

 

E.S. Er búin með gráa pilsið sem ég nefndi hér fyrir ofan og setti inn mynd af þeim báðum.


Gott en skrýtið

Gott er að heyra að stjórnendur ákváðu að standa við að hækka laun starfsmanna fyrst þeir vildu ekki hætta við að greiða arð.

Ég er ekki háskólamenntuð en finn mig samt knúna til að benda stjórnendunum á nokkur grundvallaratriði í viðskiptum og rekstri:

- Það er áhættufjárfesting að kaupa fyrirtæki.

- Það að kaupa hlutafé er það sama og að kaupa fyrirtæki. Maður kaupir bara oggulítinn hluta í fyrirtækinu með fullt af öðru fólki.

- Ef fyrirtækið gengur ekki nógu vel til að það geti greitt reikningana sína eða staðið við samninga, þá græðir maður ekki á því.

- Ef fyrirtækið er að byggja upp, t.d. byggja verksmiðjur, þá kostar það mikla, mikla peninga. Á meðan það gengur yfir græðir enginn peninga. Peningarnir eru nefnilega notaði til að kaupa steypu og svoleiðis svo það þurfi ekki að taka eins mikið af dýrum lánum.

- Ef maður ákveður að kaupa fyrirtæki (i.e. hlutafé) þá getur maður þurft að bíða svolítinn tíma, jafnvel langan, áður en maður fær greiddan arð.

- Ef maður tekur fé út úr fyrirtæki sem er ekkert sérlega vel statt þarf fyrirtækið að taka lán. Það kostar mikla peninga að taka lán. Það þýðir að þá verður fyrirtækið í enn verri aðstöðu næst þegar einhvern langar að taka út arð.

- Sumir fá aldrei greiddan arð af hlutabréfunum sínum af því fyrirtækin fóru á hausinn eða voru mjög illa rekin. Það á t.d. við um næstum hvern einasta mann á landinu. Allavega nánast alla sem í gegnum ýmsa sjóði keyptu hlutabréf t.d. í gegnum séreignarsparnaðinn sinn.

Vonandi lesa hlutafjáreigendur í HB Granda og fleiri stórfyrirtækjum þennan litla pistil minn svo þeir skilji af hverju það getur verið slæmt að taka fé út úr rekstri fyrirtækjanna sinna þessa dagana.


mbl.is HB Grandi hækkar laun starfsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andstæður

Í þessari frétt eru andstæður.

Ráðherran talar í sömu setningu um uppbyggingu og niðurskurð á sömu starfsemi. Gengur ekki.

Ráðherran sjálfur er andstæður: Hann er formaður stéttarfélagsins sem semur við ráðherrann um launakjör. Eitthvað skrýtið við það.

Starfsöryggi og niðurskurður er líka andstætt. Niðurskurður kallar nánast alltaf á uppsagnir og þá er starfsöryggið farið.

Mesta andstæðan og skrýtnast er þó að það skuli líðast að formaður BSRB sé ráðherra eða að ráðherra sé formaður BSRB allt eftir því hvernig fólk vill horfa á það.


mbl.is Ögmundur: Viðfangsefnið er tröllaukið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarna á starfsfólk að loka!

Ef einhver dugur er í verkalýðsforystu, starfsmannafélagi og starfsmönnum þessa fyrirtækis á það að ganga út og ekki mæta til vinnu fyrr en þessi ákvörðun hefur verið dregin til baka og þær launahækkanir sem ekki var hægt að standa við verða aftur teknar inn eins og lagt var fyrir í samningum.

Ef þeir geta borgað sjálfum sér þessa milljarða, geta þeir allt eins og miklu frekar geymt þá í nokkra mánuði á bók og mjatlað af þeim smátt og smátt í launagreiðslur til starfsmanna. Þá fá þeir meira að segja vexti!

Þetta má ekki fyrir nokkurn mun líðast! Angry


mbl.is „Hreinlega siðlaust“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framfærsla fyrir 120.000?

Ég lét mér detta í hug að fara í Keili í haust og læra orkutæknifræði. Held það sé mjög sniðugt nám. Ætti ekki að vera mikið mál að skella sér - tek bara námslán!

Ég talaði við LÍN. Hámarks lán sem ég get fengið ef þeir reikna mér enga tekjuskerðingu er kr. 120.000 á mánuði. Eitthundraðogtuttuguþúsundkrónur!!!

Jafnvel þó ég skuldaði engum neitt og væri bara að sjá um sjálfa mig þá er ekki nokkur leið að maður geti borðað, greitt bensínið af bílnum (til að mæta í skólann) keypt skólabækur og borgað svona það helsta sem þarf til að lifa s.s. stöku tannkremstúpu.

Er háskólanám á Íslandi í raun og veru einungis fyrir þá sem eiga góða að sem geta stutt þá fjárhagslega meðan á námi stendur? Ég sé að minnsta kosti ekki hvernig ég á að geta farið í háskóla.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband