27.11.2007 | 09:05
Kynbundið ofbeldi
Ég sá fyrir stuttu fyrirsögn um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi. Fínt, flott, hugsaði ég. En af því ég er nú eins og ég er þá hélt ég áfram að hugsa....
Hvað er eiginlega kynbundið ofbeldi?? Kynin eru tvö, karlar og konur. Hvorugkyn telst ekki með af því það er bara í málfræði. Kynbundið ofbeldi hlýtur því að vera þegar karlar lemja karla og konur lemja konur. Er það ekki? Ef kona lemur karl eða karl lemur konu þá eru bæði kynin komin í málið og ofbeldið hætt að vera bundið við kyn, ekki satt??
Ég ætla alls ekki að gera lítið úr því ofbeldi sem ég veit að verið er að tala um undir svona fyrirsögnum. Hins vegar finnst mér frekar aumt að vera að flokka ofbeldi. Ofbeldi er bara ofbeldi og það á að vinna gegn því hvar og hvernig sem það finnst. Af hverju að taka eina útgáfu þess sérstaklega fyrir? Sjáum við einhvern tíma: Berjumst gegn hártogi Konur sérstakur áhættuhópur þ.e. þær eru oft hárprúðari en karlar. ?
Þar fyrir utan veit ég fyrir víst að konur eru engu betri en karlar inni á heimilum og fara sumar hverjar mjög illa með karla sína. Ekki síst þess vegna finnst mér ekki rétt að taka vinnu gegn ofbeldi fyrir með þessu móti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.11.2007 | 10:58
Mánuður til jóla
Ég var að uppgötva að það er réttur mánuður til jóla. Ég er ein af þeim sem er alveg hörð á því að jólaskraut og jólalög á ekki að sjást og heyrast fyrr en á aðventunni eða frá 1. des. eftir því hvort kemur fyrr.
En nú var ég s.s. að uppgötva að það er mánuður til jóla. Ég var líka að uppgötva að ég er nú þegar búin að ráðstafa öllum sunnudögum til jóla. Ég vinn frekar mikið þannig að á virkum dögum gerir ég engar rósir á kvöldin eftir að vinnu lýkur. Það þýðir að ég hef laugardagana fram að jólum til að sinna jólaundirbúningi. Nema næsta laugardag, þá þarf ég að vinna og undirbúa piparkökudaginn sem verður hjá mér næsta sunnudag. Svo ég hef þrjá laugardaga í desember til undirbúnings.
Þessa þrjá laugardaga þarf að nota til baksturs, innkaupa, skreytinga, þrifa og hvers annars sem til fellur í jólaundirbúningi.
Þannig að mér datt í hug Er ekki hægt að hafa svona 45 50 daga í desember ???
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.11.2007 | 15:50
Náungakærleikur?
Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, skuluð þér og þeim gjöra.
Ég er ekki mikil trúmanneskja en ég trúi þessu alveg staðfastlega. Ég veit að það er trúfrelsi og að fólk hefur mismunandi gildi og sannfæringu. En ég vildi óska að það væru fleiri sem hefðu þessa reglu í heiðri.
Það sem veldur þessum pælingum mínum núna er umræðan um útlendinga. Það er mikið rætt um að það eigi ekki að hleypa þessu fólki inn í landið eða að það eigi að gera hitt eða þetta við þetta fólk og að þetta fólk sé svona eða hinsegin og yfirleitt er þetta allt á mjög neikvæðum nótum. Eftir þessum umræðum að dæma eru þetta allt nauðgarar, þjófar og eiturlyfjasmyglarar.
Hvernig væri að láta duga að taka á þeim einstaklingum sem gerast brotlegir og sýna hinum þá virðingu sem þeir eiga skilið? Ég er alveg handviss um að það er ekki auðvelt að taka sig upp frá fjölskyldu og vinum, flytjast til ókunns lands þar sem þú skilur engann og enginn skilur þig og vinna þar fyrir launum sem þú sendir að stærstum hluta heim til að reyna að tryggja fjölskyldu þinni framfærslu. Ég hef líka heyrt marga hrósa þeim fyrir vinnusemi og dugnað. Þeir mæta í vinnuna og eru ekki heima "veikir". Það eru nokkur atriði sem mér finnst vert að hafa í huga þegar sleggjudómar fljúga:
- Íslendingar báðu fólkið um að koma hingað.
- Íslendingar bera ábyrgð á launakjörum fólksins. Heldur einhver í alvöru að þeir vilji ekki hærra kaup?
- Íslendingar bjóða þeim lélegar vistarverur. Höldum við að þeir vilji ekki rúmbetra og notalegra húsnæði með tryggum brunavörnum?
- Íslendingar sjá almennt um að erlendir verkamenn tali ekki íslensku. Íslendingar tala yfirleitt ensku við erlent fólk. Sem er undarlegt þ.e. pólverjar t.d. tala almennt ekki ensku. En þeir eru nokkuð fljótir að læra hana á Íslandi.
Um daginn fór ég á sunnudegi með karlinum mínum í Smáralindina. Þar rákumst við á pólverja sem við erum málkunnug. Duglegur og hress karl sem mætir undantekningalaust í sína vinnu og vinnur vel fyrir sinn vinnuveitanda. Hann sagði okkur að hann væri í smá basli þessa dagana af því að hraðbankinn át debetkortið hans nokkrum dögum áður. Hann hafði gleymt að sækja nýtt kort þegar kortið rann út mánaðamótin á undan. Kemur fyrir besta fólk. Svo sagði karlinn: En þetta gerir ekkert til. Ég er nefnilega pólverji og ég fer hvort eð er bara í Smáralindina til að stela. Ætli ég hendi ekki bara úlpunni minni og steli mér nýrri! Svo hló hann að gríninu. Ég brosti eins og fífl en fékk um leið hnút í magann. Einhverjir elskulegir íslendingar hafa verið svo almennilegir að gera honum og hans félögum það fyllilega ljóst hverslags pakk hann og hans hyski sé. Hverslags hegðun er þetta eiginlega? Á fólk ekki að skammast sín?
Einu sinni hreyktum við okkur yfir að vera gestrisin þjóð. Ég held að því fari verulega fjarri þessa dagana.
Þetta að haga sér við fólk eins og við viljum að sé komið fram við okkur er líka eitthvað sem virðist hafa
gleymst. Við það er ég ósátt og ég skammast mín oft fyrir landa mína þessar vikurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.11.2007 | 09:17
Hefðir
Ég er alveg óvart búin að koma á nýrri hefð í minni fjölskyldu. Ég áttaði mig á þessu þegar það var hvíslað að mér um helgina: "Sigrún frænka var að spyrja hvort það yrði ekki svona piparkökuskreytingadagur fyrir þessi jól líka?"
Fyrir 3-4 árum langaði mig að hitta fjölskylduna í kringum jólin án þess að það væri formlegt boð, allir í sparifötunum og stífir af hátíðleik. Svo ég boðaði opið hús, keypti fullt af tilbúnum piparkökum, bjó til alla liti af glassúr, skreytti heimilið fyrir jólin, setti jólalög í spilarann og beið eftir gestum. Þetta var bara snilld! Fólk kom og fór eins og því hentaði yfir daginn, ungir og gamlir skreyttu piparkökur, jólalögin voru rauluð, fólk fékk eitthvað smávegis gott í gogginn (að sjálfsögðu!) svo var spjallað og hlegið. Þegar fólk tygjaði sig heim á leið fengu krakkarnir með sér í poka slatta af piparkökunum sem búið var að skreyta. Þetta hefur verið endurtekið árlega síðan.
Nú verður ekki aftur snúið. Ég verð með opið hús aftur fyrstu helgina í desember. Þá ætla ég að vera búin að skreyta húsið mitt að utan og innan til að gera stemminguna sem skemmtilegasta. Líka fínt að vera búin að því og geta gert eitthvað annað í desember. Ætla t.d. á tónleika.
Frá síðustu færslu er ég búin að jafna mig á geðvonskunni sem þá hrjáði mig, leggjast í magapest, kallinn farinn til Marokkó (kemur aftur í kvöld!!), bíllinn búinn að bila og fara í viðgerð (rétt eina ferðina enn) og ég komst að því að dóttir mín er búin að láta tattóvera sig. Hún er orðin 18 svo hún réði því. Þannig að þrátt fyrir að það gerist aldrei neitt hjá manni þá er nú samt alltaf eitthvað um að vera ef grannt er skoðað.
Munið að njóta hversdagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.11.2007 | 09:02
Vondur dagur
Það er vondur dagur í dag. Það hefur enginn gert mér neitt og það er ekkert að. Þetta er bara einn af þessum dögum.
Ég vaknaði geðvond og með hausverk, það var leiðinlegt í ræktinni, ég nenni ekki að vinna, fötin mín eru tuskuleg, ég er illa haldin af ljótunni og svo varð síminn minn rafmagnslaus rétt áðan. Ef einhver karlkyns les þetta þá ætla ég að taka það fram að það er ekkert að hormónunum í mér! Þetta er bara svona dagur.
En það er eitt gott við svona daga: Maður lærir að meta alla hina dagana.
En jafnvel á mínum bestu dögum fýkur í mig þegar ég heyri auglýsingu eins og í bílnum áðan: "Ævintýraland barnanna, Just for kids, opnar eftir X daga!" Hvaða rolur geta ekki druslast til að skýra skemmtistað fyrir BÖRN íslensku nafni?? Bein þýðing á þessu enska nafni er t.d. "Bara fyrir börn" sem er 10 sinnum skárra en þetta bull!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.11.2007 | 13:33
Það kostar að geyma peninga!
Ég er ekki alveg að ná mér núna.... Kallinn minn fer í skrepp til útlanda um næstu helgi og að því tilefni hljóp ég í bankann að ná í nokkrar evrur sem við eigum á bankareikningi til að grípa í við akkúrat svona aðstæður. Afgreiðslan í bankanum fór nokkurn vegin svona fram:
Ég: Ég ætla að taka 100 evrur út af reikningnum mínum.
Gjaldkeri: Já, það kostar 127.
Ég: Ha, nú, allt í lagi ég borga það bara. (Svo fór ég að velta fyrir mér: af hverju kostar að taka mína peninga útaf mínum reikningi??)
Ég: Af hverju? Fyrir hvað er ég að borga?
Gjaldkeri: Sko, það kostar að geyma peningana. Þeir ná ekki að ávaxta sig sjálfir.
Hverslags eiginlega bull er þetta! Hvernig banki getur ekki einu sinni ávaxtað peningana sem hann geymir nógu vel til að duga fyrir afgreiðslugjöldum?? Ég setti þessar evrur í bankann af því það væri miklu sniðugra að hafa þær þar en að eiga þær undir koddanum heima. En ef þetta er svona þá er mikið sniðugra að eiga þær bara heima. Maður fær gengisbreytingarnar alveg jafnt þó aurinn sé heima og þarf ekki að borga fyrir að nota sína eigin peninga.
Í framtíðinni mun ég s.s. geyma þann gjaldeyri sem mér áskotnast frekar heima undir kodda en að rölta með þá í bankann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.10.2007 | 14:40
Blús
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.10.2007 | 20:49
Bitlausir hnífar
Þar sem ég stóð í eldhúsinu fyrr í kvöld og reytti og tætti kjötið af beinunum á kjúllanum undir því yfirskyni að ég væri að úrbeina, varð mér skyndilega hugsað til Möggu. Ég hugsaði; Magga á þessa fínu potta... Magga á alveg örugglega líka almennilega hnífa! Svo urðu pælingarnar eilítið skynsamlegri. Ég fór að velta því fyrir mér hvernig standi á því að svo fáir eiga almennilega hnífa? Pabbi sagði mér einu sinni, og ég trúi honum alveg, að það sé miklu líklegra að maður skeri sig, og það illa, á bitlausum hnífum en beittum. Samt eru eldhús landsmanna full af bitlausum hnífum. Við eigum rándýr eldhús með flottum eldavélum, ofnum, ísskápum og hvaða dóti og drasli sem við getum troðið í þau. En fæstir eiga almennilega hnífa.
Ég hef oft staðið í búðum og starað á alla fallegu og fínu hnífana sem hanga þar í röðum. Ég hef samt aldrei keypt neinn af viti. Þegar ég hef verið komin með hníf í hendurnar í verðflokki sem gefur til kynna að þetta ætti að vera góður hnífur hef ég alltaf hætt við. Annað hvort hef ég fengið skyndilegt nýskukast eða hef farið að velta því fyrir mér hvort þetta sé raunverulega góður hnífur. Ég vil nefnilega ekki eyða miklum peningum nema vera viss um að fá góða vöru.
Þannig að eldhúsið mitt heldur áfram að vera fullt af bitlausum hnífum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.10.2007 | 18:49
Tölvuvandamál!
Nú reyti ég hár mitt í geðvonsku! Það er eitthvað að Netinu hjá mér sem er að gera mig óða! Þetta lýsir sér m.a. í því að ýmist vistast athugasemdir mínar á bloginu alls ekki eða margoft! Ég bið þá sem eru að fá margskráningar innilega afsökunar en veit ekki hvort ég get lofað bót og betrun því ég veit ekki hvað er að.
Síminn segir að það sé ekkert að hjá þeim. Séníið á heimilinu (sem er alvöru séní - hefur unnið við djúpar tölvukerfispælingar árum saman) segir að það sé ekkert að hjá okkur svo við kjósum að kenna Símanum samt um.
Vona að þetta komist á Netið og helst ekki oftar en einu sinni. Þetta er s.s. útgáfa 2 af þessum pistli þ.e. útgáfa 1 hvarf eitthvert þegar ég reyndi að vista.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.10.2007 | 18:49
Tölvuvandamál!
Nú reyti ég hár mitt í geðvonsku! Það er eitthvað að Netinu hjá mér sem er að gera mig óða! Þetta lýsir sér m.a. í því að ýmist vistast athugasemdir mínar á bloginu alls ekki eða margoft! Ég bið þá sem eru að fá margskráningar innilega afsökunar en veit ekki hvort ég get lofað bót og betrun því ég veit ekki hvað er að.
Síminn segir að það sé ekkert að hjá þeim. Séníið á heimilinu (sem er alvöru séní - hefur unnið við djúpar tölvukerfispælingar árum saman) segir að það sé ekkert að hjá okkur svo við kjósum að kenna Símanum samt um.
Vona að þetta komist á Netið og helst ekki oftar en einu sinni. Þetta er s.s. útgáfa 2 af þessum pistli þ.e. útgáfa 1 hvarf eitthvert þegar ég reyndi að vista.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)