Ég er steikt

Ég er steikt. Gersamlega steikt.

Búin að vera meira og minna úti að vinna alla vikuna og þrátt fyrir að hafa borið vel og vandlega á mig sólvörn (tvær tegundir: Ein nr. 20 og önnur nr. 44) tvisvar  á dag er ég núna vel steikt! Ég klikkaði reyndar einu sinni á að bera á mig í hádeginu og það dugði til þess að ég byrjaði að hlaupa upp. Síðan hefur það bara versnað.

Ég er nefnilega ein af þeim heppnu sem fá sólarexem. Ég verð ekki sérlega brún, en ég verð sérlega skemmtilega rauðflekkótt með upphleyptum bólguþrimlum sem klæjar svakalega undan. Jibbí!

Núna bíð ég helst eftir rigningu! Jahhh.... eða þannig!  Tounge


Upphefð og blöðrur

Þau undur og stórmerki gerðust hér rétt áðan að einn granni minn sem gekk hér hjá garði meðan ég var þar að dedúa, stoppaði og spurði mig leyfis til að tilnefna garðinn minn til umhverfisverðlauna! Dettimérnúaldeilisallardauðarlýsúrhöfði!!

Ég verð að viðurkenna að ég lyftist öll og var fljót að samþykkja heiðurinn þrátt fyrir að ég yrði reyndar að benda honum á að enn vantar slatta af gróðri og það er góður malarflekkur þar sem einhvern tíma (vonandi) á að rísa sólpallur. En honum var slétt sama. Er víst í umhverfisnefnd og er þreyttur á að vera alltaf að tilnefna sömu garðana og það væri alveg klárt að þessi garður hefði gert mikið til að fegra umhverfið! (Hann allavega fegraði það ekki áður! Smile )

Stuttu seinna komst ég að því að ég er komin með 3 (segi og skrifa ÞRJÁR) blöðrur í vinstri lófa! Crying Líklega eitthvert karma sent til að koma mér niður á jörðina eftir upphefðina nokkrum mínútum áður.

Fyrir þau ykkar sem eruð fyrrum nágrannar mínir í Garðabænum lofa ég ykkur að ég mun ekki breytast í fyrrum granna okkar og hans "hustru" sem hömuðust sem mest í sínum garði. Cool


Dularfulla bloggarahvarfið!

Getur það verið að þegar einhver hættir að blogga og lokar blogginu sínu að þá hverfi líka allar athugasemdir sem hann hefur skrifað hjá öðrum??

Málið er að ég er að reyna að hafa uppá einum bloggara sem er horfinn af bloggvinalista hjá mér. Til að finna hann aftur ætlaði ég að hafa upp á honum í gegnum athugasemdir sem hann hefur sett inn hjá mér en hvernig sem ég leita finn ég ekki tangur né tetur af honum. Ég hef hins vegar fundið athugasemdir sem vísa í athugasemdir sem hann hefur greinilega verið búinn að skrifa næst á undan svo mér sýnist það hljóti að vera að hann hafi lokað blogginu sínu og þar með hafi allar athugasemdir hans líka horfið. Það finnst mér mjög skrýtið.

Kannist þið við eitthvað svona eða vitiði hvernig þetta virkar?


Kvenveski

Kvenveski ku innihalda hina ýmsustu fjársjóði - allavega sum. Maður hefur í ótal skipti heyrt veskiháðsglóðsur karla um konur og veski og hvernig þær nenni eiginlega að draga allt þetta dót með sér hvert sem þær fara. Ég og fleiri konur höfum hins vegar ekki skilið hvernig er hægt að komast af með ekkert með sér eins og karlar virðast gera. Ég legg áherslu á VIRÐAST GERA!

Ég er nefnilega búin að komast að því að karlar eru með ekkert minna dótarí með sér en konur. Þeir nota samt ekki veski, nei, þeir troða alla vasa út af öllu því sem þeir þurfa að hafa með sér! Buxnavasar, skyrtuvasar, jakka- og úlpuvasar - allt úttroðið af því sem þeim finnst nauðsynlegt að hafa meðferðis.

Mismunurinn er bara sá að við konur förum vel með fötin okkar og höfum dótaríið í sérútbúnum hirslum til að hafa með sér á meðan karlar skemma fötin sín með því að troða alla vasa út af dóti. Tala nú ekki um þegar þvottavélar verða fyrir barðinu á þessari áráttu þeirra þegar þeir gleyma að hirða fjársjóðina úr vösunum áður en flíkunum er hent í þvott. Grin


Stjórn – Óstjórn – Ofstjórn

Það virðist vera ótrúlega erfitt að sinna stjórnun sveitarfélaga. Allir landsmenn hafa heyrt af krísum höfuðborgarbúa, Bolvíkinga, Akurnesinga og fleiri. Nú er krísa í gangi í Vogunum. Það finnst mér.

Í Vogunum hefur almennt séð verið svona frekar afslappað andrúmsloft og fólk sinnt sínu að mestu í sátt og samlyndi. Í síðustu kostningum bar svo við að kosið var nýtt fólk í stjórn og skipt út fólki sem hafði verið að stýra bænum í rólegheitum í einhver kjörtímabil. Og nú er nýja stjórnin að stjórna. Ég hef heyrt eitt og annað utan að mér en alltaf haldið að það sé ekkert að marka að heyra bara annan helminginn af sögunni. En í dag heyrði ég tvær sögur sem eru svona í nágrenninu við mig sem eru hvor annari vitlausari svo nú þarf ég að hella smá úr mér yfir þá sem mögulega nenna að lesa:

Saga 1: Í nýlegu hverfi hér niður við sjó er smá landspilda sem stendur töluvert neðar en húsin í kring. Spildan er á stærð við eina einbýlishúsalóð. Til að nýta hana í eitthvað var ákveðið að keyra tilfallandi uppgreftri í spilduna, hækka hana þannig í sömu hæð og umhverfið og gera þar smá leiksvæði. Nú er búið að fylla u.þ.b. helminginn af svæðinu. Nú er hins vegar kominn til starfa hjá bænum mjög umhverfissinnaður einstaklingur sem ku vera búinn að stöðva þessa framkvæmd. Það má alls ekki fylla í þetta af því þetta er mýri og hún á að vera þarna!

Jú, vissulega er skv. alþjóðlegum sáttmálum gert ráð fyrir að vernda mýrar eftir því sem kostur er. Það virðist reyndar gleymast þegar rætt er um Vatnsmýrina, en það er annað mál. En að „vernda“ svæði sem er svona pínu lítið, með hús á þrjá vegu og göngustíg á þann fjórða, svæði svo lítið að það er ekki möguleiki að einn einasti fugl hafi áhuga á að tylla sér þar niður, hvað þá verpa, er mjög sérstakt!

Saga 2: Þetta er eiginlega saga dagsins og sú sem setti í mig illt blóð. Ég hef indælis nágranna, fólk sem flutti í næsta hús fyrir ári síðan. Við húsið er heilmikill garður umlukinn lágum steinvegg með girðingu ofaná. Hjónin eiga heljarmikið hjólhýsi. Til þess að vera ekki að taka pláss á götunni tóku þau sig til og söguðu gat á steinvegginn, tóku limgerðið frá gatinu og jarðvegsskiptu smá innkeyrslu til að koma hjólhýsinu inn í garðinn og bakvið húsið yfir veturinn. Þessi „innkeyrsla“ ef svo má kalla, truflar engann en vill til að hún er frá annari götu en húsið er skráð við. Þetta er s.s. hornhús.

Í dag fengu hjónin ábyrgðarbréf frá bænum þar sem þeim er sagt að vesgú og stöðva framkvæmdir og setja garðinn í sitt fyrra horf „or else“! Ég get ekki fyrir mitt litla líf skilið hvað bænum kemur þetta við! Ekki kemur hjólhýsið til með að trufla neinn og það er á mörkunum að það sjáist einu sinni þegar það er komið inn þ.e. trjágróðurinn er þéttur og hár.

Að skipa fólkinu að setja garðinn í fyrra horf er gersamlega fáránlegt. Bærinn hefur ekkert um garðahönnun fólks að segja. Það er ekkert sem bannar að þau riðji allri girðingu og trjágróðri burt, malbiki draslið og keyri hringinn um húsið ef þeim sýnist svo. Bara svo framarlega sem þau fara inn og út úr garðinum á réttum stað.

Mikið innilega vona ég að þau taki þessu ekki þegjandi og taki hart á móti þessu endemis bulli sem virðist eiga yfir þau að ganga.

Svo vona ég líka að þeim sem finnst svona gaman að stjórna fari að stjórna einhverju sem þarf stjórnunar við og láti svona smámál eiga sig!


Hátíð í bæ!

Já, nú er sko hátíð í bæ!

Fyrir utan að Sjómannadagurinn er í dag þá eru líka formlegt „reisugilli“ á garðinum mínum! Hér kemur ein „fyrir“ mynd af garðinum:Garður - Fyrir

 Þarna er eiginlega enginn garður. Risastór grasflöt umlukti húsið með alls engum öðrum gróðri nema góðum slatta af mosa og fíflum sem spruttu af miklum krafti.

Garðurinn er svosem ekkert fullkláraður. Það á ennþá eftir að gera pallinn og setja slatta af trjám og öðrum gróðri í beð, en það er búið að tyrfa, búa til beð, setja niður þvottasnúru og síðast en ekki síst, flaggstöng. Í dag er flaggað í fyrsta sinn í garðinum mínum. Það er hávaðarok en sól svo fáninn tekur sig gríðarvel út. Cool Svo var líka hengdur þvottur á snúrurnar í fyrsta sinn í dag. Og hér er ein mynd tekin rétt áðan:Garður - Í dag

 

Trjágróðurinn sem kominn er, er ekki enn farinn að sjást að ráði svo breytingin er mest áberandi bak við hús. En flaggstöngin sést! Í tilefni þessara miklu tímamóta er ég búin að baka köku og Siggi ætlar að baka sínar margfrægu pönnukökur. Svo kemur einhver slatti af fólki til okkar í kaffi. Vonandi til að dást að okkur - við getum alla vega montað okkur! Tounge

Svo getum við með tíð og tíma tínt í garðinn þær plöntur sem vantar og kannski getum við byrjað á palli með haustinu eða næsta vor - hver veit? Happy

Svo óska ég sjómönnum landsins til hamingju með daginn! Smile


Snobb

Ég ÞOLI EKKI snobb! Bara þoli það alls ekki. Ekki einu sinni þegar ég stöku sinnum verð vör við það hjá sjálfri mér. Þegar það gerist þá reyni ég að tala sjálfa mig til. Og ég verð fúl við sjálfa mig. Ég er búin að vera að melta með mér að skrifa pistil um tónlistarsnobb í góðan tíma. Svo var ég að enda við að lesa pistil í Fréttablaðinu sem varð til þess að ég ákvað að hella aðeins úr mér.

Hvernig geta einhverjir besservisserar ákveðið fyrir allra hönd hvað sé góð músík og hvað sé slæm?? Þá meina ég ekki eitthvert einstakt lag heldur tónlistartegund. Hvernig er hægt að segja að létt dægurtónlist (popp) sé eitthvað ómerkilegri músík en nútíma jass eða hvaða önnur músík sem er?

Ég get ekki betur séð en öll músík eigi rétt á sér. Stundum hentar manni að hlusta á einhverja létta froðu og stundum vill maður sitja einn í myrkrinu og hlusta á eitthvað arfa þungt. Stundum vill maður syngja með hástöfum  og stundum vill maður hlusta nákvæmlega eftir hverju einstöku hljóði. Ég varð t.d. stórlega hissa þegar ég las fyrir einhverju síðan að einhver besservisserinn væri að skammast í Veðurguðunum fyrir að vera að bera slíka froðu sem lagið Bahama er fyrir landsmenn! Kommon! Má alls ekki tralla og skemmta sér? Verður maður endilega að hlusta á Hjaltalín og slíka alltaf alla daga??

Svo tók alveg steininn úr þegar ég las greinina í Fbl. áðan. Þar skrifar Steinþór Helgi Arnsteinsson undir fyrirsögninni "Eurovision-lágmenning" eftirfarandi: "......en væri einhver til í að halda því fram að Eurobandið sé eins góð landkynning og til dæmis Mugison eða Emilíana Torrini (ætla að leyfa mér að sleppa að nefna nöfn á borð við múm, Sigur Rós og Björk)?"

What!!! Ha... ég bara er ekki alveg að ná mér.... Held að þessi gaur sé bara hreinlega ekki í lagi! Mér finnst Mugison og Emilíana æðisleg. En ég myndi frekar hlusta á Eurobandið stanslaust daginn út og daginn inn í 3 mánuði samfleytt en  að hlusta í hálftíma á þunglydislegt vælið í Sigur Rós! Og það sem meira er: Ég er til í að hengja mig uppá að ef farið væri að telja milljónirnar í Evrópu þá væri þannig líka ástatt um þónokkrar milljónir manna þar. Þar fyrir utan hefur enginn þessara listamanna fengið eins góða kynningu eins og Eurobandið með því að standa á sviðinu í þessar 3 mínútur. Tvisvar. Þannig að það að reyna að gera lítið úr kynningarmætti þeirra fyrir land og þjóð með þessum samanburði er algerlega út í Hróa hött!

Mér finnst frábært að Sigur Rós gengur vel úti í hinum stóra heimi. Mér finnst líka frábært þegar hvaða tónlistarfólki sem er gengur vel. Það þýðir að tónlistin þeirra hentar einhverjum. En það þýðir ekki að tónlistin þeirra sé eitthvað merkilegri en tónlistin sem spiluð er á sveitaböllum hér heima á Íslandi. Þeir sem halda því fram ættu að líta niður eitt augnablik og finna hvað það er miklu þægilegra heldur en að hafa regnið stöðugt uppí nasirnar á sér!


Sakna ítalíu

Það er mikill söknuður að ítalíu úr júróvisjón. Þetta er náttúrulega bara hrein snilld :  Svo er líka þetta sem er "aðeins´" nýrra:

Skil þá svosem að halda sig bara við San Remo. Þá vinna ítalir allavega alltaf!! LoL

Hvað er annars með þetta hallarislega "Evróvisjón" orð? Einhver sagði mér að það væri íslenska útgáfan af Eurovision. Ehhh.... hvað þýðir "visjón" eiginlega á íslensku? Annað hvort er að þýða orðið alveg eða sleppa því! Þá er nú simpilt júróvisjón skárra.


Hrísgrjónavandræði

Einn alvinsælasti rétturinn á matseðlinum á þessu heimili er grjónagrautur. Stundum með rúsínum, en alltaf með kanilsykri og kaldri lifrarpylsu. Ég er ekkert ofurspennt fyrir þessu en allir hinir. "Börnin" koma langar leiðir ef fréttist að þetta sé á boðstólum. En nú er illt í efni. Ég fæ hvergi réttu hrísgrjónin!!

Ég er búin að fara í margar Bónus búðir ef ske kynni að einhvers staðar leynist pakki. Ég er búin að fara í Hagkaup og 10-11. Ekkert! Getur verið að það sé hætt að selja River rice sem eru bráðnauðsynleg í grautinn??

Ef einhver veit hvar hægt er að ná í þessi dýrmæti vil ég gjarna frétta af því! Crying


Bíóferðir

Ég er búin að fara í bíó tvisvar á þessu ári. Öðru vísi mér áður brá þegar maður sá nánast hverja einustu mynd sem fór í sýningu! Blush

Í fyrra sinnið fór ég í Háskólabíó og sá íslenska mynd sem ég man ekki hvað heitir. Sem er gott því hún var hundleiðinleg. Hvað er eiginlega hægt að setja margar senur með sama bílnum að keyra langan veg inn og út sama fjörðinn?? Þar sem ég sat í bíóinu og át gamalt, seigt poppkorn loksins þegar myndin byrjaði 25 mínútum eftir áætlun, velti ég því fyrir mér hvað hefði eiginlega gerst..... voru menn ekki hættir að búa til svona leiðinlegar myndir? Var Mýrin og fleiri slíkar ekki eitthvað sem var framtíðin?

Jæja, svo fór ég í Smárabíó í gær. Þar var útlenskt léttmeti í boði - Ironman. Robert Downey Jr. er bara snilldarleikari svo það er alltaf gaman að horfa á hann og myndin amerísk ofurhetjumynd sem var vitað fyrirfram svo maður fór með því hugarfari í bíóið. En ég fékk samt smá áfall í bíó. Ég komst s.s. að því að íslendingar eru búnir að læra að fara í röð í bíó!!!! Ég beið í röð við miðasöluna og fór svo inn. Þar var stefnan tekin á sjoppuna til að redda poppi og viti menn! Þar stóð fólk í nokkrum penum röðum og beið eftir að kæmi að þeim!!! Hvílíkur munur og ég óska öllum bíógestum innilega til hamingju með framfarirnar! Grin

Svo var poppið líka gott - nýtt og ferskt og ekki ofsaltað!  Smile 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband