1.11.2008 | 13:21
Eigum við að kjósa núna?
Ég hef undanfarið orðið vör við að ýmsir sem vilja breytingar á stjórn landsins kalla eftir því að það verði kostið til Alþingis sem fyrst. Jafnvel ekki seinna en í vor.
Þetta er rökhugsun sem ég skil bara ekki. Ef við kjósum strax þá eru eftirtaldir möguleikar í boði:
Sjálfstæðisflokkur og Samfylking: Koma ekki til greina ef verið er að kalla eftir breytingum
Framsókn: Var við stjórn meðan góðærið var sem mest og mörg ár á undan þannig að þeir koma ekki til greina.
Vinstri grænir: Steingrímur J. stendur fyrir sínu, skoðanafastur og skarpur karl. En erum við sannfærð um að hans stefna sé sú rétta og það séu nógu margir í hans flokki af sama sauðahúsi til að þeir geti stjórnað landinu?
Frjálslyndir: Svei mér þá.... þennan flokk fatta ég ekki. Það er nefnilega fleira í landinu en fiskkvóti!
Ég sé semsagt ekki að kostningar núna kæmu neinu til leiðar öðru en að trufla núverandi valdhafa við að rembast við að koma einhverju í lag aftur. Nógu eiga þeir erfitt með það núna ótruflaðir þó þeir þurfi ekki líka að fara að reyna að halda á litlum börnum á kostningafundum og reyna að selja okkur þá hugmynd að það sé enginn betur fær um að stjórna landinu en einmitt þeir.
Eina leiðin til að fá fram raunverulegar breytingar er að láta karlfauskana sem klúðruðu þessu reyna að redda því helsta næstu mánuði. Á þessum mánuðum þurfum við, fólkið í landinu, að finna nýtt fólk, okkur sjálf, til að bjóða sig fram til starfa fyrir landið.
Það er enginn tilgangur að halda kostningar með sama fólkið í fararbroddi og nú er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.11.2008 | 11:30
Hagsýnn heimilisrekstur?
Hvar eru eiginlega skilin á milli þess að sýna hagsýni og fyrirhyggju í rekstri heimilisins og þess að hamstra?
Ef maður þarf að taka til í geymslunni og jafnvel fara með kerrufylli í Sorpu (Kölku hjá mér) til að koma góssinu fyrir af því eldhússkáparnir rúma það ekki þá er maður alveg áreiðanlega farinn að hamstra - eða það held ég.
En ef maður kaupir bara vel rúmlega af því sem maður þarf að nota næstu 1 - 2 mánuðina af því maður veit að það er að fara að hækka, er maður þá ekki bara svolítið hagsýnn? Eða hvað?
Ég hef reyndar gert hvorugt en var bara að velta þessu fyrir mér. Mér finnst t.d. meira en í lagi að fólk versli eitthvað af jólagjöfum og í jólabaksturinn núna. Þó það séu einhver slatti vikna til jóla!
En ef maður tímir ekki að kaupa brennivín á verðinu sem er sett á það þegar maður þarf að nota það.... þá bara sleppir maður því!! Það finnst mér að minnsta kosti. En það er nú líka ein af ástæðum þess að mörgum finnst ég eilítið skrýtin!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2008 | 16:50
Frábærir Færeyingar!
Alltaf skulu Færeyingar sýna það og sanna að þeir eru vinir í raun! Einhverra hluta vegna þykir manni mun vænna um útréttrar hjálparhönd þeirra en t.d. Norðmanna þó þeirra útrétta hönd sé ágæt. Maður veit nefnilega að Færeyingar eiga ekkert allt of mikið sjálfir!
Enn einu sinni skammast ég mín fyrir að hafa ekki druslast til að gefa í söfnunina fyrr á árinu þegar einn bærinn þeirra þurfti á aðstoð að halda. Ég ætlaði að gera það - en svo gerðist það bara ekki og ég er oft búin að skammast mín - enn meira núna!
Færeyingar vilja lána Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2008 | 16:08
Bakþankar dagsins
Yfirleitt þykja mér skrif Þráins Bertelssonar leiðinleg. Ég veit að það eru margir ósammála mér og það er gott. Það á að vera fjölbreytni í hlutunum.
Bakþankar Fréttablaðsins í dag eru þó undantekningin. Bráðsnjöll og beitt greining á tilveru okkar sem líka fékk mig til að brosa í kampinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.10.2008 | 13:36
Bankastjóralaun
Ég hef oggulítið verið að velta fyrir mér launum nýju bankastjóranna undanfarið. Þau eru svolítið mismunandi svona eftir því með hvaða gleraugum þau eru skoðuð. Þau eru t.d. alger lúsarlaun m.v. það sem fyrri bankastjórar fengu. Þau eru hins vegar gríðarlega há ef þau eru skoðuð í hlutfalli við aðra ríkisstarfsmenn.
Nýráðnir bankastjórar eru flestir fyrrum starfsmenn bankanna. Líkast til hefur einhver reiknað út að til að fá þá til að taka að sér starf bankastjóra með hinni auknu ábyrgð yrði að hækka við þau núverandi laun. Rökrétt.... eða hvað??
Eins og staðan er í dag hefði verið minnsta mál í heimi að bjóða þessu fólki starfið á mannsæmandi launum sem líka samræmdust launaskala ríkisstarfsmanna jafnvel þó um launalækkun yrði að ræða. Málið er nefnilega að fyrra djobbið og fyrirtækið er ekki lengur til þannig að það var verið að bjóða atvinnulausu fólki vinnu - ekki verið að lokka einhvern úr góðu starfi. Ef fólkið vildi ekki djobbið fyrir t.d. 900.000 á mánuði, þá var enginn skaði skeður - það er fullt af vel menntuðu og kláru fólki á lausu sem myndi þyggja þessi laun með þökkum!
Ég vil taka fram að ég sakast ekki við þetta fólk að þiggja þessi laun. Ég myndi þyggja með þökkum að einhver byði mér slík laun þó ég vissi að ég gæti ekki í raun og veru unnið fyrir þeim. Bullukollarnir í þessu máli eru sem fyrr bankastjórnirnar sem bjóða og samþykkja þessi og önnur ráðningarkjör fyrir okkar hönd.
Almesta hneykslið er samt að enn einu sinni skuli konan vera með lægri laun en karlinn! Lærum við aldrei neitt? Erum við í raun og sannleika komin 30 ár aftur í tímann eins og grínast hefur verið með??
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2008 | 11:51
Íslendingur eða Norðmaður?
Ég var alin upp við að bera ábyrgð á gjörðum mínum og standa fyrir máli mínu. Þess vegna finnst mér að við - þ.e. íslenska þjóðin - eigum að borga þær skuldir sem á okkur falla lögum samkvæmt. Svo eigum við að fara beint í að skoða lögin og breyta þeim þannig að einhverjir gúbbar geti ekki skuldsett þjóðina án þess að spyrja hana álits.
Við eigum s.s. að borga það sem okkur ber en EKKI að borga allar skuldir hvaða nafni sem þær nefnast. Því í ósköpunum ættum við að borga áhættufjárfestingar sem tengjast fyrirtækjum víða um heim þegar íslendingar sem plataðir hafa verið til að leggja ævisparnaðinn sinn í góðri trú í "ALGERLEGA ÖRUGGA" sjóði í bönkunum eru búnir að tapa stórum hluta ef ekki öllu? Ég hef ekki heyrt talað um að ríkið gangi í ábyrgð fyrir þessum eignum almennings hér heima, því skyldi ríkið þá gera það í útlöndum? Ég skil bara alls ekki hvers vegna réttur útlendinga til greiðslu úr íslenskum ríkissjóði geti verið stærri en réttur íslendinga??
Ég heyrði því fleygt í útvarpinu í gær að það gæti verið möguleiki að Norðmenn "eignuðust" okkur. Held að þetta hafi verið góðlátlegt grín, en öllu gríni fylgir nokkur alvara. Ég segi nú bara fyrir minn smekk: Heldur vil ég ganga noregskonungi á hönd en að lúta skilyrðum fjárkúgunar og greiða ótalda milljarða til bresks almennings fyrir hönd fyrrnefndra gúbba til þess eins að fá lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum sem að auki veðsetur framtíð okkar og barna okkar - já, og barnabarna!
Ég efast ekkert um að það að fá ekki lán hjá sjóðnum veldur okkur ómældum erfiðleikum. En þetta er líka spurning um stolt. Ég vil ekki lúta kúgun sem þetta skilyrði er (ef satt reynist). Ég vil ekki heldur skuldsetja allt sem við eigum og öflum áratugi fram í tímann. Þá vil ég heldur upplifa sjálf harðræði næstu árin. Það er illskárra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.10.2008 | 15:56
Ofurkona!
Í dag er ég ofurkona!
Ég er búin að: Ryksuga, moppa, skúra, skipta á rúmum, þvo þvotta, baka hafrakex og rúllutertu og marinera kjúllann fyrir kvöldið.
Næst á dagskrá er að skella sér á hlaupabrettið og svo í sturtuna áður en kvöldmaturinn verður eldaður og borinn á borð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.10.2008 | 19:37
Á að bíta höfuðið af skömminni?
Mér þætti það lágkúra af verstu sort ef við létum það yfir okkur ganga að Bretar kæmu hingað í desember með herþoturnar sínar til að "verja okkur". Eigum við ekki að halda örlítilli sjálfsvirðingu?
Ég heyrði Geir segja í sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum að þessi "heimsókn" þeirra væri löngu ákveðin og væri á vegum Nató og bla, bla, bla, bla. Mér er sko hundaskíts sama á hverra vegum þeir koma! Þeir koma bara ekki!!
Ég er ekki alveg nógu forfrömuð í kristninni til að bjóða Bretum hinn vangann, enda finnst mér þeir hreint ekki eiga hann skilinn. Eina leiðin til að fá mig til að hugsa um að skipta um skoðun á þessu máli, væri ef þeir (Gordon og Elskan) bæðust báðir tveir, hátt og skýrt, afsökunar á framferði sínu og byðu bætur fyrir. Þá myndi ég hugsa málið. Annars geta þeir og þoturnar þeirra átt sig!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.10.2008 | 00:05
Leikhúsferð
Fór í Borgarleikhúsið áðan að sjá Fýsn.
Tvennt jákvætt við þá ferð: Ég borgaði ekkert fyrir miðana og það var ekkert hlé þannig að ég sá allt stykkið. Ég hefði s.s. áreiðanlega farið út í hléi ef það hefði verið hægt.
Þegar ég var svo að rífa niður stykkið við karlinn minn áðan fórum við nú að hugsa þetta aftur á aðeins jákvæðari nótum: Eiginlega er leikritið sjálft ekki alslæmt. Hins vegar er uppsetningin hroðaleg. Ferleg notkun á stórskrýtnum hljóðum, teygt á verkinu útí hið óendanlega og allt gert eins framúrstefnulegt og artífartí og mögulegt er. Ég hugsa að þetta gæti sómt sér ágætlega sem helmingi styttri einþáttungur settur upp á einhvern sæmilega venjulegan máta. Þá hefði maður kannski náð einhverjum tengslum við verkið. Efnið reyndar andstyggilegt en það er nú svo margt þannig.
En niðurstaðan er s.s. sú með þessa sýningu að venjulegt sænskt vandamáladrama af bestu (verstu!) gerð kemst varla í hálfkvisti við þessa sýningu. Gott að koma heim og horfa á ameríska froðu beint á eftir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.10.2008 | 12:02
Atvinnuleit
Jæja.... ég er alltaf einstaklega heppin! Ég var rétt búin að ákveða að leita mér að nýju starfi þegar bankarnir hrundu og hundruðir sprenglærðra bankamanna flóðu út á markaðinn!
Ég er s.s. að leita mér að vinnu! Veit einhver um starf handa einni sem getur allt, er fljót að læra það sem hún kann ekki, þarf ekki að vera heima vegna veikra barna og er aldrei veik sjálf?
Eini gallinn er að ég er ekki með háskólamenntun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)