24.7.2008 | 21:31
Handabönd
Hafiði tekið eftir því hvað það er gríðarlegur munur á hvernig kynin nota handabandið?
Strax eftirr grunnskóla eru strákar farnir að taka í spaðann hver á öðrum þegar þeir hittast á förnum vegi. Stelpur sem hittast segja almennt bara nett "hæ" svona yfir hópinn eða í áttina að þeim sem þær hitta. Ég held að við stelpurnar verðum að breyta þessu.
Í mínum huga er ekki spurning um að tengsl milli fólks sem tekur í höndina hvert á öðru verða mun sterkari heldur en þegar það kastar einhverri óformlegri kveðju eitthvað út í loftið. Ég er líka nærri viss um að þetta með handabandið er stór hluti, að minnsta kosti byrjunin, á því sterka tengslaneti sem karlar eru iðulega svo miklu duglegri við að koma sér upp en konur. Ég held að ef konur tækju meðvitaða ákvörðun um að taka oftar í höndina á viðmælendum sínum þá myndu þær fljótt finna fyrir breyttu viðmóti fólksins í kringum sig og jafnvel léttari róðri við að komast áfram í lífinu með fleiri og nánari tengla í kringum sig, svipað og karlar iðullega hafa.
Ég hef verið að reyna að bæta mig í þessu. Það er hins vegar ótrúlega erfitt. Einhverra hluta vegna er maður oftar en ekki ragur við að rétta út hendina að fyrra bragði. Af hverju veit ég ekki - ég hef enga ástæðu til að ætla að einhver myndi ekki vilja taka í spaðann á mér!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.7.2008 | 13:57
Viðbætur
Mér datt í hug að bæta örlítið við ferðasöguna góðu.
Inga benti mér réttilega á að hún var ekki með í upphafi ferðar. Hún var búin að vera í sveit hjá afa sínum í Snjóholti og við sóttum hana þangað. Hún missti s.s. af "skemmtuninni" þangað til.
Einnig rifjaðist upp fyrir mér að bíllinn okkar góði drakk verulega vel af bensíni. Svo verulega að stór hluti ferðarinnar fólst í að lesa á kort og reikna út fjarlægðir milli bensínstöðva til að tryggja að verða ekki bensínlaus einhvers staðar úti í óbyggðum. Það var t.d. smá áhættuatriði að komast frá Höfn til Egilsstaða. Ég man satt að segja ekki hvort við fórum inn á Djúpavog til að taka bensín en ég held þó ekki.
Sem betur fer kostaði bensínlítrinn ekkert miðað við það sem hann kostar núna en nóg kostaði þetta samt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.7.2008 | 17:49
Myndir
Þessa tók ég af mæðginunum í dag eftir að Hanna var búin að fá pönnuköku og litli snáðinn búinn að fá smá sopa.
Kemur í ljós á morgun hvort hún fær að fara heim þá eða þarf að vera lengur.
Þættinum hefur borist bréf...... Ég fékk sendar myndir úr ferðinni sem ég skrifaði um fyrir nokkrum dögum. Læt þær fylgja hér með til áhersluauka:
Morguninn í Freysnesi. Grenjandi rigning og allt orðið blautt. Kerran sögufræga sést þarna. Stöðuvatnið komið í kerrubotninn!
Verið að baksa við að pakka tjaldinu. Frekar ógeðslegt........
Hérna erum við stopp einhvers staðar í miðjum hlíðum á Hellisheiði eystri. Þrátt fyrir að heiðin sé fræg fyrir glæsilegt útsýni þá fór nú ekki mikið fyrir því í þetta skiptið. En þarna sést vel halarófan sem fór um landið, við í L-300 með kerruna og Kristín og Gummi á eftir okkur. Kom sér vel að hafa góða ferðafélaga oftar en einu sinni.... og tvisvar, og þri.....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.7.2008 | 22:12
Fyrstu myndir
Jæja, nú erum við búin að fara og hitta nýjasta fjölskyldumeðliminn. Hann er ósköp sætur og fínn, ekkert krumpaður og bara fallegur! Hér koma nokkrar myndir:
Hér er prinsinn sjálfur í fanginu á mömmu.
Hérna sést mamman líka. Soldið mikið þreytt en sæl með strákinn sinn.
Svo er það nýbakaði afinn með dóttursoninn í fyrsta sinn í fanginu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.7.2008 | 18:06
Hann er kominn!
Strákurinn er kominn!
Strákurinn er stór og stæðilegur: 4500 gr. (18 merkur), 58 cm. fæddist kl. 17:40 og öllum heilsast vel.
Við eigum eftir að fara að sjá guttann. Set inn mynd um leið og ég get.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.7.2008 | 14:43
Allt að gerast núna!!
Hanna er komin uppá fæðingardeild og komin vel af stað!
Erfðaprinsinn kemur væntanlega í heiminn síðar í dag!! Meira um leið og fréttir berast!!
Hér er allt að springa úr spenningi!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.7.2008 | 12:21
Kreppa og kreppuáhrif
Ég hef eins og allir orðið vör við krepputal í fjölmiðlum. Ég hef líka orðið vör við það að fólk talar sín á milli eins og þetta krepputal sé bara eitthvað fjölmiðlafár. Eitthvað sem sé tilbúið og ekki raunverulegt. Það er langt frá því að vera rétt og kreppan er farin að snerta marga.
Ég er í starfsgrein sem verður einna fyrst vör við samdrátt. Eins og hendi væri veifað hvarf snemma vors stærstur hluti þeirra verkefna sem voru fyrirliggjandi. Bankar hættu að lána og þar með hættu húsbyggjendur að byrja á nýbyggingum. Bæði einstaklingar og verktakar. Þeir sem litu í kringum sig í vor gátu séð vörubíla, trailera, gröfur og hvers kyns stórvirk vinnutæki standa verkefnalaus um allan bæ. Það var ekki af því að viðkomandi nenntu ekki í vinnu þeir höfðu enga vinnu.
Þetta hefur aðeins lagast en ekki mikið. Ekki sést eins mikið af kyrrstæðum vörubílum en það er oftar en ekki af því að bílstjórarnir eru komnir víða um land í hvaða verkefni sem er til að bjarga því sem bjargað verður. Hversu margir Höfuðborgarbúar, t.d. skrifstofufólk, myndu sætta sig við það fyrirvaralaust að fara langdvölum út á land að vinna bara til að halda áfram að fá launaseðilinn sinn?
Nú þegar eru samt margir hættir eða orðnir gjaldþrota. Það á ekki bara við um þá sem reka tækin heldur líka tengda starfsemi. Víða um bæinn eru matstofur sem elda n.k. heimilismat í hádeginu og byggja sinn rekstur á verkamönnum. Þar sem í fyrrasumar var fullt útúr dyrum í hverju hádegi eru salir núna hálftómir dag eftir dag og viku eftir viku. Ég veit um a.m.k. eina svona matstofu sem er farin á hausinn. Bak við svona gjaldþrot eru einstaklingar sem eru að missa allt sitt þ.m.t. húsið ofan af sér og börnum sínum.
Í fyrra var unnið á hverju kvöldi til 8 eða 9 og alla laugardaga. Það er eiginlega nauðsynlegt því sumarið er hábjargræðistíminn þ.e. veturnir eru oft þannig að þá er ekki hægt að vinna. Ég held það hafi verið unnið tvo laugardaga í sumar og venjulegur vinnudagur er til kl. 6. Námurnar eru ekki einu sinni hafðar opnar fram á kvöld eins og tíðkast hefur á sumrin árum saman. Það hefur engan tilgang að lengja opnunartímann því það kemur enginn að versla við þá. Við höfum samt verið heppin, við höfum haft vinnu - jaaahh, svona oftast.
Allir vita að olían hefur hækkað. Vitiði að díselolía hefur hækkað um 57% á einu ári? En vitiði að á þessu sama ári hefur vélaolía (lituð olía) hækkað um 87%? Áttatíuogsjö%!!!! Það er nærri tvöföldun á verði frá einu sumri til þess næsta. Ekki hjálpar þessar hækkanir í rekstri sem þegar er erfiður.
Kreppan er raunveruleg. Kreppan er ekki eitthvað sem er bara í fjölmiðlum. Kreppan er eitthvað fyrirbæri sem er að setja afkomu hundruða ef ekki þúsunda manna um landið í mikla hættu. Hún er nú þegar búin að setja margar fjölskyldur í margra, margra ára fjárhagsvandræði.
Hverjum er um að kenna skiptir eiginlega engu máli. Það eina sem skiptir raunverulegu máli er hvað er hægt að gera til að bjarga því sem bjargað verður!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.7.2008 | 18:13
Ferðasaga af verri gerðinni
Ég hef mjög gaman af ferðalögum innanlands. Eiginlega mun meira en í útlöndum. En þannig hefur það ekki alltaf verið. Ég var lengi að baksa við að fara í tjaldútilegur af því það var yfirleitt mjög gaman á daginn og kvöldin. En þar sem ég er mesta kuldakreista eyddi ég nóttunum nánast án undantekninga skjálfandi úr kulda og var svo fram undir hádegi að ná í mig hita og að liðka á mér pinnstíft bakið. Eitt ferðalag varð svo til þess að ég ákvað að ég væri hætt þessu brölti algerlega STEINHÆTT!
Formáli:Við Siggi eigum 5 börn og ákváðum að fara eitt sumar með þau í útilegu. Til ferðarinnar var keyptur Mitsubishi L-300 bíll, svona mini-rúta. Útilegum fylgir heilmikill farangur og því var fengin lítil kerra að láni og í henni var allur farangur, allt frá mat og fatnaði upp í svepnpoka og tjöld (við þurftum 2 tjöld!), því þegar fjölskyldan var komin í bílinn var hann orðinn fullur. Það var ákveðið að fara hringinn um landið og Kristín mágkona mín, Gummi maðurinn hennar og Inga dóttir þeirra ákváðu að koma með okkur. Til að auðvelda samskipti milli bíla vorum við með tvær labb-rabb stöðvar. Svo var haldið af stað.....
Dagur 1.Við ákváðum að fara suður fyrir land en eyða ekki miklu púðri á suðurlandi (spáði rigningu) heldur stefna austur á firði þar sem tengdapabbi býr. Til fyrstu nætur var stefnt á Freysnes austan við Skaftafell. Miðað við spár áttum við þá að sleppa undan rigningunni. Við vorum í fremri bílnum.
Rétt austan við Vík í Mýrdal var kallað í okkur. Kerran var farin að haga sér eitthvað skringilega. Mikið rétt það var sprungið á kerrunni. Það sem verra var, dekkið var komið gersamlega í tætlur og ekkert varadekk var meðferðis. Leit að varadekki í bænum hafði ekki borið árangur af því þetta var einhver óalgeng dekkjastærð. Nú voru góð ráð dýr. Dekkinu var kippt undan og karlarnir fóru til baka til Víkur að athuga með dekkjaverkstæði. Þarna sátum við kerlurnar útí vegkanti á þjóðvegi 1 með sex börn og biðum.... og biðum og biðum og biðum. Loks komu karlarnir aftur og höfðu merkilegt nokk fengið keypt nýtt dekk. Það hafði fundist einhvers staðar uppi undir hanabjálka 1 stk. notað dekk í réttri stærð. Nú var loks hægt að skipta um dekk og halda áfram í Freysnes.
Þangað komum við síðla kvölds í ágætis sumarstillum , skelltum upp tjöldum, hituðum pylsur í mannskapinn og fórum að sofa.
Dagur 2.Þegar við vöknuðum fyrir 8 um morguninn var komið gat á himininn. Úrhellið var meira en ég hef nokkurn tíma lent í, hérlendis eða erlendis. Í snarhasti var krökkunum komið í bílinn og svo fórum við að taka saman. Ofan á kerrunni var mjög gott segl til að loka henni. Ofan á því var komið hið myndarlegasta stöðuvatn. Um leið og eitt hornið var losað losnaði annað horn líka og stöðuvatnið flæddi ofan í kerruna á allan okkar farangur! Það þýddi ekkert að tala um það, farangrinum var ruslað í kerruna og brennt af stað austur á bóginn.
Strax á fyrsta fjallvegi varð ljóst að það var eitthvað bogið við bílinn. Í hvert skipti sem þurfti að fara bratta brekku hitnaði bíllinn óeðlilega. Skuldinni var skellt á litla vél í pakkfullum bíl sem að auki dró þunga kerru. Nokkrum sinnum var stoppað til að kæla bílinn þannig að ferðin gekk ekki neitt sérlega hratt fyrir sig.
Síðla dags komum við til Egilsstaða þar sem Pétur tengdapabbi minn býr. Þegar þetta var bjó hann á bænum Snjóholti rétt utan við bæinn. Þegar beygt er útaf þjóðveginum er stutt heimreið með svolítilli brekku niður að íbúðarhúsinu. Þessi brekka kom að góðum notum þarna því í miðri brekku drapst á bílnum en við gátum látið renna heim í hlað.
Þar var okkur öllum tekið með opnum örmum eins og ævinlega. Eftir að allir höfðu fengið eitthvað gott í gogginn var farið að huga að svefnstað fyrir hópinn. Flest sem í kerrunni var, var orðið blautt eftir vistina í Freysnesi og stöðuvatnið sem flæddi ofan í hana. Við urðum því afskaplega fegin þegar okkur var boðin gistin inni í húsi. Krakkarnir voru nú ekki allir sáttir svo það endaði með því að einhver þeirra sváfu úti í tjaldi.
Dagur 3.Þriðji dagurinn rann upp í sól, hita og strekkings vindi. Sem var mjög gott því það var fyrirtaks veður til að þurka blauta svefnpoka, teppi, tjald, peysur, buxur og hvað annað sem var blautt í farangrinum. Það tók reyndar nokkra daga að ná að þurka allt klabbið en það kom í ljós að við höfðum nógan tíma.
Bíllinn var nefnilega úrbræddur! Við vorum nýbúin að kaupa bílinn af umboðinu, reyndar notaðan, svo við snerum okkur til þeirra og vorum ekkert hress. Það varð úr að þeir útveguðu varahlutina og komu þeim í flug en við þurftum að gera við bílinn. Úr þessu varð að næstu dögum eyddu karlarnir inni í skemmu í bílaviðgerðum. Svo þurfti að redda svona verkfæri og hinsegin verkfæri, komast inn á verkstæði í einhverja græju og svo framvegis og svo framvegis. Ekkert gaman og hreint ekkert grín!
Ég man ekki hvað þetta tók marga daga en það passaði nokkurn vegin að þegar búið var að þurka allan farangurinn og pakka honum aftur, þá var bíllinn tilbúinn. Þó við værum búin að vera í góðu yfirlæti í Snjóholti í ekta austurlenskri sumarblíðu var ákveðið að byrja uppá nýtt á ferðalaginu.
Dagur 1 í annað sinn.Við fórum af stað frá Egilsstöðum einhvern tíma uppúr hádegi þegar var búið að versla meira nesti og kveðja fólkið.
Þegar ekið var af stað í norðurátt var krökkunum lofað að í næsta bæ myndu þau fá ís úr vél. Mikil mistök það. Við fórum á Neskaupstað, Vopnafjörð, Bakkafjörð, Þórshöfn og hvergi var hægt að fá ís úr vél! Sumir buðu uppá frostpinna en það var sko ekki það sem krakkarnir vildu! Þeim var lofað ís úr vél og ekkert annað myndi duga. Þannig fór að ís í vél fékkst ekki fyrr en á Húsavík en það var sko ekki þennan dag og það voru ekki kátir krakkar aftur í bílnum.
Þegar við vorum á leið upp á Hellisheiði eystri vaknaði sterkur grunur um að það sem hrjáð hafði bílinn á leiðinni til Egilsstaða væri ekki afgreitt mál. Í svarta þoku urðum við að stoppa í miðri brekku og bíða þangað til bíllinn kólnaði. Af því það var svo mikil þoka var ekki viðlit að hleypa neinum útúr bílnum að hreyfa sig. Maður þakkaði bara fyrir að enginn keyrði á bílana þarna í vegkantinum. Það að sitja kyrr í bílnum varð ekki til að hressa krakkana í ísleysinu.
En við komumst til Vopnafjarðar og Borgarfjarðar-eystri og þar borðuðum við nesti og skoðuðum steinasafnið. Þar var sól og blíða og mannskapurinn gat aðeins hreyft sig svo andinn hresstist hjá öllum.
Svo var stefnan sett á Húsavík. Einhvers staðar uppi á heiði á leiðinni var ákveðið að stoppa og rétta aðeins úr sér. Þar sem við sátum einhvers staðar úti í móa (gæti hafa verið á Brekknaheiði) fóru karlarnir að vappa í kringum bílana. Þá kom í ljós að beislið fyrir kerruna var að rifna af bílnum! Þar sem við vorum ekkert mjög langt frá Þórshöfn var ákveðið að reyna að komast þangað og athuga hvort ekki fengist gert við þetta þar. Með því að aka holóttan og mjóan malarveginn mjög varlega komumst við klakklaust til Þórshafnar. Þá kom í ljós að þrátt fyrir að við værum túristar í fríi og vikudagar skiptu okkur ekki máli þá skipta þeir vinnandi fólk máli. Þennan dag var einmitt föstudagur og nú var klukkan rúmlega síðdegiskaffi. Eftir nokkra leit var okkur bent á að tala við nokkra pólverja sem voru að sjóða stálgrindahús sem var í byggingu. Þeir voru ekkert nema hjálpsemin og gerðu við beislið á bílnum. Ég man enn eftir vorkunnseminni sem ég sá á svipnum á þeim þegar þeir sáu okkur hjónin í þessari dós með 6 krakka því þá vorum við með Ingu með okkur líka. Ég veit ekki alveg hvað hann hélt um okkur en það er ljóst að hann vorkenndi okkur mikið!
Við stöldruðum ekki við lengur en við þurftum og þeystum af stað úr bænum strax og pólverjarnir voru búnir með sitt. Þegar við vorum komin að afleggjaranum að Raufarhöfn voru Kristín og Gummi aðeins á eftir okkur og þá var kallað í okkur í labb-rabbinu: Getur verið að það sé eitthvað að kerrunni, það eru eitthvað svo skrýtin för á veginum? Nú var snarstoppað og mikið rétt.... það var hvellsprungið á hinu dekkinu á kerrunni!!
Enn ein ráðstefnan var sett á fót og ég ákvað að það hlyti að vera dekkjaverkstæði á Raufarhöfn, það væri a.m.k. styttra þangað en að snúa til baka til Þórshafnar. Það var símaskrá í bílnum og ég fann Raufarhöfn í henni. Þar fann ég ekkert dekkjaverkstæði svo ég hringdi í sjoppuna á staðnum. Stelpuskjátan sem svaraði í símann vissi áreiðanlega ekki einu sinni hvað dekkjaverkstæði var svo ég gafst upp á samræðum við hana og samþykkti að snúa við og fara aftur til Þórshafnar. Dekkinu var kippt undan og nú var varkárni látin lönd og leið, kerran skilin eftir og brunað á báðum bílum til baka til Þórshafnar.
Þegar þangað kom var klukkan öðru hvoru megin við 6 á föstudegi. Og ekki bara það það var ball í bænum um kvöldið. Það var nákvæmlega enginn í vinnunni! Eftir mikla leit var hægt að þræla einum strák sem var enn á dekkjaverkstæðinu en kominn með opinn bjórinn í hendina til að fara að leita að dekki handa okkur. Annað kraftaverkið gerðist og það fannst dekk undir kerruna. Strákurinn setti nýja dekkið á felguna og við gátum lagt enn eina ferðina af stað. Ég vona innilega að Þórshafnarbúar hafi skemmt sér vel á ballinu um kvöldið. Þeir áttu það sannarlega skilið eftir að vera búnir að bjarga okkur tvisvar sinnum þann daginn.
Þegar við komum aftur að kerrunni var hún enn á sínum stað. Dekkinu var skellt undir og nú var brunað áfram. Nú var ekki lengur verið neitt að skoða útsýnið eða að dóla sér. Það var komið framyfir kvöldmat, við vorum með fullan bíl af pirruðum börnum sem höfðu ekki fengið ís þrátt fyrir loforð, svo nú skyldi drifið sig í svefnstað. Þegar þarna var komið var Hanna farin að kvarta undan spöngunum á tönnunum. Hún var með járnbrautarteina og þeir voru farnir að meiða hana. Henni var nánast sagt að svona væri þetta bara og áfram var brunað til Húsavíkur.
Dagur 2.Þegar fólk var risið úr rekkju daginn eftir var Hanna enn að kvarta yfir teinunum svo nú var farið að skoða málið betur. Mikið rétt öðrum megin stóðu tveir vírar beint útúr tönnunum á henni og stungust í kinnina á henni. Hvað gerir maður í tannréttingum á laugardegi á Húsavík?? Eftir ótal fyrirspurnir, símtöl á sjúkrahúsi og heilsugæslu og öllu sem manni gat dottið í hug, höfðum við ekki komist að öðru en því að læknirinn sem var á vakt var uppi á heiði í veiði! Það var séns að hann kæmi í bæinn einhvern tíma seinnipartinn.... Jahá!! Nú var mér hins vegar nóg boðið. Svona gat þetta ekki gengið lengur. Ég fór og fann einhvers staðar flísatöng, lét stelpuna sitja í opnum bíldyrunum á einhverju bílastæði, sagði henni að opna munninn og svo fór ég upp í hana með flísatöngina og beygði og beyglaði vírana þannig að þeir sneru inn á milli tannanna á henni en ekki út í kinn. Það dugði til að henni hætti að vera illt og kvartaði ekki meira undan spöngunum það sem eftir var ferðar.
Eftir þetta vorum við eiginlega búin að fá nóg í bili af Húsavík. Reyndar reddaði heilmiklu að það var einmitt þar sem hinn langþráði ís fékkst. En nú var ákveðið að halda til Akureyrar. Það getur vel verið að við höfum stoppað einhvers staðar á leiðinni en ég man ekki eftir því.
Þegar við komum til Akureyrar tók ekki gott við. Þetta var seinnipartinn á laugardegi og hvert einasta boðlega tjaldstæði í bænum var upptekið. Það endaði með því að við tjölduðum á þeim stæðum sem voru í boði, uppi í brekku, hallandi í hálfgerðu þýfi. Þar að auki var rigningarsuddi og megn peningalykt sveif yfir bænum.
Það var þarna sem mín brann yfir. Það voru svosem engin læti en ég tilkynnti mínum manni að ég væri hætt! Ég vildi komast heim til mín ekki seinna en strax! Reyndar samþykkti ég að það væri orðið allt of framorðið til að fara heim strax þannig að heimferð var frestað til morguns.
Dagur 3.Um leið og ég vaknaði byrjaði ég að undirbúa heimför. Ég var enn ákveðnari en kvöldið áður að ég væri hætt, farin, búin, bless ég var ekki í þessari útilegu lengur!
Ekki veit ég hvað olli því að Kristín og Gummi ákváðu að fara líka heim. Kannski voru þau líka búin að fá nóg af þessari útilegu eða þau voru bara svona kurteis að þau ákváðu að koma með okkur heim. Þau hafa líklega ekki talið óhætt að hleypa okkur einum alla þessa leið án þeirra.
En það var þennan dag sem þau undur og stórmerki gerðust að við komumst klakklaust og án nokkurrar einustu bilunar alla leið á leiðarenda. Undir kvöld komumst við heim og ég held ég segi satt að ég hafi aldrei verið eins fegin að komast heim til mín.
Eftirmáli:Einni eða tveimur vikum síðar þegar við vorum að skutla stelpunum heim til sín til Grindavíkur bræddi bíllinn aftur úr sér við Bláa lónið. Eftir enn fleiri tugi þúsunda í viðgerðir og einhverjar vikur komst hann aftur í gagnið. Hann var svo seldur fljótlega. Ég hef heitið því að ég mun aldrei aftur eignast svona bíl.
Núna er ég aftur farin að ferðast en ekki í tjaldi. Tjaldvagn eða eitthvað þeim mun betra er það eina sem dugar undir prinsessu eins og mig!
Það skal tekið fram að ég hef engu bætt við, ekkert ýkt eða skreytt söguna. Þetta var held ég hroðalegasta útilega sem sögur fara af en hún átti sér stað fyrir mörgum árum þannig að mögulega muna ferðafélagarnir einhverja hluta ferðarinnar öðruvísi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.7.2008 | 09:55
Náttúran og við
Það er ýmislegt á seyði tengt náttúrunni. Nýlega voru haldnir tónleikar undir yfirskrift náttúrunnar. Fjöldi fólks mætti í blíðri veðurnáttúru í fallegri Laugardalsnáttúru og hlustaði á nokkra stærstu poppara þjóðarinnar. Minni sögum fer af hversu vel gekk að koma boðskapnum á framfæri. Ekkert hef ég frétt af hversu vel gekk að safna frjálsum framlögum til kynningar náttúrunni. Hins vegar hef ég frétt að borgarstarfsmenn hafi haft í nógu að snúast við að þrífa hina fögru náttúru. Hvað segir það um náttúrulegar þenkingar tónleikagesta?
Annað náttúruvænt sem líka hefur verið í fréttum varðar Kerið í Grímsnesi. Þar hafa eigendur lokað á heimsóknir langferðabifreiða til að minnka ágang og náttúruskemmdir. Þeir sem hafa haft aur fyrir að aka með túrista þangað eru eitthvað sárir og svekktir. Sumir fá hland fyrir hjartað þegar rætt er um að takmarka aðgengi eða rukka aðgangseyri að náttúruperlum. Þetta sama fólk fer til útlanda og borgar þegjandi og hljóðalaust fyrir að ganga í löngum halarófum um hella og hvað annað sem fyrir augu ber. Því mega íslendingar ekki rukka fyrir aðgang að náttúruperlum eins og aðrar þjóðir? Þetta með Kerið og reyndar marga fleiri staði á landinu er algert skólabókadæmi um hvað gríðarlegur ágangur túrista er langt kominn með að skemma það sem fagurt er og sérstakt. Hvers vegna ekki að takmarka aðgengi, geta þannig notið náttúrunnar eilítið lengur, rukka einhvern aðgangseyri þar sem það á við og nota féð til viðhalds og uppbyggingar á stöðunum? Ég sá t.d. að einhver leiðsögumaður var æfur yfir að klósettin voru ekki í toppstandi við Dettifoss að mig minnir. Vesalings, aumingja fólkið þurfti að pissa úti!!!! Hvað skyldi þessi leiðsögumaður vera tilbúinn að rukka sína hópa fyrir að fá alla þjónustu þar sem þeim dettur í hug að stoppa? Heldur fólk að það sé ókeypis að koma allri þessari sjálfsögðu aðstöðu fyrir og viðhalda henni? Nei, ég held að ef við viljum á annað borð hafa ferðamannaiðnað á Íslandi þá verðum við bara að kyngja því að gera eins og aðrar þjóðir og rukka fyrir þjónustuna og aðgengi að sýningunum (lesist: náttúrunni).
Svo er náttúran líka á fullri ferð hér heima. Hanna mín er alveg á steypinum. Hún var sett á 2. júlí en enn er lítið að gerast. Það er búið að ýta við belgnum en ef ekkert skemmtilegt gerist núna um helgina ætla þeir að skoða hana eitthvað betur eftir helgi. Þeir vilja líklega ekki að hún bíði mikið lengur þ.e. þeir telja að barnið sé orðið í stærra lagi. Faðir barnsins mælist 2,06 mtr. á hæð svo það er nú líklega ekkert ólíkllegt að krílið taki smá pláss. Siggi hefur frá fyrsta degi sagt að barnið komi í heiminn í dag, 5. júlí. Það yrði mjög gaman en hann yrði kannski full montinn með að fá svo flotta afmælisgjöf!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.6.2008 | 11:29
Líka hérna
Þetta er nú bara svona hérna líka! Reyndar hef ég ekki orðið vör við að þingið hafi skipt sér af málum en það eru þónokkur ár síðan þau boð voru látin út ganga í Engjaskóla að annað hvort væri öllum stelpum eða strákum boðið í afmæli eða engum! Krökkum var s.s. bannað að bjóða 3-5 bekkjarfélögum sínum í afmæli en ekki öllum. Þannig eru krakkar þvingaðir til að bjóða fólki í afmælin sín sem þeim jafnvel líkar ekki og eru ekki í vinskap við. Jafnvel krökkum sem hafa staðið að einelti. Annað hvort það eða hafa ekkert afmæli.
Ég náði að vaxa úr grasi án þess að vera boðið í hvert einasta afmæli sem haldið var í mínum bekk og held að krakkar verði bara að læra að þola það að stundum fá þeir ekki allt sem hinir fá. Skil reyndar ekki þessa áráttu núorðið að pakka börnum sífellt inní bómull þannig að þau þurfi aldrei að upplifa neitt neikvætt. Hvernig eiga þau þá að læra að takast á við tilveruna? Er hún ekki full af neikvæðum atburðum sem maður verður að takast á við og hrista af sér? Er það ekki hlutur foreldra að kenna börnum sínum að takast á við þá?
Barnaafmæli veldur uppnámi í Svíþjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)