Fjallganga og pestir um páska.

Útsýni af HelgafelliÁ föstudaginn langa gekk ég með litlum hópi fólks á Helgafell ofan við Hafnarfjörð. Það er ekki mikil fjallganga og hentar öllum. Fín ganga til að vekja kroppinn af vetrardvalanum. Við fengum frábært veður og nutum okkar í botn!

 

 

Þegar á toppinn var komið fengum við okkur að sjálfsögðu nesti eins og allir alvöru fjallgarpar! Smile Nesti á toppnum

 

 

 

Helga á toppnumHelga var skiljanlega hreykin þegar hún komst á toppinn í sinni fyrstu formlegu alvöru fjallgöngu! Grin

 

 

 

Í gær varð frumburðurinn veikur. Í nótt gerði svo litla barnið (18 ára) vart við sig og vildi aðstoð við að finna hitamæli og verkjalyf. Þá varð ég vör við að karlinn var líka orðinn veikur. Staðan er þannig núna, að morgni páskadags, að dóttirin og bóndinn eru bæði með 40 stiga hita en ég er ekki komin með nýjustu stöðu á frumburðinn. Ég sit s.s. hérna ein heil heilsu á páskadagsmorgni í þessu pestarbæli sem heimilið er í dag. Best að halda sig fjarri öllu fólki meðan þetta gengur yfir. Ætli ég borði ekki bara páskaegg á meðan!IMG_0826

Einhvern vegin í ósköpunum lentu öll þessi páskaegg inni á okkar heimili. Ekki NEMA 10 stk. ætluð fyrir 6 fullorðnar manneskjur. Það verður líklega ekki nein megrun svona rétt yfir páskana frekar en venjulega.  Cool


Djöfull er ég pirruð!

Já, ég blóta!! Hér röflar fólk daginn út og inn yfir getuleysi og hverju öðru sem það finnur að hjá lögreglunni. En er eitthvað að undra?? Hafiði heyrt aðra eins steypu eins og þennan dóm yfir gaurunum sem börðu lögreglumenn við skyldustörf??

„Ekki sannað að þeim hafi verið ljóst að um lögreglumenn væri að ræða“  Hvað!!! Mennirnir voru með einkennismerki á lofti, kölluðu upp hverjir þeir væru en samt eiga karlarnir ekki að vita hverjir þeir eru!! Kommon!! Er þetta ekki bara enn eitt dæmið um að orð lögregumanna eru ekki jafngild orðum glæpamanna og jafnvel metin minna en þeirra orð. Hvað á það að þýða??

Þar fyrir utan finnst mér ekki skipta rassgatsmáli hvort þeir vissu að mennirnir voru í löggunni eða ekki. Ekki dytti neinum í hug að abbast uppá löggu á frívakt í Ameríku, hvað þá einni sem væri í vinnunni. Beint í steininn með viðkomandi og lyklinum hent!

Ef við (og dómstólar) getum ekki druslast til að verja þá lögreglumenn sem einhverra hluta vegna hafa áhuga á að sinna þessu kolbilaða starfi getum við ekki heldur gert kröfur til þeirra að þeir geri einhver stórvirki á meðan þeir eru í vinnunni. Svona rétt á milli þess sem þeir eru lamdir!


Það er ekki komið vor.

Ekki ennþá. Það er ekki komin rétta lyktin af loftinu. En það styttist í það.

Það var dásamlegt veður í dag. Stafalogn, sól og hitinn aðeins yfir frostmarki. Samt flögruðu örsmá snjókorn niður úr himnunum svona rétt eins og það væri verið að minna mann á að vetur konungur væri ekki enn búinn að sleppa takinu. En það styttist greinilega í það. Krókusar og páskaliljur eru farnar að skjóta upp kollinum. Það er nærri öruggt merki um að vorið sé á næsta leiti.

Ég var úti eftir hádegið að tína rusl, aðallega hálfmorknaðar rakettur, og njóta veðurblíðunnar.  Karlinn fór með rusl í Kölku og gerði atlögu að veggjakrotinu sem setti sálarlíf mitt á annan endann fyrir ekki svo löngu. Góðar fréttir. Ósóminn rann af og enginn sem ekki veit hvar krotið var getur fundið merki um það.

Pönnukökur með kaffinu og fullt af fólki í kaffi, systkini mín og þeirra börn, svona eftir því hverjir voru heima og hverjir ekki.

Góður dagur.  Smile


Ég er fordómafull.

Ég verð víst að kyngja því. Ég er með fordóma gagnvart ungum strákum. Tvisvar undanfarna mánuði hef ég farið í verslun og verið hundfúl yfir að ungur strákur afgreiddi mig. Svo hef ég orðið að kyngja því að þeir veittu afbragðs þjónustu.

StrákamyndÍ fyrra skiptið fór ég í Ormsson og var að velta fyrir mér pottum og pönnum. Svo kom gutti sem varla var orðinn tvítugur að aðstoða mig. „Ohhh... hvað ætli svona ormur viti um pönnur!!!!“ hugsaði ég. Rangt!! Hann vissi sko allt um allar pönnurnar í búðinni! Svaraði öllu sem mér datt í hug að spyrja um og bætti að auki við fullt af upplýsingum. Endaði með því að ég keypti mér dýrindis pönnu sem kostaði þónokkuð minna en ég hefði borgað án hans aðstoðar. Elda sæl á minni fínu pönnu og hugsa til hans í hvert sinn. Eða kannski annað hvert sinn.

SxmasStrákurvo fórum við karlinn minn í Mest í gær. Skoða kantsteina í garðinn. Þangað fórum við inn í drullugum vinnugallanum og áttum helst von á að vera hent út fyrir sóðaskapinn. Þá sveif að okkur annar unglingur voða fínn og penn sem taldi ekki eftir sér að koma yfir hálfa búðina til að bjóða fram aðstoð. „Ohhh.... hvað ætli unglingur viti um hellur og grjót!!“ hugsaði ég. Aftur rangt. Hann vissi nánast allt um hellur og grjót og fylgdist vel með því sem við ræddum okkar á milli og bætti við upplýsingum þar sem við á. Svo var hann að auki alveg ljómandi sölumaður og benti okkur á að ljósin á pallinn (sem kemur kannski eftir einhver ár) væru á tilboði núna. Svo við fórum alsæl í okkar drullugalla úr búðinni. Líklega mun ég hugsa til hans öðru hvoru þegar kantsteinarnir verða komnir í garðinn.....

Svo nú þarf ég að fara að hugsa minn gang. Það er ekkert sem segir að ungir strákar geti ekki verið áhugasamir í vinnunni sinni. Gefa fólki séns!!!

(Tek fram að myndirnar tengjast efni pistilsins ekki beint! Cool )


Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Oft má satt kyrrt liggja.

 

Ég hef oft hugsað til þessara málshátta undanfarna daga. Líka þess að mamma sagði stundum við mig að þó einhver annar væri bjáni og kæmist ágætlega upp með það þá þýddi það ekki að ég þyrfti endilega að vera það líka. Ég hef hugsað um þessi orð hennar og málshættina undanfarið, aðallega í tengslum við Múhameðsteikningarnar en líka í tengslum við umræðu um hvað megi segja og hvað ekki á blogginu.

 

Mér finnst alveg kýrskýrt að skv. lögum má hver sem er teikna mynd af Múhameð eða hverjum sem er í hvaða samhengi sem er. En hefur það einhvern tilgang? Sá sem teiknaði mynd af Múhameð með hundi og svíni vissi alveg hvað hann var að gera. Hann vissi alveg að það myndi móðga. Hann vissi alveg að þessi dýr eru óhrein í augum fólks sem trúir á Islam. Annars hefði hann líklega notað asna eða hænu eða eitthvert enn annað dýr til að koma mögulegum boðskap á framfæri. Mér finnst því augljóst að hver sá sem teiknaði þessar margumræddu myndir var leynt og ljóst að “snapa fætíng” eins og einu sinni var gjarna sagt.

 

Við höfum öll unnið eða verið í samneyti við einhvern leiðinlegan, pirrandi, púkalegan, kjaftask. Eða einhvern álíka. En ef við þurfum að vera í daglegu samneyti við einhvern þá yfirleitt látum við kyrrt liggja eða tökum kurteislega á málinu. Við höldum friðinn. Hvers vegna ekki að gera það líka við einhverja sem eru ekki alveg næst manni? Hvers vegna skyldum við ekki sýna ókunnugu fólki sömu kurteisi og þeim sem eru næst manni?  

 

Hafi Múhameðsteikningarnar haft einhvern tilgang eða boðskap fram að færa er alveg ljóst að hann fór algerlega fyrir ofan garð og neðan hjá meirihluta mannkyns. Þar með eru þessar teikningar ekkert annað en meiðandi fyrir þá sem þannig kjósa að hugsa. Þar með er ég á móti slíkum birtingum. Beittar ádeiluteikningar geta verið stórskemmtilegar en þær eru aldrei meiðandi.

 

Svo er það spurningin um hvað má skrifa á blogginu og hvað ekki. Ég heyrði viðtal við tvo nafngreinda menn í útvarpinu í vikunni, einn fyrrverandi ritstjóra dagblaðs og hinn núverandi ritstjóra vefsíðu. Báðir voru sammála þeirri meginreglu að um bloggið ætti að gilda sömu reglur og um birtingu efnis í dagblöðum. Ég er sammála þeim. Ef  pistill er ekki birtingarhæfur í dagblaði þá á hann ekki heldur erindi á vefinn. Vefurinn er ekkert síður opinber birting en dagblað eða tímarit.

 

Ef þú hefur einhverja skoðun á tilteknum einstaklingi og finnst þú þurfa að viðra hana við alþjóð þá er það þitt val. “Mér finnst” framan við sleggjudóma lýsir því að þetta er persónuleg skoðun þín. Ef þú hins vegar segir að einhver sé rasisti eða eitthvað álíka þá ertu kominn með fullyrðingu sem betra er að hafa sannanir fyrir. Þar með er líka kominn grundvöllur fyrir málshöfðun ef ávirðingarnar eru þess eðlis.

 

En til hvers þarf fólk að viðra opinberlega persónulegar skoðanir á einstaklingum? Vissulega getur það verið eðlilegt og réttlætanlegt. En sleggjudómar sem hafa engan tilgang annan en að særa og valda úlfúð hafa engan tilgang og eiga engan rétt á sér. Jafnvel þó einhver annar hafi skrifað eitthvað álíka. Maður þarf nefnilega ekkert að vera fífl sjálfur þó einhver annar sé það.

  

Ótrúlega flott!!

Heyrnarlaus eða ekki.... Ég held að hvaða fullheyrandi manneskja mætti vera hreykin af þessum dansi. Þetta er ótrúlega flott hjá þeim!

Kíkiði bara á klippuna! Smile


mbl.is Listin brýtur niður múra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmdarverk!!

HusidÞegar ég flutti inn í húsið mitt fékk ég þessa góðu tilfinningu um að vera komin heim. Ég er ánægð með húsið mitt og finnst það bæði notalegt og fallegt. Hef líka aðeins verið að betrumbæta t.d. með því að byggja vegg með ljósum frá húsinu út að götu. Svo er garðurinn á öðrum endanum af því við erum í miðjum klíðum við að gera eitthvað gott úr honum. Hvorugt sést á þessari mynd af slotinu.

 

En nú hefur einhver ekkisensbévítanshálvitahornösmeðkúkíbrókogaumingjastimpiltilæfiloka SPREYJAÐ á húsið mitt!!!!  Ég er gersamlega brjáluð af reiði, búin að kalla á lögguna og alles.

 

Til að bæta gráu ofan á svart er húsið mitt klætt með Steni plötum svo það er nærri útilokað að það sé hægt að þrífa þetta af. Þar að auki veit ég að liturinn á húsinu er ekki til lengur þannig að ef maður ætlar að losna við þetta þá þarf að klæða heila húshlið. Þá verða þúsundkallarnir farnir að fjúka í hundruðum!!

 

Ef ég næ bráðum að róa mig þá ætla ég að kíkja á tryggingaskilmálana á Netinu en það er afar hæpið annað en að við sitjum uppi með þetta tjón. ARRRRRGGGG!!!!


Kvenlegar dyggðir

Bylgja ástundar kvenlegar dyggðir. Ég las það á blogginu hennar. Ég held ég geri það líka.

 

Kvenlegar dyggðir teljast hannyrðir, elda mat (ekki hita úr dós eða pakka!), punta hjá sér og gera fínt. Líklega eitthvað fleira sem ég man ekki. Einu sinni voru kvenlegar dyggðir líka að geta spilað á hljóðfæri og sungið en ég hef ákveðið að sleppa þeim kostum úr upptalningunni. Líklega er vörubílaakstur og að ganga í klunnalegum skóm ekki heldur partur af kvenlegum dyggðum.

 

Þrátt fyrir að ég aki vörubíl nokkuð reglulega þá ástunda ég líka kvenlegar dyggðir. Í haust saumaði ég út púða sem ég er nú bara nokkuð montin með. Svo er ég núna að prjóna ungbarnateppi. Það er nefnilega von á fjölgun í fjölskyldunni þ.e. dóttir hans Sigga á von á sér. Til sönnunar set ég hér mynd af púðanum og byrjuninni af teppinu. Handavinna

 

Sennilega er ég samt montnust af að hafa heklað skírnarkjól sem börnin mín og mörg önnur börn hafa verið skírð í. Svo saumaði ég líka veggteppi með íslenskum fléttusaum og hnýtti gardínur fyrir einn glugga hér í húsinu. Þar fyrir utan sýð ég alla sultu sem notuð er á heimilinu og stöku sinnum kemur fyrir að ég baka. Ég á reyndar ágæta vinkonu, hana Betty Crocker, sem ég baka gjarna með, en ég baka líka án hennar. Ég baka líka bollur fyrir bolludaginn. Svo sauð ég saltkjöt og baunir á sprengidaginn svo ég er bara nokkuð viss: Ég ástunda kvenlegar dyggðir!


Sunnudagsbíltúr...... (varúð - langur pistill!)

Við hjónin fórum áðan í sunnudagsbíltúr. Tókum góðan rúnt um Reykjanesið. Við ókum héðan úr Vogunum, gegnum Keflavík og út í Garð.  

Garður er mikið stærri en ég bjóst við og heilmikil uppbygging þar í gangi. Fullt af nýjum íbúðarhúsum á lóðum sem myndu gera húsbyggjendur á höfuðborgarsvæðinu græna af öfund. Engin hætta á að nágranninn sé neitt ofaní manni þarna! Svo ókum við út að Garðskagavita. Þar er búið að útbúa veitingastað, Flösina, í iðnaðarhúsnæði sem þar er. Flösin er með stóra og fína verönd sem snýr að sjónum og er örugglega frábært að sitja þarna og fá sér eitthvað gott í gogginn þegar veður er gott. Núna vorum við ekki í stuði fyrir veitingahúsastopp svo við héldum áfram og ókum stystu leið til Sandgerðis.

 

Þar rúntuðum við aðeins um bæjinn en héldum svo áfram Stafnesveg í átt til Hafna. Satt að segja er ekki mikið að sjá í Sandgerði. Alla vega sá ég það ekki. Ég held ég hafi aldrei ekið þessa leið áður. Heilmikið að sjá. Lítil skrýtin kirkja í Hvalnesi sem ég hefði viljað taka mynd af en….. myndavélin gleymdist heima. Svo fórum við framhjá Stafnesvita. Þar virðist vera þónokkur byggð. Hvað fólk dundar sér við þar hef ég ekki hugmynd um.

 

Vegurinn frá Sandgerði yfir í Hafnir er ágætur. Búið að gera hann fullorðins alla leið. Reyndar er þetta malarvegur mestanpartinn. Svo kemur, eins og víða í íslensku vegakerfi, allt í einu þessi fíni vegarkafli með tvíbreiðu malbiki. Það er ekkert við þennan kafla og hann nær ekki frá neinum stað eða að neinum stað. Þetta er bara malbiksbútur “in the middle of nowhere”!

 

Hafnir eru áreiðanlega með minni bæjum á landinu. Ekki mörg hús þar. Þar stoppuðum við samt niðri við pínulitla bryggu og horfðum á brimið. Hvílík læti í sjónum. Hann ólmaðist og kraumaði hvítfyssandi þarna fyrir utan og langt útí sjó! Endalaust hægt að horfa á brim. Svona á svipaðan hátt og maður horfir á eld. Síbreytilegt og dáleiðandi.

 

Frá Höfnum ókum við áleiðis til Grindavíkur. Beygðum útaf þar sem skilti sagði Reykjanesviti. Þar ókum við framhjá nýju Reykjanesvirkjuninni. Þeir hafa greinilega vandað sig við að hrófla sem allra minnst við hrauninu í kring. Þannig standa húsin og leiðslurnar inni í miðju hrauni með hraunið rétt við húshliðina. Það er ekki búið að klára allt en virðist verða mjög snyrtilegt og fínt hjá þeim. Ekki meiri lýti að þessu í landslaginu en skreiðarhjöllunum sem rétt lafa uppi þarna í nágrenninu.

 

Svo héldum við áfram í áttina að vitanum. Bóndi minn þurfti reyndar aðeins að prófa einn slóða sem liggur þarna – athuga hvert hann liggur. Þar var deginum algerlega reddað fyrir honum þegar bíllinn sat fastur í skafli. Það tók smá mokstur og hjakk en tókst að losna án mikilla tilfæringa. Renndum svo út að vita og snerum þar við og héldum aftur áleiðis til Grindavíkur. Þegar við vorum rétt að koma til Grindavíkur sáum við stórt fiskiskip sigla út úr höfninni. Skipið steypti stömpum þegar það keyrði í gegnum ölduna útúr höfninni. Ég hefði sko ekki viljað vera um borð! Nóg af brimi í Grindavík eins og í Höfnum en það hegðar sér allt öðruvísi þar. Í Grindavík ólmast það ekki nærri eins, en þegar það kemur þá verða skvetturnar miklu stærri og þeytast hátt í loft upp. Þar sem við þekkjum okkur allvel í Grindavík slepptum við öllum rúnti þar um og héldum heim.

 

Það er greinilega búið að laga vegina heilmikið á þessari leið. Sumsstaðar voru skaflar á veginum en bíllinn er þannig búinn að það var ekkert stórmál. Svo er líka svo mikil umferð alls staðar að það hefðu hvergi liðið nema örfáar mínútur þangað til einhver hefði verið kominn á staðinn. Þar sem vegirnir liggja nálægt sjónum bera þeir greinileg merki um óveðrin undanfarið. Grjót, möl og þang liggja um alla vegi og bryggjur. Jafnvel rekaviður!

 

Ég er alltaf að sjá það betur og betur að Reykjanesið leynir á sér. Hér er alveg fullt að skoða og ég ætla að taka svona bíltúr aftur í sumar. Helst nokkra. Sá nefnilega fullt af vegarslóðum sem vert er að kanna við tækifæri. Ætla þá að muna eftir myndavélinni.


Hvað er einelti?

Ég hef stundum verið að hugsa um einelti og áhrif þess. Svo hef ég líka stundum verið að hugsa um hvað sé einelti og hvað ekki. Ég er að spá í að segja ykkur tvær sögur sem ég þekki sjálf:

 Saga 1.

Strákur sem ég þekki bjó úti á landi. Hann lenti uppá kant við skólafélagana. Ég hef ekki hugmynd um hvað það var sem þeir fundu að honum enda skiptir það ekki máli. Kannski hefur hann þótt heimskur því hann er svolítið lesblindur og les mjög hægt. Haustið eftir að hann fermdist byrjaði hann í skólanum eins og venjulega en entist ekki lengi. Mér skilst að eftir nokkrar vikur hafi hann hætt í skólanum og farið að vinna. Hann fór aldrei aftur í skóla. Hvort það var af því að hann bjó úti á landi eða hvort það var almennt ekkert kerfi sem greip inní veit ég ekki en skólagangan varð alla vega ekki lengri.

Hann hefur lítið viljað segja um hvað kom fyrir en stöku sinnum koma athugasemdir eins og t.d.: Ef krakkarnir og kennararnir myndu haga sér núna eins og þeir gerðu við mig, yrði þeim sennilega stungið í steininn! Strákurinn er hins vegar eldklár og hefur menntað sig mjög vel sjálfur en hefur engin prófskýrteini til að sýna.

 

Þetta er klárlega saga um einelti sem verður að vinna bug á með öllum tiltækum ráðum.

 Saga 2.

Þetta er lítil saga af sjálfri mér sem ég hlæ reglulega að:

 

Þegar ég flutti í Garðabæinn sumarið áður en ég byrjaði í 6 ára bekk var ég voða sæt stelpa með gullna lokka niður í mitti. Í næstu götu bjuggu 2 strákar á sama aldri. Þeim fannst ég líka voða sæt. Svo sæt að þeir vildu endilega fá að kyssa mig. Það fannst mér ekki góð hugmynd. Úr varð eltingaleikur í tæpt ár. Hvert skipti sem ég fór útúr húsi var  kíkt varlega út til að athuga hvort strákarnir væru nokkuð nálægt. Þeir voru það oftast því gatan fyrir utan var aðal leiksvæðið í hverfinu. Þegar manni sýndist vera óhætt að fara út tók maður sprettinn heim til einhverrar vinkonunnar og vonaði að það yrði svarað nógu snemma til að maður kæmist í var áður en þeir næðu mér. Ég man ekki til að þeir hafi nokkurn tíma náð mér sem er í raun mjög skrýtið.

 

Mér fannst þetta leiðinlegt og kvartaði stundum sáran við mömmu. Mamma skildi mig bara alls ekki! Eina ráðið sem hún hafði var að ég ætti bara að hætta þessum hlaupum og kyssa þá! Ég meinaða kyssa stráka!!!!

 

Einhvern tíma þegar langt var liðið á veturinn flutti annar strákanna í burtu þannig að ég þurfti bara að stinga einn af í hverjum spretti. Einhvern tíma undir vorið þegar ég var búin að spretta úr spori mánuðum saman fékk ég nóg einn daginn; Ég stoppaði eins og mamma sagði mér, sneri mér við og bauð kossinn eftirsótta. Eins og mamma mín líklega vissi var áhuginn fyrir að kyssa stelpuna nákvæmlega enginn og strákurinn hljóp í burtu. Grin Það sem meira er hann elti mig aldrei aftur. Einhverjum árum seinna urðum við bestu vinir, spjölluðum mikið og ég held ég geti sagt að við séum enn vinir þó við höfum ekki talað saman í fjölda ára.

 

Þar sem ég er nú “fórnarlambið” þá get ég fullyrt að þrátt fyrir að mér fyndist þetta leiðinlegt á meðan það varði þá kenndi þetta mér mikið. Ég lærði helling um að standa á eigin fótum og ég hef aldrei síðan lent í vandræðum með að taka á málum þegar ég hef lent í leiðinlegum aðstæðum. Auðvitað eiga börn að fá að vera börn en hver segir að börn eigi ekki að þekkja neitt nema einhverja Disney veröld? Því skyldu börn ekki vita að ekki allir eru góðir og það er ástæða til að passa sig?Börnin í sveitinni vita að litlu lömbin enda á diskunum okkar og þannig er bara lífið.

 

Það sem ég er að reyna að skoða með þessum sögum er að ég hef grun um að við séum stundum að ofvernda börnin okkar og í leiðinni að ofskilgreina vandamálið sem einelti er. Krakkar þurfa að læra að komast af í hópi. Við sem foreldrar getum ekki endalaust varið þau fyrir húfukasti, stríðni og öllu sem fyrir þau kemur. Við verðum að leyfa þeim að spjara sig.

 

Hins vegar þarf líka að fylgjast vel með þeim og koma í veg fyrir að einelti vaði uppi og skaði þann sem fyrir verður. Ekki síst þar sem ég held að barn sem beitir einelti í skóla muni halda því áfram alla tíð á einn eða annan hátt. Þetta er ekki einfalt og er líklega eitt af þessum endalausu verkefnum.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband