Kæru vinir,

jol034
Um leið og ég óska öllum gleðilegra jóla vona ég að allir geti notið hátíðanna, hver á sinn hátt. Þakka ykkur öllum sem hafa kíkt á mig hér í bloggheimum fyrir samskiptin og ég hlakka til framhaldsins.


Börn í auglýsingum

Það er öðru hvoru talað um að takmarka eða banna auglýsingar sem beint er að börnum. En hvað með notkun barna í auglýsingum? Það fer ótrúlega í taugarnar á mér þegar börn eru notuð til að auglýsa ótrúlegustu hluti!

Í kvöld er ég búin að heyra eitt barn segja hvað það sé óskaplega notalegt að versla í ákveðinni búð og annað að það sé svo hrætt um pabba sinn í vinnunni að allir eigi að versla á hann öryggisfatnað og gefa honum í jólagjöf! Finnst fólki þetta í lagi? Ekki mér. Þetta fer alveg hroðalega í taugarnar á mér!


Oft rekið mig á þetta

Vörur eru oft ódýrari pr. kg. í litlum pakkningum en stórum. Þetta er t.d. næstum algilt með rjóma. Það er yfirleitt alltaf ódýrara að kaupa rjóma í pela pakkningu en í 1/2 ltr. pakkningu. Stórundarlegt dæmi og algerlega úr takti við það sem reynt hefur verið að telja manni trú um.


mbl.is Vörur í stórum pakka dýrari en í litlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólin loksins að koma!

Jæja, svei mér þá ef jólaskapið lét ekki kræla á sér í morgun þar sem ég sat föst í umferðarteppu morgunsins í svarta myrkri, roki og rigningu.

Ég hlusta yfirleitt alltaf á Rás 2 á morgnanna og í morgun spiluðu þau fyrir mig jólalag með Ellý og Vilhjálmi. Þau klikka aldrei. Svo kom lag sem ég man ekki hvað heitir með Pálma Gunnars. Alger snilld og jólaskapið birtist.

Ég skrifaði víst athugasemd hjá Einari Braga og sagði að Pálmi væri svona borderline raulari (crooner). Þetta lag var svo aflappað og notalegt hjá honum að ég ákvað að þetta væri rétt hjá mér. Ég ákvað reyndar líka að hann væri flottasti raulari í heimi. Með svo svakalega flotta og fyllta rödd að þessir frægu, gömlu útlensku raularar komast ekki í hálfkvisti við hann.

Áfram Pálmi og áfram Rás 2 með svona fína tónlist!


Aðventutónleikar Frostrósa

Ég og karlinn skelltum okkur á aðventutónleika Frostrósa. Við fórum á sunnudagskvöldið sem mér skilst að hafi verið 3. og síðustu tónleikarnir.

Tónleikarnir voru svosem ágætir en ég fer ekki aftur á næsta ári. Ég fór kannski með rangar hugmyndir í kollinum en ég var s.s. að sækjast eftir jóla- og aðventustemmingu. Stærstan hluta tónleikana, sérstaklega fyrir hlé, var mikið nær að stemmingin minnti á rokktónleika. Nánast öll lög voru í rosalega stórum og mikilfenglegum útsetningum þannig að í raun voru útsetningarnar að yfirgnæfa lögin. Eitt lag fyrir hlé stóð algerlega uppúr en þá fluttu dívurnar fjórar eitt lag án undirleiks og gerðu það virkilega vel.

Ég er mjög hrifnæm á tónleikum og skelf iðulega úr kulda (fæ svo mikinn hroll þegar ég heyri eitthvað fallegt) eða ég háskæli. Nú eða að ég geri hvort tveggja. Á þessum tónleikum táraðist ég aðeins einu sinni og varð aldrei kalt. Það var við flutninginn á Frá ljósanna hásal. Það er nú líka varla hægt að klúðra því.

Skrýtnast af öllu fannst mér að Fóstbræður væru eingöngu notaðir í bakraddir. Þessi rosalega flotti kór flutti ekki eitt einasta lag! Ekki eitt einasta!! Alger skandall finnst mér.

Annars var öll umgerð rosa flott og falleg. Sviðið var glæsilegt og öll framkvæmdin. Reyndar voru ljósameistarar aðeins úti á túni því nokkur spotlight sem flökkuðu um sviðið lyftust svo mikið fram í sal að þau skinu beint í augun á tónleikagestum. Ég sá oft stjörnur eftir að hafa fengið þetta í augun. Samt var ég á 13. bekk.

Ætli ég segi ekki bara að mér finnist tónleikarnir of "pródúseraðir". það vantaði alla tilfinningu og öll jól í þessa tónleika. Ég ætla að spara mér þessa þúsundkalla á næsta ári. Meiri jól á tónleikum hjá einhverjum litlum sætum kór.


Óveðursdugnaður

Ég hafði ákveðið að stunda ekki launaða vinnu í dag en ætlaði að eyða deginum í "ekki neitt". Þetta ekki neitt var að fara í Bóksölu stúdenta, Bónus, Smáralindina, Elko og eitthvað fleira smálegt sem tengist jólum og jólaundirbúningi. Vegna veðurs var ákveðið að snúa við öllum áætlunum. Sennilega geri ég bara "ekki neitt" á morgun.

Þess í stað er ég búin að standa í eldhúsinu frá kl. 8 í morgun og baka 6 tertubotna og eina sort af smákökum. Mér finnst ég ótrúlega dugleg og verð bara að segja frá þessu!  Eftir hádegi ætla ég að reyna að pússa ljósakrónuna og gera svolítið hreint inni hjá mér. Grin

Mér heyrist veðrið eitthvað að vera að ganga niður svo bráðum fer ég kannski að hætta mér út fyrir dyr.


Hænan og eggið...

Ég heyrði viðtal við einhvern fræðing í síðdegisútvarpinu í gær. Þessi kona hafði komist að því í rannsóknum sínum að þar sem fráskildir foreldrar hefðu sameiginlega forsjá barna sinna, þar væru samskipti friðsamlegri og eðlilegri en þegar ekki væri um sameiginlega forsjá að ræða.  Hmmmmm.......

Er ekki málið að fólk sem getur átt friðsamleg og eðlileg samskipti sé líklegra til að hafa sameiginlega forsjá en hinir? Það held ég.

Þar fyrir utan finnst mér að það eigi að taka foreldra sem tala illa um hitt foreldri barna sinna þannig að þau heyri til, og rasskella þá opinberlega! Að því loknu ætti að senda þá á námskeið í almennri kurteisi, mannlegum samskiptum og uppeldi. Að eitt foreldri baknagi annað í eyru barna sinna finnst mér ófyrirgefanlegt.

Reyndar á enginn að baknaga annan en það er svo annað mál. 


Ég skil ekki skilorðskerfið hérna á Íslandi.

Mér finnst fínt að fólk sem hefur brotið af sér geti fengið að sleppa fyrr úr fangelsi vegna góðrar hegðunar. Mér finnst líka fínt að fólk sem hefur framið minniháttar afbrot geti fengið dóma án þess að fara í fangelsi en sé þá á skilorði í einhvern tiltekinn tíma. Þetta held ég að sé kerfi sem er ódýrt fyrir þjóðfélagið og gefi hinum brotlegu færi á að bæta sig og taka upp betri háttu.

 

Það sem ég skil hins vegar ekki er það sem gerist þegar fólk brýtur skilorð. Ég get vel skilið að það þurfi að sanna skilorðsbrot. Annars myndu illar tungur án efa eiga það til að gera það sem þær geta til að koma einhverjum á skilorði í steininn aftur hvort þó það væri ekki verðskuldað.

 

Þeir sem brjóta skilorð eru hins vegar iðulega menn sem eiga í einhverjum erfiðleikum með tilveruna. Stöku sinnum eru það líka forhertir glæpamenn. En þegar verið er að dæma þessa menn þá virðast þeir iðulega fá dóma á útsölukjörum. Tökum nýlegt dæmi:

         Maður sleppur úr steininum á skilorði. Hann á 14 mánuði eftir af dómnum. Þar sem hann er útlendingur er hann sendur úr landi og bannað að koma hingað næstu 10 árin. Fínt.

Maðurinn brýtur síðan skilorð með því að koma aftur til landsins og er með eiturlyf.  Dómurinn sem hann fær er 16 mánuðir í fangelsi. Hann er s.s. dæmdur til að sitja af sér 14 mánuðina sem hann átti eftir og fær 2 mánuði fyrir að koma ólöglega til landsins og að vera með fíkniefni á sér. 

 

Þetta er bara eitt dæmi. Oft er slegið upp í blöðum “XX mánuðir fyrir að stela lifrarpylsu” eða eitthvað álíka. Undantekningalaust er í þeim tilfellum verið að dæma fólk til að sitja af sér gamla dóma og fullt af öðrum afbrotum felld undir þá dóma.

 

Það sem ég er að reyna að segja er að ég vil að skilorðsbinding dóma sé nákvæmlega það. Ef þú hagar þér ekki eins og maður meðan á skilorði stendur (og helst lengur) þá ferðu beina leið í steininn. Helst ætti að vera einhvers konar skemmra dómstig til að yfirfara hvort skilorð hafi í raun verið brotið og fólk sent strax í afplánun ef svo er. Ef þú fremur glæp meðan þú ert á skilorði þá færðu annan aðskilinn dóm fyrir þann glæp.

 

En ég ræð þessu ekki og svona er þetta ekki.

 

Meðan ég man: Konur eru líka menn – ekki karlmenn en samt menn. Í þessum pistli er ég s.s. ekki eingöngu að tala um karla heldur líka konur. Bara svo það sé á hreinu J

 

Örstutt um hvunndaginn: Fór loksins í dag með pallhýsið í geymslu. Núna sést húsið mitt loksins frá götunni og fínu skreytingarnar. Fór svo með kallinum örstuttan skrens í gegnum Smáralindina. Keyptum smávegis til heimilisins og tvær jólagjafir. Komum okkur svo heim því við erum innilega sammála um að það er hundleiðinlegt að þvælast í búðum.  Endurgerði svo eina blómaskreytingu frá síðustu jólum og tókst bara vel til. Svo þegar ég settist hérna við tölvuna kom kær vinkona mín hinum megin á landinu á msn og sagði mér að hún hefði fengið 10 í prófi í markaðsfræði. Hún sem var að fara á límingunum yfir að hún gæti þetta ekki!! Hún er alger snilli og ég er svo ánægð fyrir hennar hönd að mér líður hálfpartinn eins og ég hafi sjálf fengið 10!! Þetta er ekki síður afrek hjá henni þ.e. hún er að drífa sig í skóla eftir margra ára hlé, með vinnu, mann og tvö ung börn. Mér finnst þetta hreinasta afrek!

 

Á morgun stendur svo til að setja saman piparkökuhús, baka súkkulaðibitakökur og kókostoppa og fara með manni og börnum í Borgarleikhúsið annað kvöld. Hlakka til.


Lítil jóla(reynslu)saga

Einu sinni endur fyrir löngu í októbermánuði skyldi ég við manninn minn. Við eigum tvö börn sem þá voru 2ja og 7 ára gömul. Á þessum tíma var ég í stjórnunarstöðu í litlu fyrirtæki þar sem var vertíð fyrir jólin. Þetta þýddi að vikurnar fyrir jól vann ég mjög langa vinnudaga, sex daga vikunnar.  Þrátt fyrir að börnin færu nokkuð reglulega til föður síns um helgar gaf þetta  ekki mikinn tíma til jólaundirbúnings.

Á aðfangadagskvöld var venja að við, foreldrar og börn, værum heima hjá okkur og hefðum jólin fyrir okkur. Dagarnir á eftir fóru svo í heimsóknir. Nú sóttu á mig alls kyns hugsanir.  Átti ég að láta börnin fara til föður síns um hátíðarnar því þar væri svo margt fólk? Átti ég að fara með þau austur í sveit til foreldra minna? Átti ég að troða mér og börnunum inn á systkyni mín? Einhvern vegin datt mér ekki í hug að vera ein heima með börnin mín – þeim fyndist það svo léleg og leiðinleg jól. Ofan á þetta bættist svo allt sem þurfti að gera en var ekki að takast vegna anna í vinnu.

Það sem bjargaði sálarheill minni þessi jól var lítið símtal við mömmu. Hún hefur greinilega heyrt að stefndi í óefni með stressið á dótturinni. Símtalið var einhvern vegin svona:

Mamma:             Áttu jólatré?

Ég:                         Já.

Mamma:             Áttu jólaskraut?

Ég:                         Já.

Mamma:             Ertu búin að kaupa pakka handa krökkunum og í matinn?

Ég:                         Já.

Mamma:             Þá ertu tilbúin. Jólin koma hvort sem þú skúrar eða ekki og krakkarnir hafa ekki hugmynd um hvort það er búið að skúra eða ekki. Slappaðu bara af með krökkunum og hættu þessari vitleysu!  

Og hana nú! Ég ákvað að halda gömlum venjum og vera ein heima með börnin mín á aðfangadagskvöld. Þetta varð dásamlegasta aðfangadagskvöld sem ég hef upplifað. Ég tók til og gerði fínt í íbúðinni. Ég ryksugaði, en það var ekki þurkað úr skápum og það var ekki einu sinni skúrað. En það var skreytt og eldaður góður matur.

Þar sem ég sat um mitt kvöld með fæturna uppi í sófa með mjólk og smákökur (úr búð!) og horfði á börnin mín leika sér glöð og afslöppuð á gólfinu áttaði ég mig á því að þessi kríli eru magnari á okkur foreldrana. Ef við erum stressuð, þá verða þau það líka. Fyrir þessi jól hætti ég öllu jólastressi nokkrum dögum fyrir jól og þau voru svo yndisleg og afslöppuð.  Þar sem ég horfði á þau vissi ég að ég átti fallegustu og bestu börn í heimi.

 

Vinsæl í vinnu

Ég varð ótrúlega vinsæl í vinnunni minni í dag. Miklu vinsælli en ég hef orðið síðustu 6 ár á þessum vinnustað. Samt held ég að ég sé almennt frekar vinsæll starfskraftur. Það hefur allavega ekkert verið kvartað undan mér. Allavega ekkert að ráði.  Cool

 En í dag gaf ég mínum nánustu samstarfsmönnum súkkulaðidagatal. Ég sá þau úti í búð og stóðst ekki freistinguna. Í fyrra ætluðum við að kaupa okkur dagatöl en þá voru þau uppseld svo nú ákvað ég að vera tímanlega og keypti fyrir okkur allar.  Hvílík lukka! Mikið rosalega var þetta skemmtilegt og greinilegt að það þarf ekki mikið til að gleðjast!  Grin


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband