Færsluflokkur: Bloggar

Hvernig er þetta hægt?

Hvernig er hægt að ganga svona hart fram í sparnaði á jafn stóru svæði og hér er um að ræða? Það er ekki eins og þessi skurðstofa og fæðingadeildin hafi staðið meira og minna ónotuð og því verið óþörf, það er öðru nær!

Í sumar stóð til að loka bráðamóttökunni sem er daglega frá 16-20. Sem betur fer var hætt við það enda var hún mikið notuð. Það varð samt ekki til þess að læknarnir hefðu ekki neitt að gera um miðjan daginn, nei, eftir sem áður er nokkura daga bið eftir tíma um miðjan daginn. Þannig að ég get ekki séð að það hafi verið svigrúm til að stytta opnunartímann hjá þeim.

Í sumar var skurðstofunni lokað vegna sumarleifa. Meðan á því stóð voru allar konur á meðgöngu sem voru skilgreindar í áhættu sendar til að fæða í Reykjavík. Gott og blessað. En það er bara ekki alltaf vitað fyrirfram hvernig fæðing fer fram! Hann Tristan okkar kom í heiminn í sumar einmitt þegar skurðstofan var lokuð. Með smá baksi og brölti komst drengurinn óskaddaður í heiminn. Móðirin var hins vegar illa farin og þurfti á aðstoð saumastofu að halda. Enginn læknir á vakt og engin skurðstofa! Þess vegna stóð til að pakka henni sundurtættri í sjúkrabíl ásamt barninu og keyra með hana til Reykjavíkur og síðan aftur til baka þegar þeir væru búnir að sinna henni! Til allrar hamingju sýndi sig þarna að það getur verið gott að búa í litlu samfélagi því ljósan hringdi í lækni á staðnum sem stóð upp frá matargestunum sínum til að koma og sinna hinni nýbökuðu móður. Hann á þakkir skildar!

Þetta var ekkert stóralvarlegt tilvik og fór að auki á besta veg. En hvað ef eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir? Hvað ef barn eða móðir þarf óvænt á lífsnauðsynlegri aðstoð að halda? Á þá að bjóða þeim í bíltúr til Reykjavíkur? Sá bíltúr getur tekið allt of langan tíma til þess að það sé verjandi að láta öll nauðsynleg tól og tæki standa ónotuð í næsta herbergi við hliðina!


mbl.is HSS segir upp fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölþjóðasamfélagið

Gert við indverskættaðan svía

Sænskur bíll, framleiddur á Indlandi er staðsettur á Íslandi. Var í gær handsalaður dönskum manni fyrir samevrópska seðla til útflutnings til Rússlands.

Svona er fjölþjóðasamfélagið í dag. Smile


Frosin lán

Núna virðist frelsun okkar skuldaranna felast í því að "frysta" erlendu lánin okkar. Annar hver maður virðist hafa stormað í bankann og fengið nokkura mánaða frost á skuldirnar. Ég held að þetta geti verið töluvert áhættusamt og ég held líka að það sé stór hluti fólks sem alls ekki skilur hvað það er að gera í raun og veru.

Tilgangurinn með þessari frystingu er bara einn: Tekinn er séns á að gengi íslensku krónunnar verði hagstæðara skuldurum þegar frostakaflanum lýkur en það er nú.

En hversu miklar líkur eru á því í raun og veru? Núna eru 6 vikur síðan hrunið fór af stað og enn eru engar líkur á að krónan styrkist á næstunni og sérfræðingar virðast sammála um að hún geti vel átt eftir að falla töluvert í viðbót. Ef það gerist, verður skuldin og afborgunin enn hærri í lok frostakaflans en hún er núna.

Einnig hef ég heyrt á fólki að það haldi að lánin séu fryst á þann hátt að þau hætti að hækka. Það er alls ekki rétt. Eina sem gerist er að afborganirnar sem annars hefðu verið greiddar á venjulegum tíma eru færðar aftur fyrir lánið og það þannig lengt eða þá að geymdu afborgununum er deilt á eftirstöðvarnar þannig að hver afborgun um sig hækkar sem því nemur. Svo er veðjað á gengið, að það verði betra þá en nú. Við komum alltaf til með að borga - spurningin er bara hvenær og á hvaða gengi.

Ég er ekkert viss um að krónan verði komin niður fyrir núverandi gengi eftir 3 mánuði. Ég vona það, en ég myndi ekki veðja svo mikið sem túkalli um það. Ef hún verður það ekki þá sitja allir skuldarar erlendra lána í enn verri súpu en þeir hefðu gert ef þeir hefðu ekki fryst lánin sín.  


Súkkulaði

Ég er búin að komast að því af hverju það er aldrei notað rjómasúkkulaði til að hjúpa konfekt og kökur og þessháttar.  Það nefnilega stífnar ekki! Cool

Ég s.s. útbjó nokkra konfektmola eftir eigin hugdettu og ákvað að hjúpa þá með rjómasúkkulaði. Það er voða gott en ekki nokkur leið að geyma þá eða taka upp með fingrunum nema verða allur í klíningi. Svo núna sitja molarnir í ísskápnum og bíða eftir að verða hjúpaðir utanum rjómasúkkulaðið með hjúpsúkkulaði. Það verður ekki verra - enn meira súkkulaði og það er sko bara til bóta! Grin


Ráðinn!

Er ekki hægt að ráða karlinn sem skipstjóra á skútuna?? Ég er sko alveg til í að borga svona karli ja... alveg bankastjóralaun til að koma og redda þessu. Ég er líka nokkuð viss um að hann hefur engra eiginhagsmuna að gæta í einkarekstri hérna og ekki heldur þörf fyrir að halda andliti gagnvart gömlum og ómögulegum stefnum.

Ráðum hann!! Grin


mbl.is Gætum hæglega sleppt IMF-láni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki keyra á!

Núna er ekki góður tími til að klessa bílinn sinn! Ekki einu sinni þó hann sé í kaskó!

Systir mín og mágur voru að lenda í því að eyðileggja 2ja ára gamla bílinn sinn í árekstri. Sem betur fer meiddist enginn. Bíllinn var í kaskó svo þetta var ekkert stórmál..... ja, eða hvað???

Bílasamningurinn sem var á bílnum var tryggður í erlendri mynt þannig að þrátt fyrir að tryggingafélagið (TM) hefði borgað þeim mjög gott verð fyrir bílinn þá skulda þau enn rúmlega 1,5 milljónir!! Crying

Þar sem að þau voru í sjálfskuldarábyrgð á samningnum þurfa þau að borga þó ekki sé neinn bíllinn lengur. Við vorum nú öll sammála um að það gæti ekki orðið mikið mál að ganga frá eftirstöðvunum - þau myndu bara halda áfram að borga, eða eitthvað álíka, en annað kom á daginn! Fjármögnunarfyrirtækið (SP fjármögnun) sagði þeim nánast að éta það sem úti frýs! Samningurinn er bara gjaldfelldur og ekki orð um það meir! Jú, einstaka aðili hafði fengið að dreifa greiðslum á 6 mánuði en þá með tryggingum! Duhh!! Hver á eiginlega 1,5 millur aukalega til að greiða á 6 mánuðum?

Jæja, þau sneru sér þá til bankans "síns" (eigum við þá ekki alla núna) í þeirri trú að bankinn myndi aumkva sig yfir þau (tek fram að þau eru MJÖG skilvís!) en nei, enga peninga að hafa þar núna. Bankinn benti þeim á að tala við lífeyrissjóðina. Eftir því sem ég best veit lána lífeyrissjóðir einungis gegn fasteignaveði og það undir eitthvað ósköp lágri veðprósentu. Veit ekki hvort það sleppur hjá þeim. Enda hundfúlt að þurfa að veðsetja húsið sitt til að kaupa bíl sem er ekki lengur til!!

 Svo að mitt ráð til ykkar allra þarna úti:

EKKI KLESSA BÍLINN YKKAR!


Eigum við að kjósa núna?

Ég hef undanfarið orðið vör við að ýmsir sem vilja breytingar á stjórn landsins kalla eftir því að það verði kostið til Alþingis sem fyrst. Jafnvel ekki seinna en í vor.

Þetta er rökhugsun sem ég skil bara ekki. Ef við kjósum strax þá eru eftirtaldir möguleikar í boði:

   Sjálfstæðisflokkur og Samfylking:  Koma ekki til greina ef verið er að kalla eftir breytingum

   Framsókn:  Var við stjórn meðan góðærið var sem mest og mörg ár á undan þannig að þeir koma ekki til greina.

   Vinstri grænir:  Steingrímur J. stendur fyrir sínu, skoðanafastur og skarpur karl. En erum við sannfærð um að hans stefna sé sú rétta og það séu nógu margir í hans flokki af sama sauðahúsi til að þeir geti stjórnað landinu?

   Frjálslyndir:  Svei mér þá.... þennan flokk fatta ég ekki. Það er nefnilega fleira í landinu en fiskkvóti!

Ég sé semsagt ekki að kostningar núna kæmu neinu til leiðar öðru en að trufla núverandi valdhafa við að rembast við að koma einhverju í lag aftur. Nógu eiga þeir erfitt með það núna ótruflaðir þó þeir þurfi ekki líka að fara að reyna að halda á litlum börnum á kostningafundum og reyna að selja okkur þá hugmynd að það sé enginn betur fær um að stjórna landinu en einmitt þeir.

Eina leiðin til að fá fram raunverulegar breytingar er að láta karlfauskana sem klúðruðu þessu reyna að redda því helsta næstu mánuði. Á þessum mánuðum þurfum við, fólkið í landinu, að finna nýtt fólk, okkur sjálf, til að bjóða sig fram til starfa fyrir landið.

Það er enginn tilgangur að halda kostningar með sama fólkið í fararbroddi og nú er.


Hagsýnn heimilisrekstur?

Hvar eru eiginlega skilin á milli þess að sýna hagsýni og fyrirhyggju í rekstri heimilisins og þess að hamstra?

Ef maður þarf að taka til í geymslunni og jafnvel fara með kerrufylli í Sorpu (Kölku hjá mér) til að koma góssinu fyrir af því eldhússkáparnir rúma það ekki þá er maður alveg áreiðanlega farinn að hamstra - eða það held ég.

En ef maður kaupir bara vel rúmlega af því sem maður þarf að nota næstu 1 - 2 mánuðina af því maður veit að það er að fara að hækka, er maður þá ekki bara svolítið hagsýnn? Eða hvað?

Ég hef reyndar gert hvorugt en var bara að velta þessu fyrir mér. Mér finnst t.d. meira en í lagi að fólk versli eitthvað af jólagjöfum og í jólabaksturinn núna. Þó það séu einhver slatti vikna til jóla!

En ef maður tímir ekki að kaupa brennivín á verðinu sem er sett á það þegar maður þarf að nota það.... þá bara sleppir maður því!!  Það finnst mér að minnsta kosti. En það er nú líka ein af ástæðum þess að mörgum finnst ég eilítið skrýtin! Grin


Frábærir Færeyingar!

Alltaf skulu Færeyingar sýna það og sanna að þeir eru vinir í raun! Einhverra hluta vegna þykir manni mun vænna um útréttrar hjálparhönd þeirra en t.d. Norðmanna þó þeirra útrétta hönd sé ágæt. Maður veit nefnilega að Færeyingar eiga ekkert allt of mikið sjálfir!

Enn einu sinni skammast ég mín fyrir að hafa ekki druslast til að gefa í söfnunina fyrr á árinu þegar einn bærinn þeirra þurfti á aðstoð að halda. Ég ætlaði að gera það - en svo gerðist það bara ekki og ég er oft búin að skammast mín - enn meira núna! Blush


mbl.is Færeyingar vilja lána Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bakþankar dagsins

Yfirleitt þykja mér skrif Þráins Bertelssonar leiðinleg. Ég veit að það eru margir ósammála mér og það er gott. Það á að vera fjölbreytni í hlutunum.

Bakþankar Fréttablaðsins í dag eru þó undantekningin. Bráðsnjöll og beitt greining á tilveru okkar sem líka fékk mig til að brosa í kampinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband