21.8.2007 | 12:52
Lífið og dauðinn
Hvað á maður að hugsa þegar ungur maður fellur frá? Hvað á maður að hugsa þegar ungur maður fellur fyrir eigin hendi?
Einhvern vegin veit maður ekkert hvernig maður á að vera. Sem betur fer get ég sagt að ungur maður sem lést í síðustu viku var ekki nákominn mér. Ég hef samt haft af honum að segja öðru hvoru í gegnum tíðina.
Mörg ár eru síðan ljóst var af orðspori hans að ef ekkert yrði að gert myndi hann lenda í vanda. Drengurinn sem sat hæglátur og kurteis í sófanum hjá mér og horfði á sjónvarpið þangað til pabbi hans kom að sækja hann var samt einhvern vegin svo allt önnur mynd af sama manni. Pabbinn var að koma að sækja hann eftir að hann var búinn að láta sig hverfa í einhvern dágóðan tíma.
Af því að maður er foreldri varð maður feginn þegar sambandið slitnaði milli barnanna. Líkurnar minnkuðu á slæmum félagsskap. En nú er drengurinn farinn fyrir fullt og allt.
Börnin þekktu ljúfa skemmtilega strákinn. Svo var hin hliðin sem var óalandi og óferjandi. Hvað gerðist? Hvað er hægt að gera? Líklega eru ekki til nein endanleg svör við svona spurningum.
Eftir sitja aðstandendur, fjölskyldan og gamlir vinir og kunningjar. Úr því sem komið er er ekkert hægt að gera nema að reyna að sinna því fólki. En hvernig er hægt að koma í veg fyrir svona atburðarás?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.8.2007 | 18:02
Komin heim
Nú er ég búin að fara í viku rúnt um landið okkar. Ég get bara ekki hætt að dásama það hvað við eigum stórfenglegt og fallegt land!
Við fórum á hverjum degi eitthvað sem við höfðum aldrei farið áður eða a.m.k. einhverjir tugir ára síðan síðast. Ég á bara ekki til nógu stór orð til að dásama upplifunina. Til að kóróna allt saman fengum við að auki "Bónus veður" a la Silla, þannig að það rigndi ekkert á okkur. Telst ekki með þegar skellur á ein skúr um miðja nótt.
Einar: Ég horfði haukfránum augum á alla löggubíla á austurlandi meðan við vorum þar í von um að sjá glitta í ofurlögguna. Líklega hefði ég orðið að fremja lögbrot til þess að fá viðkomandi löggubíl til að stoppa ef ég hefði þóst sjá þig þar innanborðs en það kom ekki til þess. Kannski tekst betur til næst.
Við fórum mest um suður- og austurland og að Mývatni. Kannski set ég inn einhvern vott af ferðasögu síðar.
En mikið er líka alltaf gott að koma heim......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.7.2007 | 17:00
Ég og rigningin
Ég hef iðullega haldið því fram, og hef styrkst í trúnni síðustu daga, að um leið og ég fari í frí byrji að rigna.
Vissulega hefur staðan stundum verið sú að það hefur rignt hvort sem ég hef verið í fríi eða ekki. Á móti kemur að ég man bara eftir einu skipti sem ég hef verið í sumarfríi og ekki hefur rignt. Það var sumarið 2004 þegar hvílík hitabylgja lagðist yfir landið að öðru eins hafði fólk af minni kynslóð varla kynnst. Ég vil ekki fullyrða að fólk eldra en ég hafi ekki kynnst betra veðri því í frásögnum þeirra virðist hafa verið endalaus blíða sumarlangt alla þeirra æsku.
Eins og þeir sem lesa þetta geta séð á veðrinu er ég komin í sumarfrí. Rigningaveðrið er skollið á og sér ekki fyrir endann á því. Rok fylgir með sem er öllu verra. Ég ætla samt í ferðalag! Ég verð kannski ekki eins mikið á hálendinu og ætlað var og reyni að forðast mesta rokið en segi bara eins og karlinn forðum: Út vil ek!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.7.2007 | 21:19
Fallegt land
Einu sinni fannst mér ekkert landslag fallegt nema það væru tré í því. Ég er alveg búin að jafna mig á því. Nú finnast mér lyngi vaxnar heiðar og stórbrotið landslag hálendisins jafnvel enn fallegra. Síðustu tvær helgar höfum við karlinn minn farið í prufuútilegur í nýja pallhýsinu. Alger dýrð. Hvílík forréttindi að geta komið sér fyrir einhvers staðar úti í móa langt frá öllu og öllum og geta horft úr rúmstæðinu á náttúruna allt í kring. Hér eru myndir af íslenskri dýrð:
Þessi er tekin á leiðinni um Kaldadal við Geitá. Ekki beinlínis gróðursælt en geysilega fallegt!
Þarf að fara þarna aftur einhvern tíma fljótlega og gefa mér betri tíma til að skoða mig um.
Þessi er hins vegar tekin rétt hjá Hítarvatni rétt undir miðnættið. Mun meiri gróður þar, allt á kafi í mosa yfir úfnu hrauninu og víða í nágrenninu kjarr og huggulegheit. Hvort tveggja ómótstæðilegt.
Bráðlega ætlum við að fara af stað og skoða landið í viku, 10 daga. Get ekki beðið!
Ferðalög | Breytt 27.7.2007 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.7.2007 | 09:20
Góð útilega
Nú styttist í hina alræmdu verslunarmannahelgi. Ég heyrði í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun talað við forvarnarfulltrúa hjá einhverju tryggingafélagi um viðbrögð foreldra gagnvart unglingunum sínum um þessa helgi. Þá rifjaðist upp hjá mér nokkura ára snilldar útilega.
Þannig var að við fjölskyldan fórum í útilegu. Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir í Kjarnaskógi kom okkur á óvart að rekast á tvær unglingsdætur Sigga (mannsins míns). Þær voru búnar að koma sér fyrir annars staðar á svæðinu með vinkonum sínum sér í tjaldi. Mamma þeirra var enn annars staðar á svæðinu. Þessi helgi var alveg snilld! Stelpurnar voru svo sælar og ánægðar með að fá að vera "einar" að þeim fannst allt frábært! Hins vegar er ég viss um að þær eyddu miklu meiri tíma með foreldrum sínum en ef þær hefðu verið í tjaldi með þeim. Þær voru í stöðugum heimsóknum til okkar: "Viljiði koma í göngutúr?", "Viljiði koma inná Akureyri?", "Getum við fengið kakó og brauð með osti?"
Þess vegna er ég handviss um að það er fín lausn komandi helgi að foreldrar og unglingar fari á sama staðinn í útilegu en foreldrarnir gefi unglingunum hæfilegt svigrúm (hið landsfræga tilfinningalega svigrúm!). Unglingarnir fá smá tilfinningu fyrir sjálfstæði og foreldrarnir losna við fýluköst af því það "fá allir aðrir að fara einir". Mæli eindregið með þessari lausn.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.7.2007 | 08:49
Gleymdi einu....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.7.2007 | 08:42
Magga klukkaði mig ....
...og kann ég henni litlar þakkir fyrir. En ég geri alltaf eins og mér er sagt svo hér kemur listinn:
1. Ég geri alltaf eins og mér er sagt.
2. Ég vil frekar ferðast innanlands en utan á sumrin.
3. Ég verð að hafa tilveruna sæmilega skipulagða.
4. Ég fer aldrei á djammið um helgar.
5. Ég er góð í tungumálum.
6. Mér finnst svakalega gaman að kafa.
7. Ég er menntaður einkaþjálfari.
8. Mér finnst skrýtið að eiga fullorðin börn.
Svona er listinn þá. En af því mér þykir fátt eins leiðinlegt og keðjur, þá ætla ég ekki að klukka neinn. Allavega ekki í bili.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2007 | 13:32
Er alltaf svona lítið að marka fréttirnar?
Við hjónin skruppum út úr bænum um helgina. Á heimleið á sunnudag komum við að gatnamótunum við Þingvallaleið þar sem nýlega hafði orðið árekstur. Lögreglan kom fljótlega og tók að sér að stjórna umferð. Ég heyrði kvöldfréttir og las í blöðunum fréttir af þessu slysi. Þá var slysið einhvern vegin mikið stærra og meira en það sem við sáum. Við sáum nokkra svolítið klessta bíla. Engan sáum við slasaðan a.m.k. ekki svo að hann þyrfti að bíða eftir aðstoð í bílnum. Enda kom það fram í fréttum að slys hefðu ekki verið mikil á fólki, sem betur fer. Samt gátu fréttastofurnar látið þetta hljóma sem einhvert stórslys. Sem það var alls ekki. Það eina sem var stórt við þetta var halarófan sem myndaðist af ferðafólki sem var að reyna að komast heim til sín.
Í gærkvöldi brotlenti svo TF-SIF illu heilli í sjónum rétt við Straum. Fréttaflutningurinn af þessu var ótrúlegur. Frameftir kvöldi voru sífellt að koma innskot með fréttum af slysstað. Gallinn var bara sá að það var ekkert að frétta! Þyrlan lenti í sjónum og mennirnir björguðust. Þyrlan maraði í kafi og beið þess að vera hirt upp. Annað var ekki um þetta að segja. Engu að síður var sífellt verið að klippa inní þætti beinar útsendingar frá einhverjum ræfils fréttamönnum tafsandi og stamandi um hvað væri að gerast þegar ekkert var að gerast! Ég ók þarna framhjá á leið minni til Reykjavíkur og svo aftur á heimleið u.þ.b. klukkustund síðar. Á þeim tíma gerðist ekki nokkur skapaður hlutur. Það var s.s. allan tímann einn bátur á sjónum og nokkrar gúmítuðrur. Annað eins hefur nú sést á Íslandi fyrr og ekki þótt fréttnæmt. Aftur var reynt að gera einhver ósköp úr fréttinni. Slæmt að missa þyrluna en fréttin var stutt í raun og veru.
Oftast er maður ekkert tengdur því sem er í fréttum og verður að taka það trúanlegt sem sagt er frá. Eftir að hafa haft smá hugmynd um hvað raunverulega gerðist í þessum tveimur litlu fréttum vaknar hjá mér þessi spurning: Er alltaf svona lítið að marka fréttirnar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.7.2007 | 13:19
Mig langar í skóla!
Mikið svakalega langar mig í einkaþjálfaranám hjá Akademíunni í haust! Var að lesa um námið og sýnist það vera alger snilld!! Nú verð ég viðþolslaus yfir að geta ekki farið.
Námið virðist skemmtilega upp byggt og leggja áherslu á þau atriði sem mig hefur fundist vanta þekkingu á, meiðslaforvarnir og uppbyggingu eftir meiðsli. Svo verður líka farið vel í greiningu á stoðkerfi og skoðun á líkamsstöðu og hreyfingu. Svo verður manni kennt að hjálpa öðrum (og sjálfum sér) að hreyfa sig þannig að mest gagn sé að. Svo verður líka farið í snerpuþjálfun og fleira og fleira skemmtilegt. Síðan er með allt um námið.
Námið tekur heilan vetur og nemendur eiga velja sér ritgerðarefni strax í upphafi. Ég var komin með alveg hrúgu af ritgerðarefnum sem ég gæti hugsað mér:
- Tengsl lifnaðarhátta við andlega og líkamlega vellíðan
- Tengsl mataræðis og hreyfingar
- Röng líkamsbeyting v.s. meiðsli og endurbati
- Hreyfing sem hluti bata eftir veikindi
- Er ein tegund hreyfingar/æfinga betri en önnur?
Svona gæti ég haldið lengi áfram. Þetta gæti ekki verið neitt annað en gaman! Jú, líka ferlega erfitt.
Svo kemur það leiðinlega; Ég á ekki ½ milljón. Ég gæti mögulega forgangsraðað uppá nýtt og breytt vinnutímanum svo ég gæti mætt og klárað mig af náminu. Þegar náminu lýkur myndi ég samt sennilega ekki fara í fulla vinnu við að þjálfa. Þannig að ég sé ekki í fljótu bragði að ég geti leyft mér að eyða 495.000 krónum í námið Fúlt!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.7.2007 | 10:11
Já eða nei?
Ég er búin að lesa í blöðunum undanfarið frásagnir af tveimur dómum vegna kynferðisbrota. Í öðrum dómnum var ákærði sýknaður en í hinum dæmdur. Skv. því sem kemur fram í fréttum sagði hvorug konan nei og reyndar ekki heldur já.
Þetta leiðir mig til umhugsunar um það sem ég hef verið að segja við börnin mín undanfarin ár; Ef þið ætlið að stunda kynlíf þá verðið þið að vera nógu ákveðin til að segja já eða nei eftir því sem þið viljið sjálf. Þegar strákurinn á í hlut hefur það verið eitthvað í áttina við; Ef hún segir ekki skýrt og greinilega Já, takk, haltu þig þá í góðri fjarlægð!
Sú gamla mýta að konur vilji ekki að fyrra bragði stunda kynlíf viðheldur þeirri hegðan að karlar þurfi að koma henni til. Það getur verið stórhættulegt fyrir unga menn. Getur konan ekki séð eftir öllu saman og sagt ég fraus?
Það er hins vegar vel þekkt að þegar árás á sér stað að fórnarlambið frjósi og bíði hreinlega eftir að viðbjóðurinn gangi yfir.
Þess vegna segi ég við alla sem heyra vilja: Ef þú eða félagi þinn er ekki nógu öruggur með sig og kynferðislegar tilfinningar sínar til að geta sagt upphátt já ég vil þá á undir engum kringumstæðum að halda lengra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)