Bankabull

Hvað meina bankarnir.... allir með hagnað????  (nema SPRON)

Hér er öll þjóðin búin að sitja með öndina í hálsinum yfir því hvað bankarnir eigi bágt, ríkisstjórnin að lofa að redda þeim frá gjaldþroti og allt í voða og svo eru þeir reknir með hagnaði! Voru þeir að kveinka sér yfir því að þeir græða minna en áður, var það málið?

Það vita það alveg áreiðanlega allir sem eru í fyrirtækjarekstri (nema bankastjórar) að minni hagnaður er ekki það sama og að tapa!! Fjandinn vorkenni þeim!  Devil 


Góðan dag og gleðilegt sumar!

Jæja, það er morgunljóst að ég hef verið afspyrnu blogglöt undanfarið. Hef samt kíkt á aðra bloggara öðru hvoru en lítið kommentað. Ástæðan fyrir letinni er eiginlega tvöföld: Ég hef samið þessa afspyrnu fínu pistla í kollinum á mér yfir daginn og legið mikið á hjarta en einhvern vegin hefur mér verið algerlega fyrirmunað að rifja upp spekina þegar heim er komið að kveldi. Svo hef ég líka verið að gera garð við húsið mitt – Loksins!

Ferningurinn sem hefur umkringt húsið mitt frá því það var byggt 1978 hefur tæpast getað kallast garður. Þetta hefur verið risastór ferningur umlukinn steinvegg og ræktunin einskorðuð við grasstrá og mosa. Spurning hvor grænmetistegundin hefur haft vinninginn.

Við byrjuðum í fyrra að moka öllu sem í garðinum var í burtu og setja nýtt efni í hann. Aðallega grús svo hægt væri að keyra um hann á vinnuvél. Þá fór heitavatnsheimæðin í sundur. Mjög gaman. Svo urðum við stopp, aðallega vegna tímaskorts. Nú hættu bankarnir að lána húsbyggjendum svo við höfum haft smá tíma undanfarið og garðurinn er óðara að taka á sig svip. Búin að gera volduga steinhleðslu og laga það sem laga á fyrir aftan húsið, búin að gróðursetja limgerði við austurhliðina og langt komin með að jafna undir grasblettinn sem á að vera þar. Ég er ekki viss um að nágrannarnir sjái hvað þetta er að verða fínt en ég geri það og er alsæl! Pallurinn sem koma á framan við húsið verður hins vegar settur á salt. Vonandi fæðist hann næsta vor.

GarðurinnHér er smá sýnishorn af garðinum. Þetta er nú svosem ekki merkilegt svona á myndinni, grá möl við gráa hleðslu og tekið í grárri rigningu. Plönturnar nærri ósýnilegar vegna smæðar greyin! En þetta hlýtur að koma með árunum. Verð líklega að æfa mig í þolinmæði...... sem hefur ekki verið mín sterkasta hlið!!


Lífsbókin

Ég var alveg búin að gleyma þessu lagi. Það hefur heyrst svolítið undanfarið. Flott lag og textinn stórgóður.

 


Neikvæðar fréttir um útlendinga

Ég heyrði í útvarpinu áðan að greining á umfjöllun í fjölmiðlum um útlendinga á s.l. ári hefði í 30% tilfella verið neikvæð. Sá sem talað var tiltók dæmi um neikvæða umfjöllun t.d. að áberandi var umfjöllun um rangar skráningar eða óskráð erlent vinnuafl og líka rútuslysið sem varð í fyrra þegar verið var að flytja fulla rútu af útlendingum að mig minnir á Kárahnúka frekar en á Reyðarfjörð.  En er þetta neikvæð umgjöllun um útlendinga?

Þegar ég heyri svona fréttir heyri ég eitthvað í þessa átt: Íslendingar svikust um að borga skatta og skyldur og létu fólk vinna meira og minna ótryggt. Einnig voru íslendingar að flytja stóra hópa af fólki í meira og minna ófullnægjandi farartækjum. Íslendingar ættu að skammast sín. Ég heyrði allavega ekki að útlendingarnir hefðu gert nokkurn skapaðan hlut sem væri hægt að kalla neikvæðan.


Ellismella sumarið mikla

Stærstur hluti erlendra tónleika sumarsins virðist vera með flytjendum sem eru ......ja, svona aðeins í eldri deildinni. Ég er næst því að fara á tónleika með Paul Simon. Samt ekki viss. Ekki svo ýkja langt síðan Graceland heillaði mig þannig að ég held hann geti ennþá eitthvað. Á enn eftir að ákveða mig.
mbl.is Paul Simon heldur tónleika í Laugardalshöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorið kemur á þriðjudaginn

Jibbbí!!!! Loksins!!! Cool
mbl.is Vorið kemur á þriðjudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá pælingar

Ég hef heyrt eitt og annað í fréttum og í kringum mig undanfarið sem ég er að spöglera í:

Björn Bjarnason segir að Lögregluembættið á Suðurnesjum hafi verið í verulegum rekstrarvandræðum undanfarin ár og hafi verið rekið með halla lengi.  Þess vegna á að umsnúa öllu hjá þeim. Getur verið að embættið hafi verið fjársvelt allan þennan tíma og hafi farið yfir fjárheimildir til að reyna að gera það sem þeim lögum samkvæmt ber að gera? Ég man ekki betur en að í fyrra hafi þeim verið hampað sífellt fyrir gríðarlega góðan árangur bæði í lög- og tollgæslu.

Íslendingar eru ekki vanir að mótmæla. Sagt að við kunnum það ekki. Mér sýnist ráðamenn ekkert betri í að bregðast við mótmælum. Þeir gætu sagt: „Getur verið að það sé eitthvað ekki alveg fullkomið hjá okkur, jafnvel eitthvað sem við getum lagað með lítilli fyrirhöfn“. Þess í stað er sagt: “Við tölum ekkert við ykkur, þið eruð svo óþekkir. Tölum ekki við óþekka kalla!“

Svo hélt ég líka að vorið væri komið. Hætt að fara í auka peysu og allt. N1 auglýsir líka í dag að nú sé einmitt dagurinn til að skipta um dekk.  Je, right!! Allt á kafi í snjó í morgun. Verður reyndar farinn fljótlega en setti samt allar vorhugmyndir í bakkgír.

Las í einhverri frétt á netinu áðan að „bíll í akstri valt....“ Verða bílar ekki að vera í akstri til að velta? Vona að fréttaritarinn vandi sig betur. Vona samt meira að fólkið sem slasaðist jafni sig sem allra fyrst.

Vegagerðin ætlar loksins að laga merkingarnar hér uppi á Reykjanesbraut. Las einhvers staðar að síðan framhjáhlaupið var sett væru búin að vera þar 48 slys. Nú eru þau orðin fleiri með ómældum þjáningum.

Svo var líka verið að opna tilboðin í að klára skollans Brautina. Vegagerðin ætlar að ganga til samninga við lægstbjóðanda. Gott og vel. Svosem ekkert komið í ljós að samningar takist. Það vekur hins vegar athygli að bjóðandinn í verkið er nýtt íslenskt fyrirtæki  í samstarfi við óþekkt (allavega hjá mér) erlent fyrirtæki. Íslenska fyrirtækið...... merkilegt nokk.... sömu kallarnir og voru með verkið áður og settu fyrirtækið á hausinn. Nú ætla þeir að fá að klára verkið í nýju fyrirtæki.  Bloddí greit!


Dropinn sem fyllti mælinn

Í mótmælum vörubílstjóra undanfarið hefur mest borið á kröfum um lækkun olíukostnaðar. Það er af því fréttamenn hafa hampað henni mest. Hins vegar hafa bílstjórarnir alla tíð haft uppi nokkrar kröfur sem hafa ekki verið eins „sexí“ fyrir fréttamenn og því ekki heyrst eins mikið af þeim.

Það má glöggt heyra á orðum Geirs H. að þ.e. bílstjórar beri ekki aukinn kostnað í olíu vegna virðisaukaskatts að þá þurfi ríkið ekki að gera neitt. En hvað með almenning?

Hinar kröfurnar:

Vökulögin: Kröfur bílstjóra um breytingu eða niðurfellingu reglna um hvíldartíma eiga aðallega við bílstjóra sem keyra langkeyrslur út á land. Á Íslandi eru örlítið aðrar aðstæður en á meginlandi evrópu. Það er t.d. töluvert lengra á milli byggða víða hér á landi. Vegirnir hérna bjóða ekki heldur uppá að menn stoppi í vegkantinum og leggist til svefns. Reglurnar eru hins vegar þannig að hvað sem tautar og raular máttu ekki aka lengur en í 4,5 klst og þá verðurðu að stoppa í 45 mín. Heildarvinnutími yfir daginn má svo ekki fara yfir 9 klst. Sama hvernig veðrið er, sama hversu langt er í næsta bæ. Það að það sé 30 mín. akstur á endastöð kemur málinu ekkert við. Bílstjórar sem aka t.d. leiðina Reykjavík – Seyðisfjörður þurfa dágóða lagni til að ná því svo vel sé og það má ekkert koma uppá. Í vetur var t.d. heil rúta af fólki strandaglópar á Selfossi um miðjan dag. Þannig var að rútan sem var að koma (að mig minnir) frá Höfn hafði komist eitthvað hægt yfir. Þegar komið var á Selfoss var bílstjórinn kominn yfir á tíma. Þrátt fyrir fínt veður og greiða leið til Reykjavíkur varð fólkið að sitja marga klukkutíma í sjoppu á Selfossi þangað til hægt var að koma þangað „ferskum“ bílstjóra. Sniðugt?

Til að bæta gráu ofan á svart þá tók ríkið upp þessar reglur frá ESB og gerði þær gildar að því leiti sem snýr að bílstjórum. Sá hluti sem snýr að ríkinu fékk undanþágur. Þeir fengu t.d. undanþágur frá því að skapa bílstjórum aðstöðu við vegi landsins þannig að þeir geti farið að lögum og stoppað og hvílt sig. Þar fyrir utan hef ég óstaðfestar heimildir fyrir því að þessi lög gildi ekki í Evrópu nema við akstur milli landa.

Kílómetragjaldið: Fyrir nokkrum árum var fólki talin trú um að kílómetragjald á diselbílum hefði verið flutt inn í olíuverðið. Það var rétt að því leiti að krónutalan sem rukkuð var í kílómetragjald var sett inn í olíuverðið. Fólksbílaeigendur heyrðu ekki meira af því. En á sama tíma var skilinn eftir smá skammtur af kílómetragjaldi sem atvinnubílstjórar eru rukkaðir um. „Venjulegur“ vörubíll þarf að greiða 12,98 kr. pr. km. Trailerarnir þurfa að greiða sömu upphæð auk þess sem að ef þeir ætla að flytja einhvern farm þurfa þeir að borga sömu upphæð að auki fyrir vagninn. Það gerir kr. 25,96 fyrir hvern ekinn kílómetra. Þetta hljómar kannski ekki mikið en fyrir bíl sem ekur 5-700 km á dag er þetta heill hellingur. 1,5 – 2 milljónir á ári eru ekki óalgengar tölur fyrir vörubíl, miklu hærri fyrir trailer.

Umhverfisgjald: Fréttir hafa borist af því að leggja eigi um næstu áramót s.k. umhverfisgjald á þessa bíla. Gjaldið mun reiknast á sama hátt og kílómetragjaldið. Þá verður ríkið farið að rukka bílstjóra um nokkurn vegin sömu upphæð í kílómetragjald og það gerði áður en það setti gjaldið inn í olíuverðið. Samt verður gjaldið líka þar inni. Ríkið verður þannig búið í raun að tvöfalda skattheimtu af atvinnubílstjórum á þessum tíma.

Endurmenntunin: Hvað sem mönnum finnst um endurmenntunina þá er ljóst að hún mun kosta miklar fjárhæðir bæði í útlögðum kostnaði og vinnutapi sem enginn mun taka á sig að greiða nema bílstjórarnir.

Ég er handviss um að ef bílstjórar fengju staðfestingu á því að hætt verði við að leggja umferðargjaldið á, kílómetragjaldið lækkað eða fellt niður og ef endurmenntunin verði a.m.k. þannig að hægt verði að sinna henni með vinnu, þá munu þeir hætta aðgerðum.


Svipting atvinnuréttinda

Kannist þið við starfstéttir sem missa atvinnuréttindi sín ef þær sinna ekki endurmenntun?

Flugmenn missa sín réttindi ef þeir fljúga ekki og mæta ekki örfáa tíma árlega í endurmenntun. Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk þarf ekki að gera neitt til að halda sínum réttindum. Þó má það fólk skera okkur upp og dæla okkur fullt af lyfjum og skilur iðullega á milli lífs og dauða hjá okkur. Fjöldi starfsstétta hefur rétt á endurmenntun á einhverra ára fresti og þá með stuðningi sinna atvinnurekenda og/eða verkalýðsfélaga en engar aðrar en flugmenn verða að sinna endurmenntun. Nema vörubílstjórar.

Misc_Trucks_2Nú er staðan orðin sú að ef vörubílstjórar mæta ekki á langt námskeið á 5 ára fresti missa þeir réttinn til að sinna atvinnu sinni. Þetta samþykkti okkar æruverðuga þing umyrðalaust frá ESB. Til að kóróna málið þá sinnir starfsfólk ráðuneytanna sínu starfi við reglugerðasmíð af ítrustu nákvæmni og hefur þannig í raun hert reglurnar þannig að líklega verður ekki hægt að sinna endurmenntuninni um kvöldin eða um helgar, heldur verður viðkomandi vörubílstjóri að sitja námskeið heila vinnuviku.

Kostnaðurinn einn og sér við þetta er gríðarlegur. Getið þið ýmyndað ykkur hvað það kostar að láta 25-30 vörubíla standa ónotaða í heila vinnuviku? Það er líklegur fjöldi þáttakandi í einu námskeiði og það eru yfirleitt engir afleysingamenn. Vörubílstjórar eru iðullega einyrkjar. Það þarf að borga af bílunum þó þeir standi óhreifðir. Svo eru það tryggingarnar, tapaðar tekjur  og fleira auk þess sem námskeiðið sjálft er ekki gefins.

Þar fyrir utan veit ég ekki alveg hvað þeir ætla að kenna heila vinnuviku. Stöku sinnum kemur nýtt umferðarmerki, það má nefna það. Svo er fínt að rifja upp skyndihjálpina. Þetta gæti tekið svona 1 – 2 daga hjá einhverjum sem talar hægt og með því að taka nokkrar kaffipásur.  En heila viku – með tilheyrandi kostnaði og tekjutapi! Það skal tekið fram að þetta er eingöngu bókleg endurmenntun.

Þetta bætist ofan á flóknar og stórskrýtnar vinnutímareglur (sem hafa verið teknar upp án aðlögunar frá ESB þ.e. bara sú hlið sem snýr að bílstjórum, ekki hliðin sem snýr að ríkinu), olíugjald, umhverfisgjald, kílómetragjald, o.fl., o.fl.

Eruði hissa þó vörubílstjórar séu fúlir?


Ekkert skrýtið

Nú er ég ekkert hissa. Ég bý í Vogum og vinn á höfuðborgarsvæðinu þannig að ég fer þarna um a.m.k. tvisvar á dag. Merkilegt að það skuli ekki verða fleiri slys.

Það vantar ekki að þarna er skógur af stikum og steinblokkum. En þarna eru harla fá leiðbeiningamerki. Það er t.d. stórvandi að finna afleggjarann niður í Voga ef maður er á ferðinni á öðrum tímum en í mestu birtu. Tala nú ekki um í rigningu! Þannig að maður lúsast þarna í gegn á bremsunni til þess að missa ekki af gatinu í steinblokkirnar sem tákna afleggjarann. Flestir sem hér búa hafa einhvern tíma ýmist misst af afleggjaranum eða rétt náð beygjunni áður en þeir voru komnir framhjá. Tala nú ekki um ef komið er sunnan frá! Það hafa að auki orðið fleiri en eitt slys undanfarið einmitt útaf þessu.

Annar kapítuli er ef maður ætlar að komast útúr Vogunum. Þegar komið er á fólksbíl upp að gatnamótunum er steinblokkunum raðað þannig beggja vegna að það er útilokað að sjá umferðina. Sama úr hvorri áttinni er. Þannig að eina leiðin til að komast, er að mjaka sér rólega út á brautina og vona að enginn komi rétt á meðan.

Svo er ég heldur ekki hissa á að þeir sem koma sunnan að átti sig ekki á því að þeir séu komnir á einnar akreinar veg. Ég held það sé eitt skilti sem tilkynnir um breytinguna úr tveimur akreinum í eina. Í fullkomnum heimi væri það nóg. En ef ökumaður einhverra hluta vegna missir af þessu skilti þá veit hann ekki um breytinguna. Þannig verða slysin.

Slysin hljóta að kosta meira en nokkur auka skilti?


mbl.is Fimm á slysadeild eftir umferðarslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband