Ég dáist að fólki….

….sem stendur fyrir sínu.

Ég datt inná blogg fyrir 2-3 dögum þar sem var skrifað um kenningar um hvernig skoðanir háværs minnihlutahóps enda með því að verða skoðanir almennings. Minnihlutahópurinn hafi hátt um skoðanir sínar, gjarna með aðstoð fréttamiðla, skoðununum sé ekki mótmælt nema takmarkað og þar með haldi meirihlutinn að þetta sé viðtekin skoðun og geri þær að sínum í staðinn fyrir að mótmæla. Þetta held ég að gerist mjög oft. Ég er sjálf ekkert sérlega dugleg við að lýsa skoðunum mínum í margmenni – sérstaklega ekki þegar ég er í andstöðu við það sem ég heyri í kringum mig.

 

Þess vegna dáist ég að fólki sem stendur á sínum skoðunum hvað sem tautar og raular. Ég dáist líka að fólki sem gerir það sem það langar til hvernig svo sem það fellur að norminu.

 

Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir og Ómar Ragnarsson er t.d. fólk sem ég dáist að í pólitík. Ég er langt frá því að vera sammála þeim en það getur enginn efast um hvað þetta fólk stendur fyrir og þau eru mjög staðföst og virðast ekki láta pólitísk hrossakaup breyta stefnu sinni dag frá degi eins og víða sést í þeim bransa.

 

Páll Óskar Hjálmtýsson er annar einstaklingur sem ég dáist að. Ég hef grun um að hann sé ekkert sérlega hátt skrifaður hjá tónlistarelítunni en hann veit hvað hann vill og gerir það hvað sem hver segir! Til þess þarf kjark. Hann er að auki góður í því sem hann gerir. Hver annar en Palli gæti t.d. fengið íslenskan almúga til að syngja, dansa og klappa á miðjum virkum degi inni á gólfi í kjörbúð? Þetta sá ég gerast fyrir jólin og ég er enn að jafna mig á hissunni sem gagntók mig þegar ég sá þetta.

 

Meira að segja Geir Ólafs á heiður skilinn fyrir að standa á sínu og halda áfram hvað sem tautar og raular.

 

Allt þetta fólk kryddar tilveruna hjá okkur hinum sem sitjum heima hjá okkur og látum allt yfir okkur ganga. Mesta lagi að við bloggum ef okkur mislíkar eitthvað eða þurfum að tjá okkur opinberlega. Ég myndi frekar veita þessu fólki fálkaorðu en endalausri runu opinberra starfsmanna sem hafa það eitt sér til frægðar unnið að mæta í vinnuna og vinna samviskusamlega fyrir sinn vinnuveitanda. Það er reyndar orðið sorglega sjaldgæft en er efni í annan pistil þegar ég verð í stuði! Grin


Sumarfríið búið!

Nú er ég búin með sumarfríið mitt. Ég sá að sumir voru eitthvað að efast um að ég væri alveg með öllum mjalla að fara í sumarfrí á þessum tíma. Málið er að ef maður á kall sem velur sér vinnu sem byggist á því að vinna á sumrin, þá verður maður að aðlaga sig og taka sér sumarfrí á veturna! Við tókum okkur reyndar viku túr um landið í sumar en vika er alveg hámarks slæpingur að sumarlagi í þessum bransa. Svo nú var farið í sumarfrí Smile

 

Í bústaðnum gerði ég það sem ég nenni alls ekki að gera á sólarströndum…. Ég lá og gerði ekki neitt. Alls ekki neitt! Við kíktum stundum út í stutta göngutúra en lágum annars í sófanum og horfðum á sjónvarp, gerðum krossgátur og ég prónaði. Svo var auðvitað kíkt í pottinn og eldaður góður matur. Þetta var bara dásamlegt!

 

Nú erum við komin aftur endurnærð og til í allt.

 

Næst á dagskrá er að fara í Bónus og kaupa bollugerðarefni….. Whistling Tounge


Sumarfrí!!

Nú ætla ég í sumarfrí! Ég ætla í bústað í heila viku. Ég ætla að borða góðan mat, lesa, púsla, prjóna, horfa á sjónvarp og fara í gönguferðir. Ég ætla s.s. að gera eiginlega ekki neitt! Ég verð að auki ekki með tölvusamband svo ég mun ekki blogga né lesa blogg.

Þetta verður æði!!! Wizard  Whistling  W00t


Ave Maria

Mér finnst þetta æðislegt!  Ave Maria


Það er gott að búa í Vogunum!

Ég hef lesið í blöðunum og á netinu undanfarið að íbúar í Vogum á Vatnsleysuströnd búi við ógn og skelfingu vegna misyndismanna sem gangi þar um og haldi öllu í heljargreipum.  Ehhh…. Það hljóta hreinlega að vera einhverjir aðrir Vogar á Vatnsleysuströnd en þessir sem ég bý í!

 

Þegar ég kem heim til mín seinnipart dags er ég komin í þau mestu rólegheit sem ég hef áður kynnst. Ég hef stærstan hluta æfinnar búið í Garðabæ, Breiðholti, Smáíbúðahverfinu og Grafarvogi. Síðustu rúm 4 árin hef ég svo búið hér í Vogunum. Hér er verulega fjölskylduvænt, rólegt og notalegt að vera. Og hvort sem þið trúið því eða ekki….. lang, lang, lang veðursælast af þeim stöðum sem ég hef áður búið á!

 

Í Vogum á líka heima alls konar fólk. Ég vil gjarna fá að vita um það bæjarfélag á landinu þar sem enginn misstígur sig nokkurn tíma: Enginn drekkur of mikið, enginn tekur of margar pillur eða notar eiturlyf, enginn tekur nokkurn hlut ófrjálsri hendi eða hækkar röddina í hótun við náungann eða lyftir hendi í ofbeldi. Ef einhver getur fundið slíkan bæ á þessu landi þá vil ég gjarna fá að vita um hann!

 

Það er líka í fullu gildi enski málshátturinn: “If you lie with dogs, you get fleas.” Það er örugglega til samsvarandi málsháttur á íslensku en ég man ekki eftir neinum í bili. Það þýðir að ef þú umgengst misyndismenn þá máttu búast við að lenda í einhverju misjöfnu. Það gildir líka um alla þína fjölskyldu og vini.  Þegar einhver sem hefur lent í slíku óláni fer með það í blöðin grípa þau það á lofti og básúna það út þannig að allir sem lesa mega halda að slík óværa tröllríði öllu á svæðinu. Slíkt er alls ekki rétt. Þetta er lítið samfélag þar sem lang flestir lifa friðsælu lífi.

 

Ég vona sannarlega að þeir sem eru í einhverju brasi með lífið og tilveruna nái tökum á henni, að fréttaflutningur af ímynduðu ófremdarástandi hérna hætti og að við íbúar í Vogum getum haldið áfram að búa hér í friði og spekt eins og hingað til.


Handboltinn og ég

Í febrúar 1984 smitaðist ég af handboltabakteríunni. Þannig var að ég var á fyrstu mánuðum meðgöngu nr. 2 og var ekki alveg heil heilsu. Þess vegna var ég stundum heima hjá mér á virkum dögum þegar beinar útsendingar voru. Þar sem ég þurfti að liggja fyrir fannst mér tilvalið að liggja í sófanum og glápa á gullstákana okkar sýna hvað þeir gátu. Mikið hrikalega voru þeir flottir! Reyndar svo flottir að í æsingi uppí sófa átti ég það til að æpa og rykkja mér á fætur á magavöðvunum einum saman. Sem var bannað. Svo rammt kvað að þessu að ég varð stundum frá vinnu daginn eftir eða þurfti að slökkva á sjónvarpinu til þess að valda ekki litla krílinu í maganum á mér skaða.

 

Svo komst ÍR einu sinni eitthvað vel áfram í íslandsmótinu og þar sem það var heimalið fjölskyldunnar á þeim tíma þá vildi sonurinn ca. 8-10 ára gamall að mamma færi með sig á leik. Það var nú ekki nema sjálfsagt. Þegar leikurinn var rúmlega hálfnaður tók ég eftir því að guttinn lét eins og hann þekkti ekki þessa kolvitlausu konu sem stóð þarna gargandi og hoppandi. Hann bað mig aldrei aftur að koma með sér á leik. Skrýtið…..  Cool

 

Síðan hef ég fylgst með handbolta frekar en öðrum íþróttum. Reyndar ekki verið neitt sérlega dugleg við að mæta á leiki. En ég horfi á beinar útsendingar svo framarlega sem ég er ekki í vinnunni. Ég horfði á svíana taka í lurginn á okkur á fimmtudaginn og ætla að horfa á leikinn á eftir.

 

Mér þykir afskaplega leiðinlegt að viðurkenna að ég á ekki von á að við komumst langt á þessu móti. Jafnvel ekki uppúr þessum riðli. Vona heitt og innilega að ég hafi rangt fyrir mér. Mjög rangt!


Breyttar umferðarreglur....

Umferðarreglurnar virðast hafa breyst töluvert síðan ég tók bílpróf fyrst. Svo tók ég reyndar meiraprófið fyrir rúmu ári síðan og komst þá að því að reglurnar í bókunum eru alveg eins og mig minnti, en samt hafa þær í rauninni breyst töluvert. Sérstaklega um hvað ljósin á gatnamótum þýða. Þið vitið; Þessi gulu, rauðu og grænu?

 

Einu sinni voru reglurnar þannig að rautt þýddi stopp, gult varúð og þá átti maður annað hvort að undirbúa sig fyrir að taka af stað eða stoppa, og svo þýddi grænt ljós að maður mátti aka af stað. Þegar þessar reglur giltu þá gat maður, ef maður var þannig innstilltur, setið í bíl fremst á ljósum og skoðað mannlífið í kringum sig án þess að einblína á ljósin. Svo þegar bílarnir sem voru að aka þvert á mann stoppuðu, þá var mátulegt að setja í gír og taka af stað. Þá nefnilega stoppuðu bílar þegar það kom gult og svo rautt ljós.

 

Núna er s.s. búið að breyta. Ef maður horfir ekki stíft á götuvitann og tekur ekki ofurvarlega af stað þegar það er komið grænt hjá manni, þá stoppar hin umferðin alls ekki, sama hvað staða umferðarljósanna segir!

 

Ég ýki ekki einu sinni smávegis þegar ég segi að það gerirst ekki stöku sinnum, heldur oft á hverjum einasta degi að þegar það er komið grænt hjá mér eru bílar enn að aka á fullri ferð þvert á mína akstursstefnu. Og það eru ekki einhverjir sem eru búnir að sitja fastir á gatnamótunum og eru að hreinsa þau – þetta eru bílar sem leggja af stað yfir gatnamótin eftir, eða í þann mund, að það er komið grænt á hina akstursstefnuna.

 

Sum gatnamót eru verri en önnur í þessu eins og t.d. gatnamótin við Álftanesveg í Engidal, en þetta á sér stað á öllum gatnamótum í bænum. Ég skil hreinlega ekki af hverju það verða ekki oftar slys og það slæm en raunin er. 

 

Mér finnst alla vega glatað að breyta reglunum svona og finnst að það eigi að breyta aftur til baka.


Jökullinn

Var að fikta smávegis og fann útlitsstillingu með mynd af Snæfellsjökli. Gat ekki annað en sett hann inn á bloggið mitt. Minnist hans á björtum sumarnóttum hvelfast yfir mig og aðra sem voru úti að vinna við heyskap fyrir að því virðist 120 árum síðan. Dásamlegur tími og dásamlegur staður.

Bloggskortur.....

Ég hef verið frámunalega löt við blogg undanfarið. Mér til afsökunar segi ég að ég hef verið alveg ótrúlega þreytt undanfarin kvöld og hreinlega ekki nennt að skrifa neitt. Stundum hefur mér dottið í hug um miðjan daginn að skrifa eitthvað bráðmerkilegt en það er jafnan rokið út í veður og vind þegar ég er komin heim, úr vinnugallanum, búin að elda, ganga frá, athuga með þvottinn…..  Maður er nú bara stundum þreyttur. J

 

Annars dregur það úr manni ótrúlega orku að byrja á nýjum vinnustað. Þó ég þekki alla og starfið sjálft þá er þetta samt einhvern vegin ótrúleg viðbrigði að vera allt í einu farin að vinna við þetta allan daginn, alla daga. Maður er samt strax að venjast og allur að koma til.

 

Á morgun ætla ég að vinna við bókhaldið. Það þýðir að ég mun sitja við tölvuna hérna heima og geta komið háfleygum hugsunum mínum á blað (skjá) strax og þær gera vart við sig. Ég bíð spennt!


Hömluleysi græðginnar....

Mikið lifandis, skelfingar ósköp er ég svakalega fegin því að finnast áfengi og áhrifin af því kki eins góð og af sykri. Ef svo væri myndi ég sennilega vera sofnuð um kaffileitið hvern einasta dag. Svo væri ég líka löngu búin að drekka frá mér allt sem ég á og örugglega fjölskylduna líka.

 

Í morgun þegar ég vaknaði var ég alveg búin að fá mig fullsadda af þessu áti á mér frá því í byrjun desember. Þá var nefnilega allt í lagi að byrja að háma í sig af því það voru alveg að koma jól.  Alla vega vaknaði ég staðföst í því að borða einungis á matmálstímum og halda mig frá öllu sukki. Með það í huga gekk ég fram í eldhús og fékk mér smákökur….

 

Staðan er í stuttu máli svona:

-                     Átið hefur slæm áhrif á blóðþrýstinginn – en ég ét samt!

-                     Átið hefur slæm áhrif á fataskápinn – en ég ét samt!

-                     Átið veldur mér kláða og fleiri óþægindum (ofnæmi) – en ég ét samt!

-                     Átið og hreyfingarleysið eru farin að gera mig stirða og slappa – en ég ét samt!

-                     Átið og áhrif þess er mér endalaus uppspretta geðvonsku og vonbrigða – en ég ét samt!!!

Í stuttu máli er sama hvað gengur á….. ég ét samt!! Þegar allt nammi sem mér finnst gott er búið borða ég bara vondu molana. Allt frekar en að sleppa því!

 

Nú eru að koma áramót. Ég hef aldrei strengt áramótaheit og ætla ekki heldur að gera það núna. En um þessi áramót eru samt breytingar framundan. Ég hætti í vinnunni sem ég hef verið í s.l. 6 ár og fer að vinna með karli mínum. Ég ætla líka að byrja aftur að hreyfa mig reglulega. Og ég ÆTLA líka að ná tökum á munni mínum og maga.

 

Gleðilegt ár öll og munið að ganga hægt um gleðinnar dyr um áramót sem alla aðra daga. Allt er best í hófi og það er hreina satt!  Grin


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband