21.10.2007 | 12:12
Er hljóðkerfið bilað??
Hvernig stendur á því að kynnar finna hjá sér þörf til að garga í hljóðnemann?? Það getur bara varla verið að hljóðkerfi ágætra stofnana eins og t.d. RÚV séu svo léleg að það þurfi sífellt að nota raddstyrk sem hentar til að kalla á milli húsa til að koma einföldum kynningum á framfæri í sjónvarpi. Þetta á við bæði við kynningar í sjónvarpssal og í útsendingum utan úr bæ.
Mér leiðist s.s. að láta stöðugt garga á mig og er þess vegna búin að gefast upp á að horfa á Laugardagslagið þó að ég hafi áhuga á að heyra og sjá flutninginn á nýju lögunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.10.2007 | 09:00
Þar kom að því....
.... að það varð árekstur á nýja veginum austur! Núna er allt lokað vegna áreksturs og ekki nokkur leið að hleypa neinum framhjá. Engin vegöxl, ein akrein, vírinn á milli akreina og allt fast með tilheyrandi bílaröð langar leiðir.
Skyldi þetta verða til þess að vegagerðin og þeir sem stjórna vegaframkvæmdum sjái að þessi uppsetning á veg er ekki sérlega sniðug?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.10.2007 | 14:43
Ég er með smá áhyggjur......
af þessu hitaveitumáli. Ekki það að ég verð að viðurkenna að ég næ ekki alveg samhenginu í öllu því sem er að gerast þessa dagana í sambandi við sameiningu REI og GGE.
Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af er að vatnið okkar sé að verða einkaeign. Hingað til hafa landeigendur átt rétt til vatnsins á sínu landi en því fylgt kvaðir að þeir hafi orðið að gefa eftir vatn ef það hefur þurft t.d. vatn til húshitunar til almennings. Þetta virðist vera að breytast.
Hvað gerist ef hitaveitur landsins verða allt í einu orðnar í einkaeign? Hvað gerist þegar einhver ævintýramaðurinn getur ekki staðið við stóru orðin og hitaveita einhvers staðar á landsbyggðinni fer á hausinn? Hvað þá? Þó svo færi ekki, er þá alveg í lagi að allur almenningur verði að beygja sig undir það að borga meira og meira eftir því sem stjórarnir í þessum fyrirtækjum heimta meiri arðsemi til að standa undir meiri útrás eða stærri bíl undir stjórana? Við getum skipt um símafyrirtæki eða jafnvel hætt að nota síma ef við erum ósátt við símafyrirtækin. Við getum hætt að kaupa fisk eða brauð eða næstum hvaða neysluvöru sem er ef við erum ósátt við verð eða gæði. En við getum ekki hætt að kaupa heitt og kalt vatn. Við erum algerlega háð orkufyrirtækjum landsins til að halda lífi og verðum því um alla framtíð að borga það sem upp er sett fyrir vatn, rafmagn og hita.
Ég viðurkenni fúslega að ég gladdist yfir krónunum sem komu í kassann hjá bæjarsjóðnum þegar hluturinn í Hitaveitu Suðurnesja var seldur. Það var hins vegar skammsýni. Betra hefði verið að taka lífinu aðeins rólegar og flýta sér ekki eins mikið að selja og verða ríkur. Nú veit enginn hvert stefnir og kannski þarf ég að borga vatn uppsprengdu verði innan tíðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.10.2007 | 21:01
Loksins, loksins, LOKSINS......
...er sturtan mín komin í lag!!! Hvílík dýrð og dásemd Eftir að hafa verið sturtulaus síðan um síðustu páska get ég ekki annað en verið yfir mig sæl og ánægð með að vera búin að fá hana í lag. Svo er hún líka miklu flottari, fínni og betri en áður!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.10.2007 | 09:30
Gelding andans
Hvað er málið eiginlega með nafngiftir á íslenskum fyrirtækjum þessa dagana? Læt vera þegar fyrirtæki sem starfa á erlendum vettvangi kjósa að bæta "Group" aftan við nafnið sitt. Fyrirtæki sem eingöngu starfa á íslenskum markaði sem gera þetta eru bara hallærisleg.
Nú er ég hins vegar að spá í þessi fáránlegu nöfn sem eru að birtast okkur síðustu mánuði: Sko, Og, Já, N1 og nú síðast A4!!! Kannski einhver fleiri álíka sem ég man ekki eftir. Hvílíkt sem fólk þarf að vera gelt í kollinum að geta ekki fundið eitthvað aðeins kjarnyrtara og jafnvel örlítið lýsandi fyrir reksturinn sem nafnið hangir við! Eflaust hefur einhver sniðug auglýsingastofa getað rukkað einhverja hrúgu af seðlum fyrir þessa visku andans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.9.2007 | 21:07
Frábær skemmtun!
Við hjónin fórum í gærkvöldi á Mr. Skallagrímsson í Landnámssetrinu í Borgarnesi.
Skemmst frá að segja hef ég ekki skemmt mér eins vel í langan, langan tíma. Benedikt er hreinn snillingur að segja söguna þannig að allir skilja og skemmta sér yfir. Ég lærði helling og skemmti mér stórkostlega á meðan. Mæli eindregið með þessari kvöldskemmtun.
Fyrir ykkur sem finnst þetta of langt frá höfuðborginni..... þið eruð komin í bæinn vel fyrir miðnætti, þetta er nú ekki lengra en það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.9.2007 | 23:28
Ríkisfjármálin
Nú er allt á öðrum endanum yfir framúrakstri ríkisstofnana í fjármálum. Þingmenn og fleiri eru andaktugir í vandlætingu sinni yfir stjórum þessara stofnana. Þeir hafa brotið lög - fjárlögin eru jú lög.
En hvaða lög eiga þessir stjórar að brjóta? Þessar stofnanir er flestar ef ekki allar reknar eftir einhverjum lögum og eiga að sinna einhverri ákveðinni lögboðinni þjónustu. Ef þær fá ekki aura til þess, þá brjóta stjórarnir lög um starfsemi stofnananna sinna. Hvort er þá betra að brjóta fjárlög eða lög um rekstur stofnunarinnar?
Flestar þessarar stofnanir hafa verið sveltar í fjárlögum árum saman. Þess vegna finnst mér stjórunum í mörgum tilfellum vorkunn. Þeir eru að fá skammir fyrir að fjárlaganefnd úthlutar þeim einhverri slembitölu til rekstrarins ár hvert sem oft á tíðum er ekki nokkur leið að reka dótið fyrir.
Nú eru allir löggustjórarnir alveg uppí topp sammála um að borga löggunni 30.000 krónur í bónus mánaðarlega. Fínt. En hvaðan koma peningarnir? Verður ekki einhver skammaður útaf þessu á næsta ári fyrir framúrakstur á fjárlögum þessa árs?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.9.2007 | 20:04
Kemur fólki þetta við?
Stundum velti ég fyrir mér hversu maðurinn á erfitt með að meðtaka hegðun einstaklings sem er öðruvísi en hjá fjöldanum. Ég hef tvisvar á æfinni tekið ákvarðanir sem hafa ekki þótt venjulegar og viðbrögð fólks verið ótrúlega mikil.
Í fyrra sinnið ákvað ég að minnka vinnu til að vera meira heima hjá börnunum mínum. Dóttir mín var eitthvað 8 9 ára og mér fannst hana vanta festu í tilveruna og aðeins meiri tíma og aðstoð við heimanámið. Þar sem ég hafði tök á því, samdi ég við vinnuveitandann og fór að hætta kl. 2 á daginn og fara heim til að sinna uppeldinu. Viðbrögð fólks voru ótrúleg. Það gat varla einn einasti maður skilið þessa ákvörðun mína. Það héldu allir að það væri eitthvað að heima við. Stelpan hlaut að vera með hegðunarvanda, veik, fötluð eða ég veit ekki hvað. Það var ekki fyrr en nokkru síðar þegar ég ákvað að fara í kvöldskóla og læra forritun og kerfisfræði sem fólk sættist við að ég minnkaði vinnuna. Það að sinna uppeldi var hreint ekki nóg ástæða til að minnka vinnu.
Seinna skiptið er enn ekki yfirstaðið. Ég hef s.s. ákveðið að hætta í góðu skrifstofustarfi til þess að sinna eigin fyrirtæki. Fyrir utan að sjá um bókhaldið mun ég vinna mest við að keyra vörubíl. Ég er að komast að því að svona gerir maður ekki. Allavega ekki nema maður sé skrýtinn. Ég er reyndar kannski skrýtin en það er allt annað mál. Í báðum þessum tilvikum finn ég mig stadda í mikilli vörn gagnvart fólki allt í kringum mig. Reyndar ekki minni nánustu fjölskyldu heldur öðru fólki sem kemur þetta í raun ekkert við.
Ef ég upplifi svona mikil viðbrögð við svona minniháttar hliðarspori við það sem venjulegt er, hvað mega þeir þá þola sem taka verulega óvenjulegar ákvarðanir? Ein kona hér í bloggheimum hefur hnýtt sýna bagga töluvert öðrum hnútum en almennt gengur og gerist. Hún hefur komið fram opinberlega og sagt frá óvenjulegu lífi sínu. Þar með hefur hún líka lent illilega milli tannana á fólki. Ég verð að viðurkenna að ég hef í einhverjum tilfellum tekið þátt í umræðum um hennar líf og bið hana hér með afsökunar á því. Ég hef hins vegar aldrei talað illa um hennar ákvarðanir og lífsval. Ég átti hins vegar ekkert með að vera að ræða hennar líf frekar en annara í þeirra fjarveru.
Það sem ég er að segja með allri þessari langloku er að ég skil ekki hvaða máli það skiptir náungann hvernig annað fólk lifir. Svo framarlega sem fólk gengur ekki á rétt annara, lætur náungann í friði og er í stórum dráttum friðsamt, löghlýðið fólk, hvað kemur fólki þetta þá við?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.9.2007 | 11:12
Frumburðurinn
Á sama tíma fyrir 23 árum síðan var ég frekar drusluleg en alsæl með tilveruna. Þá kom nefnilega frumburðurinn í heiminn. Svolítið einkennilegt þar sem ég er eins og ég hef nefnt áður á þessu bloggi rétt orðin 27 ára sjálf skrýtið!
Litli drengurinn minn er fyrir lifandis löngu vaxinn mér langt upp fyrir haus og orðinn hinn myndarlegasti. Ekki er verra að hann virðist að auki vera að fullorðnast þannig að ég er sífellt að kynnast betur nýrri manneskju. Best af öllu er að ég kann vel við þá manneskju. Hann er blíðlyndur, heimakær og barngóður sem sést best á barnaskaranum (systkynabörnin mín) sem sækjast í að vera hjá honum og hann leyfir þeim það nánast undantekningalaust. Hann er ekkert fullkominn frekar en við hin en ég er bara nokkuð montin af útkomunni.
Þess vegna er ég líka búin að baka köku og á von á slatta af fjölskyldumeðlimum í kaffi í dag. Það verður eins og venjulega líflegt og skemmtilegt.
Vonandi eigið þið þarna úti líka góðan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.9.2007 | 08:54
Var að velta þessu fyrir mér...
Miðað við allt sem hefur gengið á undanfarið í umhverfismálum skil ég ekki alveg hvers vegna enginn hefur sagt neitt við því að flytja jarðveginn frá HR þarna uppeftir. Skv. fólki sem sá undirbúninginn var einhvers konar byggingaplast sett undir jarðveginn og sandur þar ofaná. Er það nóg til að tryggja vatnslindir höfuðborgarinnar? Ég er enginn jarðfræðingur og hvað þá að ég hafi vit á hreinsun á jarðvegi. En ég hef sjálf séð hið gríðarlega magn af jarðvegi sem er keyrt þarna uppeftir frá byggingasvæði HR og það er ekkert smáræði. Allir vita líka hversu mikilvægt er að vatnið okkar sé hreint bæði í dag og um alla framtíð.
Var ekki hægt að finna einhvert annað svæði fjær lindunum þó ekki nema bara til að vera viss???
Óþarfa áhætta á heiðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)