9.10.2008 | 22:42
Fréttabann
Ég er að spá í að setja sjálfa mig í n.k. fréttabann.
Ég hef hlustað andaktug á óteljandi fréttatíma og blaðamannafundi og lesið af áfergju þau blöð sem ég hef komið höndum yfir. Ég er s.s. búin að ná þessu með að bankarnir fóru allir sem einn á hausinn, mismikið vegna eigin klúðurs en allir vegna klúðurs. Við landsmenn munum svo þurfa að redda því sem reddað verður og eyða ótöldum næstu árum í að borga brúsann.
Það sem ég hef að auki haft útúr þessum fréttum öllum er heilmikil blanda af depurð, reiði, þunglyndi, áhyggjum, svartsýni og góðum slatta af meiri áhyggjum. Þess vegna er ég að spá í að hætta bara að hlusta!
Ég er alveg handviss um að bankarnir (eða einhver sem segist vera bankinn) sendir mér eftir sem áður góðan slatta af alls konar gluggaumslögum og segir mér hvað ég á að borga og hvenær. Það er nú svona í stórum dráttum þau viðskipti sem ég á við banka þessa dagana. Svo þegar ég fer í búð þá kaupi ég bara það sem verður í boði í hillunum og þegi. Get hvort eð er ekkert gert í því sjálf ef það er ekki til eitthvað annað sem ég vil kannski frekar.
Held að lífið verði bara slatta einfaldara og gleðiríkara með því að sleppa því að hlusta á fréttirnar. Bið bara einhvern um að láta mig vita ef það koma einhvern tíma góðar fréttir. Þá get ég leitað þær uppi á Netinu og hlustað þar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.10.2008 | 13:29
Snúum bökum saman!
Undanfarna daga hefur hver silkihúfan á fætur annari talað í útvarpið um að nú verði allir að snúa bökum saman til að vinna bug á ástandinu sem hrjáir okkur þessa dagana. Ég er sammála því.
En hvað er Borgin eiginlega að hugsa með því að ganga frá tveimur stórum samningum við erlenda aðila rétt í miðjum fjöldauppsögnum, gjalddeyrisskorti og öllu því sem nú gengur á? Er það bara rekstrarniðurstaðan sem skiptir máli? Er siðferðisleg og samfélagsleg ábyrgð engin?
Ætli eitthvert séníið hjá Borginni hafi tekið með í reikninginn hvað þeir eru lengi að eyða 30 millunum sem þeir spara á öðru verkinu með því að selja það úr landi í að borga byggingaverkamönnum atvinnuleysisbætur?
Allavega er klárt að Borgin er ekki með í pakkanum um að Snúa bökum saman!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.10.2008 | 00:14
Hvað er það eiginlega...
... sem veldur því að það er sama hvað fólk er gamalt eða hvaða tónlist það "fílar" öllum finnst þetta frábært:
Svo er þetta líka gott en fólk er ekki alveg jafn sammála um það:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.9.2008 | 23:46
Hver ræður?
Ég er svolítið bit einmitt núna. Heyrði í útvarpinu í dag bút úr viðtali við annað hvort viðskipta- eða fjármálaráðherra. Er ekki alveg viss hvort en held samt að það hafi verið viðskiptaráðherra. Hann sagði eitthvað á þessa leið:
"Næstu daga verður mikil vinna að endurskoða fjárlög ríkisins til þess að þau endurspegli verðbólgumarkmið Seðlabanka."
Er það ekki ríkisstjórnin sem á að setja stefnuna í efnahagsmálum og Seðlabankinn að styðja hana? Er það virkilega orðið eðlilegt og viðurkennt að Seðlabankastjórn sé yfir Ríkissjórnina sett? Þarf alþýðan að finna út einhverja aðferð til að stjórna ráðningum Seðlabankastjóra ef þau vilja hafa áhrif á stjórn landsins. Því ef þetta er rétt að ríkið þurfi að laga sig að markmiðum seðlabankans þá skiptir engu máli hvað við kjósum því það eru karlarnir í brúnni á Seðlabankanum sem ráða!
Fjandinn fjarri mér ef ég er sátt við það!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.9.2008 | 19:40
Hvað er faraldur?
Ég las í blöðunum fyrir einhverjum dögum að offita væri faraldur. Þeir faraldrar sem ég kannast við hingað til eru allir af sömu tegund: Bráðsmitandi pestir sem berast manna á milli og erfitt að ráða við. Offita er ekki þannig. Hún er ekki smitandi en vissulega mjög erfið viðureignar og því miður hrjáir hún marga. Allt of marga. Er það nóg til að vera faraldur? Eða er þetta kannski spurning um pólitík þannig að um leið og búið sé að samþykkja offitu sem faraldur þá sé hún líka orðinn sjúkdómur sem hægt sé að vinna gegn með alþjóðlegum styrkjum úr heilbrigðisgeiranum, t.d. frá ES eða SÞ? Einhvern tíma var mér sagt að það væri þess vegna sem alkohólismi hefði verið skilgreindur sem sjúkdómur hér á árum áður. Ég veit ekki meira um það.
Ég er ekki sátt við að skilgreina afleiðingar neysluvenja sem sjúkdóm. Sama hvaða neysla það er. Það hlýtur að vera hægt að berjast gegn slæmum afleiðingum neyslu með öðrum leiðum en að gera okkur öll að sjúklingum. Mér sýnist ganga nokkuð vel, hægt en örugglega, að berjast gegn reykingum. Þó er enginn greindur reykingasjúklingur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2008 | 17:25
immug klukkaði mig..... úfff....
Jæja, ég skorast ekki undan þessari vitleysu og hér koma þessar vita gagns- og tilgangslausu upplýsingar: (mjög sjaldgæft að finna slíkt í bloggheimum! )
Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:Kaupakona í sveit.
Roðfletti síld.
Skrifstofumær.
Vörubílstjóri.
Fjórar bíómyndir sem ég held uppá:Steel Magnolias
French Kiss
I Kina spiser de hunde
The Fifth Element (það er nú svona einkadjók...)
Fjórir staðir sem ég hef búið á:Hafnarfjörður
Neskaupstaður
Garðabær
Reykjavík (lang sísti staðurinn)
Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:House
CSI: New York
Eiginlega horfi ég ekki á sjónvarp.....Engir þættir þar sem eru ómissandi.
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:Víða farið um landið okkar
Slóvenía
Ítalía
Mallorka
Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:mbl.is
visir.is
ruv.is
Er ekkert mikið að "sörfa"Fernt sem ég held uppá matarkyns:
Ostakökur
Ostar m. kexi og sultu ( þrátt fyrir að vera með mjólkuróþol!)
Thailenskur matur
Lambið íslenska er líka lostæti
Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:Hef bara lesið eina bók oft: Topper. Eldgömul bók sem afi minn eignaðist einhvers staðar óinnbundna og batt inn sjálfur. Þetta er brjálæðislega fyndin draugasaga sem var kvikmynduð 1937 og Cary Grant lék í henni. http://www.imdb.com/title/tt0029682/
Fjórir bloggarar sem ég ætla að klukka:saxi
maggao
bylgja.com
Svo ælta ég ekki að ónáða fleiri og vona að þetta verði einhverjum til gagns og ánægju. Til hvers væri þetta annars?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.9.2008 | 18:37
RÚV að svindla?
Í gær var auglýst bein útsending á Eurovison danskeppni. Þar sem ekki var um neitt auðugan garð að gresja í dagskrá sjónvarps og ég illa haldin af leti settist ég fyrir framan til að horfa á beinu útsendinguna. Svo kom upp bilun í útsendingunni og ég smellti mér á DR1 (Danmarks Radio) til að missa ekki af tangónum hjá Finnum, en viti menn; Danir voru í óða önn að afgreiða stigagjöfina!!
Beina útsendingin var s.s. ekki beinni en svo að hún var sýnd ca. 30-40 mínútum eftir rauntíma hér heima. Skiptir svosem engu máli en.... annað hvort er útsending bein eða ekki. Ég sé boltabullur í anda sætta sig við svona svindl!
Þetta minnti mig helst á þegar litlir krakkar skrökva um eitthvað sem skiptir engu máli. Til hvers að segja útsendinguna beina þegar hún er það ekki? Það skipti í þessu tilfelli ekki hinu minnsta máli svo til hvers að sýnast vera eitthvað annað en rétt er?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.8.2008 | 21:45
Lífið er hverfult
Í kvöld fékk ég smá kinnhest. Ekki alvöru, heldur leið mér bara þannig.
Tengdapabbi hringdi og tilkynnti okkur að hálfbróðir Sigga hefði í dag misst nýfædda dóttur sína. Hún varð bara fjögurra daga gömul. Átti víst ekki mikla möguleika í lífinu vegna fæðingargalla.
Við höfum notið blessunar við Siggi. Okkar erfiðustu viðfangsefni hafa verið að tjónka við óþekkt og duttlunga barnanna okkar. Þau eru hins vegar öll heilsuhraust og nú eigum við lítið afabarn sem líka er fullkomið.
Í sjálfselsku minni gleðst ég yfir gæfu minni hingað til. En ég hugsa líka og syrgi með Einari og litlu fjölskyldunni sem á svo óskaplega bágt. Ég hugsa líka til ykkar allra þarna úti sem hafið þurft að takast á við hverfulleika tilverunnar og ekki verið jafn lánsöm og ég.
23.8.2008 | 21:12
Nafnið komið á drenginn!
Jæja, í dag var litli afastrákurinn skírður. Athöfnin var í Grindavíkurkirkju og síðan var veislukaffi í safnaðarheimilinu strax á eftir. Þetta slagaði hátt í góða fermingarveislu, fullt af kökum og öðrum kræsingum!
Hér er svo mynd af "öfgunum" (afleiða af orðinu "feðgar") sem ég tók í gær þegar þau stoppuðu við hjá okkur því aðalmaðurinn gat ekki beðið þangað til í Grindavík með að fá sopann sinn.
Fyrst er sá eldri, Guðvarður Sigurður Pétursson og síðan sá nýnefndi, Tristan Alexander Mortensson Szmiedowicz. Glæsilegir karlar báðir tveir.
Svo er það bara boltinn í fyrramálið..... ÁFRAM ÍSLAND!!!
15.8.2008 | 21:39
Hjólreiðar?
Það eru komin mislæg gatnamót við Voga og tvöföld Reykjanesbraut nánast frá Grindavík til Hafnarfjarðar. Allir gleðjast og eru lausir við langa og hættulega bið á hverjum morgni við að reyna að komast á Brautina til að fara til vinnu. Eða næstum allir gleðjast....
Þannig er að það er bannað að fara rampana út úr hringtorgunum og uppá Brautina á reiðhjólum! Við hvern einasta ramp er skilti sem bannar reiðhjól! Það má hjóla á Vogavegi og eftir því sem ég best veit er ekki bannað að fara eftir Brautinni á reiðhjóli en það er alveg harðbannað að fara þessa örfáu metra af Vogavegi yfir á Brautina!. Hvernig í ósköpunum getur staðið á þessu og hvernig samræmist þetta eiginlega allri hvatningunni undanfarið að nota hjólin meira?? Ég bara spyr
En ég nenni hins vegar alls ekki að skrifa um borgarmálin. Ég er bara fegin að búa ekki lengur í þessu skrípi sem á að heita Höfuðborg landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)