Ferðasaga af verri gerðinni

Ég hef mjög gaman af ferðalögum innanlands. Eiginlega mun meira en í útlöndum. En þannig hefur það ekki alltaf verið. Ég var lengi að baksa við að fara í tjaldútilegur af því það var yfirleitt mjög gaman á daginn og kvöldin. En þar sem ég er mesta kuldakreista eyddi ég nóttunum nánast án undantekninga skjálfandi úr kulda og var svo fram undir hádegi að ná í mig hita og að liðka á mér pinnstíft bakið. Eitt ferðalag varð svo til þess að ég ákvað að ég væri hætt þessu brölti – algerlega STEINHÆTT!

Formáli:

Við Siggi eigum 5 börn og ákváðum að fara eitt sumar með þau í útilegu. Til ferðarinnar var keyptur Mitsubishi L-300 bíll, svona mini-rúta. Útilegum fylgir heilmikill farangur og því var fengin lítil kerra að láni og í henni var allur farangur, allt frá mat og fatnaði upp í svepnpoka og tjöld (við þurftum 2 tjöld!), því þegar fjölskyldan var komin í bílinn var hann orðinn fullur.  Það var ákveðið að fara hringinn um landið og Kristín mágkona mín, Gummi maðurinn hennar og Inga dóttir þeirra ákváðu að koma með okkur. Til að auðvelda samskipti milli bíla vorum við með tvær labb-rabb stöðvar. Svo var haldið af stað.....

Dagur 1.

Við ákváðum að fara suður fyrir land en eyða ekki miklu púðri á suðurlandi (spáði rigningu) heldur stefna austur á firði þar sem tengdapabbi býr. Til fyrstu nætur var stefnt á Freysnes austan við Skaftafell. Miðað við spár áttum við þá að sleppa undan rigningunni. Við vorum í fremri bílnum.

Rétt austan við Vík í Mýrdal var kallað í okkur. Kerran var farin að haga sér eitthvað skringilega. Mikið rétt – það var sprungið á kerrunni. Það sem verra var, dekkið var komið gersamlega í tætlur og ekkert varadekk var meðferðis. Leit að varadekki í bænum hafði ekki borið árangur af því þetta var einhver óalgeng dekkjastærð. Nú voru góð ráð dýr. Dekkinu var kippt undan og karlarnir fóru til baka til Víkur að athuga með dekkjaverkstæði. Þarna sátum við kerlurnar útí vegkanti  á þjóðvegi 1 með sex börn og biðum.... og biðum og biðum og biðum. Loks komu karlarnir aftur og höfðu merkilegt nokk fengið keypt nýtt dekk. Það hafði fundist einhvers staðar uppi undir hanabjálka 1 stk. notað dekk í réttri stærð.  Nú var loks hægt að skipta um dekk og halda áfram í Freysnes.

Þangað komum við síðla kvölds í ágætis sumarstillum , skelltum upp tjöldum, hituðum pylsur í mannskapinn og fórum að sofa.

Dagur 2.

Þegar við vöknuðum fyrir 8 um morguninn var komið gat á himininn. Úrhellið var meira en ég hef nokkurn tíma lent í, hérlendis eða erlendis. Í snarhasti var krökkunum komið í bílinn og svo fórum við að taka saman. Ofan á kerrunni var mjög gott segl til að loka henni. Ofan á því var komið hið myndarlegasta stöðuvatn. Um leið og eitt hornið var losað losnaði annað horn líka og stöðuvatnið flæddi ofan í kerruna – á allan okkar farangur! Það þýddi ekkert að tala um það, farangrinum var ruslað í kerruna og brennt af stað austur á bóginn.

Strax á fyrsta fjallvegi varð ljóst að það var eitthvað bogið við bílinn. Í hvert skipti sem þurfti að fara bratta brekku hitnaði bíllinn óeðlilega. Skuldinni var skellt á litla vél í pakkfullum bíl sem að auki dró þunga kerru. Nokkrum sinnum var stoppað til að kæla bílinn þannig að ferðin gekk ekki neitt sérlega hratt fyrir sig.

Síðla dags komum við til Egilsstaða þar sem Pétur tengdapabbi minn býr. Þegar þetta var bjó hann á bænum Snjóholti rétt utan við bæinn. Þegar beygt er útaf þjóðveginum er stutt heimreið með svolítilli brekku niður að íbúðarhúsinu. Þessi brekka kom að góðum notum þarna því í miðri brekku drapst á bílnum en við gátum látið renna heim í hlað.

Þar var okkur öllum tekið með opnum örmum eins og ævinlega. Eftir að allir höfðu fengið eitthvað gott í gogginn var farið að huga að svefnstað fyrir hópinn. Flest sem í kerrunni var, var orðið blautt eftir vistina í Freysnesi og stöðuvatnið sem flæddi ofan í hana. Við urðum því afskaplega fegin þegar okkur var boðin gistin inni í húsi. Krakkarnir voru nú ekki allir sáttir svo það endaði með því að einhver þeirra sváfu úti í tjaldi.

Dagur 3.

Þriðji dagurinn rann upp í sól, hita og strekkings vindi. Sem var mjög gott því það var fyrirtaks veður til að þurka blauta svefnpoka, teppi, tjald, peysur, buxur og hvað annað sem var blautt í farangrinum. Það tók reyndar nokkra daga að ná að þurka allt klabbið en það kom í ljós að við höfðum nógan tíma.

Bíllinn var nefnilega úrbræddur! Við vorum nýbúin að kaupa bílinn af umboðinu, reyndar notaðan, svo við snerum okkur til þeirra og vorum ekkert hress. Það varð úr að þeir útveguðu varahlutina og komu þeim í flug en við þurftum að gera við bílinn. Úr þessu varð að næstu dögum eyddu karlarnir inni í skemmu í bílaviðgerðum. Svo þurfti að redda svona verkfæri og hinsegin verkfæri, komast inn á verkstæði í einhverja græju og svo framvegis og svo framvegis. Ekkert gaman og hreint ekkert grín!

Ég man ekki hvað þetta tók marga daga en það passaði nokkurn vegin að þegar búið var að þurka allan farangurinn og pakka honum aftur, þá var bíllinn tilbúinn. Þó við værum búin að vera í góðu yfirlæti í Snjóholti í ekta austurlenskri sumarblíðu var ákveðið að byrja uppá nýtt á ferðalaginu.

Dagur 1 í annað sinn.

Við fórum af stað frá Egilsstöðum einhvern tíma uppúr hádegi þegar var búið að versla meira nesti og kveðja fólkið.

Þegar ekið var af stað í norðurátt var krökkunum lofað að í næsta bæ myndu þau fá ís úr vél. Mikil mistök það. Við fórum á Neskaupstað, Vopnafjörð, Bakkafjörð, Þórshöfn og hvergi var hægt að fá ís úr vél! Sumir buðu uppá frostpinna en það var sko ekki það sem krakkarnir vildu! Þeim var lofað ís úr vél og ekkert annað myndi duga. Þannig fór að ís í vél fékkst ekki fyrr en á Húsavík en það var sko ekki þennan dag og það voru ekki kátir krakkar aftur í bílnum.

Þegar við vorum á leið upp á Hellisheiði eystri vaknaði sterkur grunur um að það sem hrjáð hafði bílinn á leiðinni til Egilsstaða væri ekki afgreitt mál. Í svarta þoku urðum við að stoppa í miðri brekku og bíða þangað til bíllinn kólnaði. Af því það var svo mikil þoka var ekki viðlit að hleypa neinum útúr bílnum að hreyfa sig. Maður þakkaði bara fyrir að enginn keyrði á bílana þarna í vegkantinum. Það að sitja kyrr í bílnum varð ekki til að hressa krakkana í ísleysinu.

En við komumst til Vopnafjarðar og Borgarfjarðar-eystri og þar borðuðum við nesti og skoðuðum steinasafnið. Þar var sól og blíða og mannskapurinn gat aðeins hreyft sig svo andinn hresstist hjá öllum.

Svo var stefnan sett á Húsavík. Einhvers staðar uppi á heiði á leiðinni var ákveðið að stoppa og rétta aðeins úr sér. Þar sem við sátum einhvers staðar úti í móa (gæti hafa verið á Brekknaheiði) fóru karlarnir að vappa í kringum bílana. Þá kom í ljós að beislið fyrir kerruna var að rifna af bílnum! Þar sem við vorum ekkert mjög langt frá Þórshöfn var ákveðið að reyna að komast þangað og athuga hvort ekki fengist gert við þetta þar. Með því að aka holóttan og mjóan malarveginn mjög varlega komumst við klakklaust til Þórshafnar. Þá kom í ljós að þrátt fyrir að við værum túristar í fríi og vikudagar skiptu okkur ekki máli þá skipta þeir vinnandi fólk máli. Þennan dag var einmitt föstudagur og nú var klukkan rúmlega síðdegiskaffi. Eftir nokkra leit var okkur bent á að tala við nokkra pólverja sem voru að sjóða stálgrindahús sem var í byggingu. Þeir voru ekkert nema hjálpsemin og gerðu við beislið á bílnum. Ég man enn eftir vorkunnseminni sem ég sá á svipnum á þeim þegar þeir sáu okkur hjónin í þessari dós með 6 krakka því þá vorum við með Ingu með okkur líka. Ég veit ekki alveg hvað hann hélt um okkur en það er ljóst að hann vorkenndi okkur mikið!

Við stöldruðum ekki við lengur en við þurftum og þeystum af stað úr bænum strax og pólverjarnir voru búnir með sitt. Þegar við vorum komin að afleggjaranum að Raufarhöfn voru Kristín og Gummi aðeins á eftir okkur og þá var kallað í okkur í labb-rabbinu: „Getur verið að það sé eitthvað að kerrunni, það eru eitthvað svo skrýtin för á veginum?“ Nú var snarstoppað og mikið rétt.... það var hvellsprungið á hinu dekkinu á kerrunni!!

Enn ein ráðstefnan var sett á fót og ég ákvað að það hlyti að vera dekkjaverkstæði á Raufarhöfn, það væri a.m.k. styttra þangað en að snúa til baka til Þórshafnar. Það var símaskrá í bílnum og ég fann Raufarhöfn í henni. Þar fann ég ekkert dekkjaverkstæði svo ég hringdi í sjoppuna á staðnum. Stelpuskjátan sem svaraði í símann vissi áreiðanlega ekki einu sinni hvað dekkjaverkstæði var svo ég gafst upp á samræðum við hana og samþykkti að snúa við og fara aftur til Þórshafnar. Dekkinu var kippt undan og nú var varkárni látin lönd og leið, kerran skilin eftir og brunað á báðum bílum til baka til Þórshafnar.

Þegar þangað kom var klukkan öðru hvoru megin við 6 á föstudegi. Og ekki bara það – það var ball í bænum um kvöldið. Það var nákvæmlega enginn í vinnunni! Eftir mikla leit var hægt að þræla einum strák sem var enn á dekkjaverkstæðinu en kominn með opinn bjórinn í hendina til að fara að leita að dekki handa okkur. Annað kraftaverkið gerðist og það fannst dekk undir kerruna.  Strákurinn setti nýja dekkið á felguna og við gátum lagt enn eina ferðina af stað. Ég vona innilega að Þórshafnarbúar hafi skemmt sér vel á ballinu um kvöldið. Þeir áttu það sannarlega skilið eftir að vera búnir að bjarga okkur tvisvar sinnum þann daginn.

Þegar við komum aftur að kerrunni var hún enn á sínum stað. Dekkinu var skellt undir og nú var brunað áfram. Nú var ekki lengur verið neitt að skoða útsýnið eða að dóla sér. Það var komið framyfir kvöldmat, við vorum með fullan bíl af pirruðum börnum sem höfðu ekki fengið ís þrátt fyrir loforð, svo nú skyldi drifið sig í svefnstað. Þegar þarna var komið var Hanna farin að kvarta undan spöngunum á tönnunum. Hún var með járnbrautarteina og þeir voru farnir að meiða hana. Henni var nánast sagt að svona væri þetta bara og áfram var brunað til Húsavíkur.

Dagur 2.

Þegar fólk var risið úr rekkju daginn eftir var Hanna enn að kvarta yfir teinunum svo nú var farið að skoða málið betur. Mikið rétt – öðrum megin stóðu tveir vírar beint útúr tönnunum á henni og stungust í kinnina á henni. Hvað gerir maður í tannréttingum á laugardegi á Húsavík?? Eftir ótal fyrirspurnir, símtöl á sjúkrahúsi og heilsugæslu og öllu sem manni gat dottið í hug, höfðum við ekki komist að öðru en því að læknirinn sem var á vakt var uppi á heiði í veiði! Það var séns að hann kæmi í bæinn einhvern tíma seinnipartinn.... Jahá!! Nú var mér hins vegar nóg boðið. Svona gat þetta ekki gengið lengur. Ég fór og fann einhvers staðar flísatöng, lét stelpuna sitja í opnum bíldyrunum á einhverju bílastæði, sagði henni að opna munninn og svo fór ég upp í hana með flísatöngina og beygði og beyglaði vírana þannig að þeir sneru inn á milli tannanna á henni en ekki út í kinn. Það dugði til að henni hætti að vera illt og kvartaði ekki meira undan spöngunum það sem eftir var ferðar.

Eftir þetta vorum við eiginlega búin að fá nóg í bili af Húsavík. Reyndar reddaði heilmiklu að það var einmitt þar sem hinn langþráði ís fékkst. En nú var ákveðið að halda til Akureyrar. Það getur vel verið að við höfum stoppað einhvers staðar á leiðinni en ég man ekki eftir því.

Þegar við komum til Akureyrar tók ekki gott við. Þetta var seinnipartinn á laugardegi og hvert einasta boðlega tjaldstæði í bænum var upptekið. Það endaði með því að við tjölduðum á þeim stæðum sem voru í boði, uppi í brekku, hallandi í hálfgerðu þýfi. Þar að auki var rigningarsuddi og megn peningalykt sveif yfir bænum.

Það var þarna sem mín brann yfir. Það voru svosem engin læti en ég tilkynnti mínum manni að ég væri hætt! Ég vildi komast heim til mín ekki seinna en strax! Reyndar samþykkti ég að það væri orðið allt of framorðið til að fara heim strax þannig að heimferð var frestað til morguns.

Dagur 3.

Um leið og ég vaknaði byrjaði ég að undirbúa heimför. Ég var enn ákveðnari en kvöldið áður að ég væri hætt, farin, búin, bless – ég var ekki í þessari útilegu lengur!

Ekki veit ég hvað olli því að Kristín og Gummi ákváðu að fara líka heim. Kannski voru þau líka búin að fá nóg af þessari útilegu eða þau voru bara svona kurteis að þau ákváðu að koma með okkur heim. Þau hafa líklega ekki talið óhætt að hleypa okkur einum alla þessa leið án þeirra.

En það var þennan dag sem þau undur og stórmerki gerðust að við komumst klakklaust og án nokkurrar einustu bilunar alla leið á leiðarenda. Undir kvöld komumst við heim og ég held ég segi satt að ég hafi aldrei verið eins fegin að komast heim til mín.

Eftirmáli:

Einni eða tveimur vikum síðar þegar við vorum að skutla stelpunum heim til sín til Grindavíkur bræddi bíllinn aftur úr sér við Bláa lónið. Eftir enn fleiri tugi þúsunda í viðgerðir og einhverjar vikur komst hann aftur í gagnið. Hann var svo seldur fljótlega. Ég hef heitið því að ég mun aldrei aftur eignast svona bíl.

Núna er ég aftur farin að ferðast en ekki í tjaldi. Tjaldvagn eða eitthvað þeim mun betra er það eina sem dugar undir prinsessu eins og mig!

Það skal tekið fram að ég hef engu bætt við, ekkert ýkt eða skreytt söguna. Þetta var held ég hroðalegasta útilega sem sögur fara af en hún átti sér stað fyrir mörgum árum þannig að mögulega muna ferðafélagarnir einhverja hluta ferðarinnar öðruvísi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hahahahhahahha

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 18:33

2 Smámynd: Guðmundur Guðmundsson

Já hlæðu bara!  Þér hefði ekki fundist þetta svona svakalega fyndið hefðir þú verið á staðnum!!

Þesarar ferðar er löngum minnst sem "Bílaviðgerðaferðarinnar miklu", þegar við Siggi lágum í vélínni í L300 einhverja bestu veðurdaga sem komið höfðu á austurlandi á þessum tíma (líklega 1997 ef  mig misminnir ekki).  Þessi ferð er samt skemmtileg í minningunni. 

Ég skil núna betur, Björg mín, hvers vegna þú villtist þetta þegar þú komst austur á vegum happdrættisins um árið, ekki meira um það.  Ég vildi reyndar ekki hafa þig sem leiðsögumann ef við eigum að notast við þá landafræði sem þú sýnir í pistlinum.

Guðmundur Guðmundsson, 10.7.2008 kl. 19:54

3 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Engin Seyðisfjörður

Einar Bragi Bragason., 11.7.2008 kl. 01:53

4 identicon

HEHEHEHEHEHEHE  - ljótt að hlæja að óförum annarra en ég get ekki stillt mig - HEHEHEHE

Björg mín Við áttum nú góða daga í Húsavík og fleiri stöðum um árið. Ekki amalegt að setjast á Gamla Bauk í blíðunni og fá sér einn kaldan og sjóræningjapylsur?

Seyðisfjörður hefur enga kvöldsól Einar Bragi...

Bylgja (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 11:06

5 Smámynd: Björg Árnadóttir

Mikið þykir mér gott að geta glatt ykkur. Þessi ágæta ferðasaga hefur glatt margan í gegnum árin bæði í bútum og heild.  Dvölin á Húsavík með Bylgju og félögum var hins vegar jafn góð og umrædd ferð var hörmuleg.

Einar: Það er satt sem Bylgja segir - Það er engin kvöldsól í SeyCity, en... er hægt að fá þar ís úr vél??

Svo frábið ég mér alla smámunasemi eins og það að vera að nefna með staði og örnefni í réttri röð! Smámunir sem skaða söguna ekkert að ráði. Eða er það? 

Björg Árnadóttir, 11.7.2008 kl. 14:45

6 Smámynd: Guðmundur Guðmundsson

Nei, aldeilis enginn skaði á sögunni, vildi bara koma þessu að með villuna!

Guðmundur Guðmundsson, 11.7.2008 kl. 22:24

7 Smámynd: Ragnheiður

Þetta er einhver sú svakalegasta ferðasaga sem ég hef lesið !

Ragnheiður , 13.7.2008 kl. 18:33

8 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Björg mín, þetta hefur verið svakaleg ferð. Þú átt sko alla mína samúð. Við Guðmundur heitinn fórum "eina góða" ferð með krakkana í tjaldi og það var útilega sem nánast kom í veg fyrir það að ég færi aftur í slíka ferð.  Ég þekki þetta moment þegar mann langar til að garga á mann og annan! Þessi frásögn er mjög skemmtilega sett fram, ég sé ykkur í anda í þessu basli. Á þessum bæ er einmitt tjaldvagn á óskalistanum. Kveðja til ykkar allra ,mín kæra með ósk um góða ferð í næstu útilegu.

Sigurlaug B. Gröndal, 24.7.2008 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband