Mikið að gera

Heyrði á ruv.is viðtalið við Einar Braga, tónlistarskólastjór á Seyðisfirði. Mjög skemmtilegt. Ekki oft sem maður veit nákvæmlega um hvað útvarpsfólkið er að tala þegar það er að rifja upp æskuna!

Er komin í 50% vinnu en enn með flest verkefnin svo ég þarf að halda vel á spöðunum til að redda því sem ég get og ýta undan mér því sem hægt er. Má þess vegna lítið vera að því að blogga. Meira seinna.


Duglegur strákur

Nú þarf ég smávegis að monta mig. Frumburðurinn (23ja ára!) var að drífa sig aftur í skóla. Hann flosnaði upp 17 ára og hefur verið í mismunandi láglaunastörfum síðan. Búinn að uppgötva að mennt er máttur og dreif sig í Fjöltækniskólann.

Þrátt fyrr langa fjarveru frá námi, kennslubók á dönsku og smá athyglisbrest fékk hann 9,5 á fyrsta prófi vetrarins! Ein montin mamma!! Brosandi


Umferðartrix

Í dag gerði ég loksins eins og ég er búin að ætla að gera síðan um síðustu páska. Ég mætti aftur í ræktina fyrir vinnu. Það er bara frábært! Kostirnir eru t.d. þessir:

- Maður mætir sprækur og hress í vinnuna.

- Maður sleppur við umferðarteppuna.

- Maður hittir fullt af morgunhressu og kröftugu fólki í ræktinni.

Aukaverkanirnar gætu verið að maður færi að passa mataræðið betur, léttist um 1-2 kíló og gæti jafnvel náð blóðþrýstingnum niður á rétt ról. Það er semsagt ekkert nema gott við að drusla sér á lappir og fara í ræktina.

Mæli með þessu fyrir fólk sem nennir ekki að sitja fast í umferð á hverjum morgni.


Erlent vinnuafl

Ég er alveg sátt við að fá erlent vinnuafl í landið. En það þarf að lúta sömu lögum og við hin sem fyrir erum. Það á líka að veita þessu fólki mannsæmandi aðbúnað og tryggingar. Það er ótækt að fólk sem leggur á sig að vera langdvölum í framandi landi, fjarri fjölskyldu sinni þurfi í ofanálag að sætta sig við misgæfulegan aðbúnað, léleg laun og jafnvel að fá ekki launin sín greidd eins og eitthvað hefur borið á.

Það er ekki heldur við þetta erlenda verkafólk að sakast að það sé sett í hin og þessi störf sem ætluð eru iðnlærðum. Þar er við íslenska verkstjóra og fyrirtækiseigendur að sakast. Það að það hafi borið á göllum í nýbyggingum er eingöngu okkur íslendingum að kenna. Okkur liggur svo mikið á. Við getum ekki beðið eftir því að fá fullgilda faglærða iðnaðarmenn í verkið og viljum bara fá verkið unnið strax! Þar með falla margir í freistni og láta ódýrt vinnuafl vinna verkin undir allt of lítilli verkstjórn þannig að illa fer í sumum tilfellum.

Byrjun og endir allra þeirra vandamála sem fylgja hinum mikla fjölda erlendra verkamanna sem heimsækja okkur íslendinga og veita okkur þjónustu sína, liggur hjá okkur sjálfum, íslendingum.


Sjálfhverfa Reykvíkinga

Í gær las ég á mbl.is að Reykvíkingar ættu voða erfitt af því þeir væru allt að 30 mínútur á leið til vinnu og hraðinn í gærmorgun hefði farið allt niður í 30 km.  á klst.  Einmitt. Ekki gott, en hvað með alla hina íbúa höfuðborgarsvæðisins sem eru töluvert lengur á leið í vinnuna og yrðu bara nokkuð kátir með að komast á 30 km. hraða??

Síðan skólar byrjuðu í haust hefur tekið nálægt klukkutíma að komast frá Hafnarfirði til miðbæjar Reykjavíkur. Ég er búin að prófa allar tímasetningar frá 8 – 9, það skiptir engu máli hvenær innan þess klukkutíma maður er á ferðinni. Það tekur 40-50 mínútur að fara frá Lækjargötu/Setbergi í miðbæ Reykjavíkur.

Síðustu tvo daga hef ég líka litið alsæl á hraðamælinn þegar umferðin var loksins farin að ganga nokkuð smurt; Og séð að ég hef verið á alveg ofurhraða: 25!

Reykvíkingar eru þess vegna bara í nokkuð góðum málum miðað við marga aðra í kringum þá. Eins og svo oft áður.


Drykkjuvandamál?

Ég er farin að halda að ég eigi við n.k. drykkjuvandamál að stríða.

Þannig er mál með vexti að síðasta laugardagskvöld langaði mig að gleðja mig með smá lögg í aðra tána eftir erfiðan, framkvæmdasaman dag. Fór í skápinn minn að leita að púrtvíni en það var ekki til. Fann sterkt vín en langaði ekki í það. Svo var til eitthvað af líkjörum sem mig langaði ekki heldur í. Svo sá ég flöskuna – Baileys!! Nú skyldi ég fá mér beilís á klaka og hafa það notalegt yfir sjónvarpinu!!

Mín fór og fann sér fallegt glas, setti í það kurlaðan klaka og sótti flöskuna. Flaskan var óátekin, 1 lítra flaska sem einhvern tíma hafði verið keypt í fríhöfninni. Nú, ég rauf innsiglið og hellti svolítilli lögg yfir klakann.  mmmmm....nammi, namm!!!!

En ómígodddd.... svo fékk ég mér fyrsta dásamlega sopann..... hvílíkt ógeð!!!!! Bragðið af guðaveigunum var hreint ógeð!!! Við nánari athugun kom í ljós að á flöskunni stóð skýrum stöfum: „Best taste before 05-2003“  Tvöþúsundogþrjú!!!! Flaskan var komin rúm fjögur ár framyfir dagsetningu!!! Það voru þung spor að vaskinum að hella niður heilum lítra af beilís.

Hver lætur áfengi renna út á dagsetningu uppí skáp hjá sér??? Minnug þess að í fyrrasumar fannst í fórum okkar hjónanna heill kassi af bjór sem líka var runninn út á dagsetningu hef ég komist að þeirri niðurstöðu að við eigum við drykkjuvandamál að stríða – við drekkum ekki nóg!! Undur og stórmerki


Minnka vinnuna

Nú er ég voða spennt. Búin að semja um minnkað starfshlutfall. Byrja 1. sept í 50% vinnu. Get þá sinnt einkarekstrinum betur. Það kostar reyndar lægri örugga útborgun en það reddast!

Maður fær líka alltaf aukinn kraft við að breyta til. Stundum er gott að breyta bara breytinganna vegna.


Sturtan mín

Ég er búin að vera sturtulaus síðan um páska.

 

Ég ólst upp í sturtulausu húsi. Þar var þetta fína baðkar þar sem öll fjölskyldan baðaði sig eftir þörfum. Það var ekki á hverjum degi. Ef ég man rétt var manni skellt í bað svona ca. einu sinni í viku. Stundum var hárlubbinn þveginn aukalega. Það var samt engin fýla af manni og við lágum ekki veik af vanþrifum.

 

Svo varð maður fullorðinn og þurfti skyndilega að fara í sturtu daglega. Þá er ekki gott þegar skyndilega kemur í ljós að sturtuklefinn lekur. Það gerðist hjá mér. Fúgan lak sem olli raka yfir í næsta herbergi með tilheyrandi múr- og parketskemmdum.  Það er þónokkuð síðan tókst að ganga frá viðgerðum í herberginu en sturtuklefinn hefur tekið lengri tíma.

 

Þar sem tryggingarnar vildu ekki taka á sig slit á gamalli fúgu höfum við verið að baksa við að gera þetta sjálf. Reyndar hefur karlinn minn gert mest af þessu. Ég hef verið meira í handlangi. Þar sem hann hefur verið heima svona rétt yfir blánóttina stærsta hluta sumarsins hafa framkvæmdir við sturtuklefann minn gengið hægt.

 

En nú er búið að flísaleggja veggina. Það er enn eftir að flísaleggja gólfið, fúga, setja upp blöndunartæki og lakka loftið. Ef við verðum rosalega dugleg getum við farið í sturtu eftir…..ja, svona viku kannski! J

 

Mikið ofboð hlakka ég til!!!


Ellin, fordómar og ég

Það vita allir að sjúkdómar eins og t.d. hátt kólesteról og hár blóðþrýstingur er bara fyrir gamalt fólk. Það er öllum ljóst. Hvernig stendur þá á því að ég sem er nýorðin 27 ára (fædd 1965) fæ þann úrskurð frá doktornum að ég sé með háþrýsting?? Ég, svona ung, spengileg og flott!!  Töffari

Svo bætti hann um betur (held að læknirinn sé nýorðinn 3ja!) og sagði mér að hreyfa mig, borða hollan saltlítinn mat og drekka mikið af vatni. Svo nú er bara að taka á honum stóra sínum og breyta daglegri hegðun og kippa þessu í lag.

Þetta með ræktina og mataræðið verður ekkert mál. En ég gæti þurft að taka til í kollinum á sjálfri mér með þetta hverjir fá og hverjir ekki hina ýmsu sjúkdóma!


Húsafriðun

Nú á að fara að rífa gömlu húsin við Laugaveg 4 og 6. Þá fer eins og venjulega af stað mikil umræða um sögulegt gildi, verndun og fleira í þeim dúr. Allt gott og gilt. Gömul hús geta verið yndisleg og gefið hlýlegt andrúmsloft og minnt skemmtilega á gamla tíma. En sumt í þessu skil ég ekki.......

Hvað kemur húsafriðunarnefnd við hvernig hús kemur í staðin fyrir það sem er rifið? Annað hvort er gamla húsið, sem stendur til að rífa, verðmætt sögulega séð eða ekki! Ef nýja húsið er ljótt verður þá gamla húsið skyndilega menningarverðmæti?

Ég skil ekki heldur af hverju ekki má á snyrtilegan hátt bæta gömul hús sem verið er að gera upp. Ég veit dæmi þess að þegar gamalt hús var gert upp af myndarbrag var bannað að setja í það tvöfalt gler!! Hvað á það nú að þýða?? Eins og það sé ekki öruggt að það hefði verið sett í húsið tvöfalt gler strax í upphafi ef það hefði bara verið til? Frekar voru húseigendur skikkaðir til að setja aftur einfalt gler í húsið með tilheyrandi kulda, slaga og rakaskemmdum!! Hvílík endemis heimska!!

Húsin við Laugaveg 4 og 6 hafa frá þeim degi sem þau voru byggð ekki verið annað en skrifli. Allir sem inn í þau hafa komið undanfarin ár vita það að fyrir utan að vera skrifli þá er fátt ef nokkuð inní þeim sem minnir á gamla tíma. Þess vegna finnst mér hið minnsta mál að rífa þau.

Það sem á að koma í staðinn er svo allt annað mál.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband